Sonurinn farinn að hafa sterka skoðun á herberginu

Sara Sjöfn Grettisdóttir, blaðamaður og bloggari á Femme, er mikill fagurkeri og bera herbergi sona hennar því vitni. Sara Sjöfn, sem nú er í fæðingarorlofi, hefur nostrað við hvern krók og kima hjá drengjunum tveimur á afar smekklegan hátt.

Yngri sonur Söru Sjafnar kom í heiminn fyrir fimm mánuðum, og leikur blaðamanni forvitni á því hvort Sara hafi orðið vör við hina víðfrægu hreiðurgerðartilfinningu sem margar mæður kannast við.

„Já, ég verð að segja það, en það var ekki tengt barnaherberginu því það var gert eftir að hann kom í heiminn. Við máluðum eitthvað aðeins og svo voru gerðar ófáar breytingar. Hreiðurgerð tengist, að ég held, líka því að vera með allt í þokkalegri röð og reglu og heimilið hreint og fínt þegar þú kemur heim með nýfætt barn. Því fyrstu vikurnar eftir barnsburð ertu bara að sinna og kynnast þessum nýja einstaklingi,“ segir Sara Sjöfn, sem segist ekki hafa unnið út frá sérstöku þema þegar herbergi drengjanna voru skipulögð.

„Við vorum ekki með neitt þema en skipulag er mjög mikilvægt í barnaherbergjum. Herbergin hjá okkur eru ekki það stór og hef ég mikið velt því fyrir mér hvernig ég ætti að hafa herbergið hjá þeim eldri, enda á hann dót sem þarf allt að eiga sinn stað. Svo þarf líka að vera pláss fyrir leik, en þá koma góðar hirslur sterkar inn. Hann er með tvo djúpa skápa úr Stuva línunni úr IKEA þar sem flest allt hans dót kemst fyrir, en er jafnframt mjög aðgengilegt. Síðan er hann með góða mottu á gólfinu svo þægilegt sé að leika sér þar og nóg pláss til þess að leika. Einnig erum við heppin með skápapláss á ganginum, þannig að ég þarf ekki að hafa fataskápa inni í herbergjunum,“ segir Sara Sjöfn.

„Yngri strákurinn er bara fimm mánaða þannig að það herbergi er með kósý indíánatjaldi og öðru dóti sem hann hefur fengið frá bróður sínum, sem leikur sér reyndar reglulega þar inni. Eins og er fær hann bara nýja bleiu í herberginu sínu, og einstaka krúttstund með bróður sínum í tjaldinu,“ segir Sara Sjöfn og bætir við að herbergi drengjanna séu talsvert ólík, enda þarfir þeirra mismunandi.

„Þau eru mjög ólík þar sem þessi yngri er bara fimm mánaða og hinn fjögurra ára í fullu fjöri. En veggskrautið er kannski svipað að einhverju leyti, en þar er móðirin að verki. Þessi fjögurra ára hefur reyndar orðið sterkar skoðanir á herberginu sínu þannig að það á líklega eftir að taka einhverjum breytingum.“

Þegar Sara Sjöfn er spurð að því hvað einkenni vel heppnuð barnaherbergi stendur ekki á svörum, en gott skipulag er henni ofarlega í huga.

„Gott skipulag, gólfpláss til að leika á og ekki of mikið af dóti. Það þarf líka að hafa í huga að börnin sofa í herberginu sínu, þannig að þetta er hvíldarstaður líka. Við tókum upp á því fyrir ekki svo löngu að taka slatta af dóti burt og hvíla í ákveðinn tíma, og það hefur reynst okkur vel,“ segir Sara að endingu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál