Getur reynt á þolrifin að vera hönnuður

Hörður Lárusson og Jón Ari Helgason.
Hörður Lárusson og Jón Ari Helgason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hörður Lárusson og Jón Ari Helgason standa fyrir sýningunni Hannað/Hafnað í Hafnarhúsinu, þar sem sjá má verk nokkurra grafískra hönnuða, en verkin eiga það sameiginlegt að þeim var öllum hafnað af viðskiptavinum. 

„Í stuttu máli eru þarna grafískir hönnuðir að sýna verk sem þeir eru rosalega ánægðir með, en var af einhverjum ástæðum hafnað af kúnnum. Sýningin er á persónulegum nótum, og er þar að finna allt frá áður óséðum tillögum að nýjum lógóum fyrir þekkt fyrirtæki, og yfir í plaköt fyrir kvikmyndir. Þetta eru verk sem hönnuðirnir voru rosalega ánægðir með, og þótt það sé fullur skilningur á milli hönnuðarins og kúnnans þá er kannski ákveðið ósætti við að þeim hafi verið hafnað. Það eiga allir grafískir hönnuðir nokkur svona verk, eða jafnvel fullt af þeim. Þetta eru verk sem hönnuðunum þykir vænt um,“ segir Hörður, sem sjálfur á verk á sýningunni.

„Þetta er eitthvað sem situr í manni. Að vera hönnuður er mun persónulegri vinna en fólk almennt áttar sig á. Mannskepnan er svo breysk, og við eigum erfitt með að sætta okkur við að fólki finnst það sem við erum að gera ekki fínt. Þá er ég ekki bara að tala um hönnun. Maður hefur heyrt því fleygt að það sé stærsti ótti mannsins að aðrir komist að því að maður sé ekki fullkominn. Að vera hönnuður er að setja fram sína persónulegustu skoðun, kannski oft á dag, og megninu er hafnað,“ bætir Hörður við, en hverskonar verkefni teflir hann sjálfur fram á sýningunni?

„Þetta var tillaga að lógói fyrir RVK Studios, sem þá átti reyndar að heita Blueeyes Visions. Ég var búinn að gera nokkrar, og svo datt ég niður á þessa sem mér fannst gjörsamlega borðleggjandi. Svo mætti ég til leiks fullur öryggis, kynnti tillöguna og fékk svarið: „nei, nei – ég held ekki“. Hörður segir þó að höfnunin hafi verið ósköp kurteisleg, sem er alls ekki alltaf raunin.

„Maður er svo sem orðinn vanur því að fá hlutum sem þessum slengt framan í sig. Þetta var ósköp kurteislegt. Maður hefur lent í því að fólk segi hreinlega „oj, hvað þetta er ógeðslegt“ um verkefni sem maður hefur lagt allt sitt í,“ segir Hörður og hlær.

„Þannig að þetta situr ennþá svolítið í mér, þótt það sé fullur skilningur á því hvers vegna kúnninn hafnaði tillögunni. Tilgangur sýningarinnar er ekki að gera lítið úr því að verkefnunum hafi verið hafnað. Það er yfirleitt góð og gild ástæða fyrir því. En stundum þykir okkur það samt pínu óskiljanlegt.“

Hörður segir að í dag þyki bæði eftirsóknarverðara og fínna að vera hönnuður en það þótti fyrir nokkrum árum. Starfið geti þó vissulega reynt á þolrifin, eins og gestum sýningarinnar gefst kostur á að sjá.

„Í dag þykir eftirsóknarverðara að vera hönnuður en það þótti fyrir 10 árum. Vinnan sjálf hefur þó ekkert breyst og sýningin gefur innsýn í það. Það er flókið ferli að hanna og byggist á sérfræðiþekkingu, þó að lausnin sjálf geti verið afar einföld.“

En hvernig tilfinning er það að geta loksins deilt hinu áður óséða verkefni með öðrum?

„Ég skal alveg viðurkenna það að ég hlakka svolítið til að koma þessu frá mér. Ég vona að þetta loki ákveðnum kafla, það væri ekkert verra,“ segir Hörður léttur í bragði.

Lógó sem Hörður Lárusson hannaði fyrir framleiðslufyrirtækið RVK Studios, sem …
Lógó sem Hörður Lárusson hannaði fyrir framleiðslufyrirtækið RVK Studios, sem upphaflega átti að heita Blueeyes Visons. Lógóið var aldrei notað. Hörður Lárusson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál