Útveggirnir voru bara nothæfir

Erla Sólveig Óskarsdóttir.
Erla Sólveig Óskarsdóttir.

Húsgagnahönnuðurinn Erla Sólveig Óskarsdóttir sló í gegn með stólinn Dreka 1996 en hann hlaut Red Dot-verðlaunin. Seinna var stóllinn apaður eftir af Kínverjum sem hafði slæmar afleiðingar. Nú, rúmlega 20 árum síðar, er hún búin að gera upp gamalt hús en á dögunum opnaði hún stúdíóið KIMI. Stúdíóið er staðsett á Frakkastíg 14 en þar sýnir hún húsgögn sín ásamt því að vera með vinnustofu.  

Erla Sólveig segir mér að henni finnist áhugavert að gera upp gömul hús. Þau höfði frekar til hennar en ný húsnæði. 

„Þess vegna gladdist ég þegar ég fékk tækifæri til að kaupa bakhúsið á Frakkastígnum. Auk þess kann ég mjög vel við mig í Þingholtunum þar sem foreldrar mínir bjuggu. Ég gerði mér hins vegar ekki grein fyrir hve illa var komið fyrir þessu húsi, kannski eins gott annars hefði ég sennilega ekki ráðist í verkið. Vinnan við húsið hefur tekið heilt ár, það voru í raun aðeins útveggirnir sem voru nothæfir. Þakið og milliloftið var fallið saman og moldargólf á jarðhæðinni,“ segir Erla Sólveig. 

Húsið er 48 fm á tveimur hæðum og með þrennum útidyrum. Tveir inngangar eru frá Frakkastíg og einn út á Grettisgötu. Þegar ég spyr hana hvers vegna hún hafi ákveðið að ráðast í þetta verkefni núna segir hún að það færist í vöxt að hönnuðir selji hlutina sína sjálfir. 

„Það hefur færst í vöxt að hönnuðir sem eru í samtarfi við framleiðendur séu einnig sjálfir að framleiða einfaldari hluti og selja sjálfir. Með því móti fær hönnuðurinn meira í sinn hlut annars er það bara lítil prósenta af framleiðsluverði hlutanna. Svolítið eins og beint frá býli. Þetta hefur verið draumur hjá mér í talsverðan tíma að láta reyna á þetta fyrirkomulag. Það er líka mjög ánægjulegt að hafa nú stað þar sem ég get sýnt húsgögnin mín,“ segir hún. 

Eins og fyrr segir sló Erla Sólveig í gegn árið 1998 með stólinn Dreka.  

„Sá stóll hefur hlotið alþjóðleg verðlaun, s.s. Red Dot Award, og verið seldur um víðan völl. En því miður líka verið „kóperaður“ af kínverjum sem hefur sett strik í reikninginn. En stóllinn var framhald af stólnum Nytorv sem ég hannaði sem útskriftarverkefni frá Danmarks Design Skole.“

Hvað gerðist svo í framhaldinu af því?

„Ég sýndi frumgerð af stólnum í Kaupmannahöfn þar sem þýskir framleiðendur komu auga á hann og föluðust eftir framleiðsluréttinum. Það fyrirtæki framleiddi Dreka í um áratug en nú er annað þýskt fyrirtæki tekið við.“

Hver er þín eigin uppáhaldshönnun?

„Það sem ég er að vinna að hverju sinni er oftast mitt uppáhald. Nú um stundir er ruggustóllinn Rokki ofarlega á blaði hjá mér. Ég sá hins vegar þegar ég var búin að raða upp húsgögnunum mínum í Kima núna fyrir HönnunarMars hvað ég ber miklar taugar til þeirra allra. Þar er elsti stóllinn frá 1996 og sá nýjasti frá 2016.“

Hvað hefur þú hannað mörg húsgögn á ferlinum?

„Ég hef ekki tölu á því. Ef ég ætti að stilla þeim öllum upp þyrfti ég sennilega 448 fm, ekki 48 fm eins og nú er.“

Hvað heillar þig í dag þegar þú ert að hanna?

„Glíman við að láta allt ganga upp. Þetta er eins og að leysa spennandi gátu og ég er tilbúin til að leggja ýmislegt á mig til að svo megi verða.“

Hvaða efnivið finnst þér mest spennandi að nota?

„Það fer eftir hvað ég er að hanna, hvað passar best fyrir hlutinn. En til dæmi plast gefur mikið frelsi í formsköpun en hefur svo líka sína annmarka.“

Hvað drífur þig áfram sem hönnuð?

„Endalausar hugmyndir og sköpunarþrá.“

Hvað finnst þér skipta máli þegar þú hannar nýjan hlut?

„Að hægt sé að nota hann og njóta þess að horfa á hann.“

Hvaða húsgagn hefðir þú viljað hanna?

„„Superleggera“-stólinn efir Gio Ponti.“

Hvernig eru venjulegir dagar í vinnunni hjá þér?

„Venjulegir dagar fara því miður oft í alls konar stúss en bestu dagarnir eru þegar ég get verið ein úti í skúr að vinna að nýrri frumgerð.“

Hvað gerir þú til þess að slaka á eftir annasama daga?

„Lestur er besta slökunin.“

Hefur þú einhvern tímann verið við það að ofkeyra þig í vinnu?

„Já, sérstaklega núna síðasta árið við vinnuna við húsið á Frakkastíg, hann Kima minn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál