Ávaxtatrén þurfa skjól og sólríkt umhverfi

Ólafur Sturla Njálsson.
Ólafur Sturla Njálsson.

Aukin gróðursæld í þéttari byggðakjörnum landsins hefur ýmsa kosti í för með sér, m.a. þann að sá draumur íslenskra garðyrkjuáhugamanna að geta gætt sér á safaríkri plómu eða peru úr eigin garði þarf ekki endilega að vera svo fjarlægur lengur. Að ýmsu þarf þó að huga.

Ávaxtatré geta vel spjarað sig hér á landi, en þau þurfa skjól. Það þýðir ekkert að reyna að rækta þau úti á víðavangi,“ segir Ólafur Sturla. Hann keypti Nátthaga 1987 og byrjaði strax að planta trjám og búa til skjól í nauðbitnum móa, mel og urðarhólum. „Hér var ekkert hús, vatn né rafmagn, ekkert tré þegar ég byrjaði, bara túndrulegt fjallið fyrir ofan og ræktuð tún fyrir neðan og er oft ansi vindasamt enda mikið um vindstrengi frá fjöllunum.“

Hann stofnaði Náttaga Garðplöntustöð 1990 og býr að góðri þekkingu á ávaxtatrjáarækt frá námsárum sínum í garðyrkjufræðum í Noregi. En Ólafur Sturla hefur aukinheldur gert töluverðar tilraunir með ávaxtatrjáarækt síðustu tíu árin.

„Ég hafði ekki mikla trú á þessu í upphafi en svo byrjaði þessi bylgja,“ segir hann. Eftir að hafa fylgst með þeim Sæmundi Guðmundssyni á Hellu og Jón Þóri Guðmundssyni á Akranesi gera góða hluti í ávaxtaræktinni hélt Ólafur Sturla til Finnlands í september 2007 og heimsótti þrjár garðyrkjustöðvar, sem honum hafði verið bent á.

Fljót að jafna sig þegar sumarið er gott

Í kjölfarið keypti hann ávaxtatré frá Leif Blomqvist sem rekur Blomqvist Planteskole. „Hann er með mikið úrval sem hann hefur prófað hjá sér,“ segir Ólafur Sturla og bendir á að Blomkvist Planteskole sé á sömu breiddargráðu og Reykjavík. Leifur sé því í ræktun sinni að takast á við marga sömu erfiðleikana og íslenskir garðyrkjuáhugamenn varðandi ýmsa veðurfarsþætti, þó vissulega sé líka annað mjög ólíkt. „Finnski veturinn er miklu kaldari með allt að fjörutíu gráðu frosti og í finnskum skógum verður á sumrin miklu hlýrra, en vor og haust eru oft ansi erfið eins og gerist hjá okkur.

Ég endaði á að panta mikið frá honum og þannig byrjaði þetta ævintýri. Um 160 ávaxtatrjáayrki komu til Nátthaga frá Leifi. Seinni árin hafa bæst við ný harðger yrki frá Norður-Ameríku og fleiri löndum með aðstoð þeirra Sæmundar og Jóns.“

Ólafur Sturla flutti inn fyrstu ávaxtatrén sín frá Finnlandi árið 2008 og hefur verið með miklar tilraunir frá þeim tíma. Hann hefur líka viðað að sér mikilli þekkingu á því hvernig hin ýmsu yrki pluma sig í íslenskri veðráttu.

„Niðurstaðan er ánægjuleg,“ segir hann. „Það þarf litla hitabreytingu til að trén þrífist miklu betur og það hefur sýnt sig að þau eru fljót að jafna sig þegar gott sumar kemur, jafnvel þó að sumrin á undan hafi verið köld og blaut.“

Undanfarin ár hafa líka sýnt Ólafi Sturlu að ekki er þörf á jafn kuldaþolnum rótum fyrir íslenska ræktun og Leifur þarf að nota. Vel megi nota fleiri gerðir af grunnstofnum hér á landi.

Ávaxtatrén þrífast best á „sólbaðsstaðnum“

Eigi ávaxtatrén hins vegar að þrífast þá þurfa þau að vera í skjólgóðu rjóðri eða í garði með sól á móti suðaustri, suðri eða suðvestri. Að sögn Ólafs Sturlu dugar þó oft að trén njóti sólar við hálfan daginn, ef aðstæður eru réttar. „Ég hef oft sagt við fólk að maður gróðursetji ávaxtatré á sama stað í garðinum og maður færi sjálfur í sólbað.“

Hann útskýrir að á Íslandi þurfi ávaxtatré allan þann hita sem þau geta fengið. „Ef þau standa í of miklum vindi, þá eyða þau of mikilli orku í að verja sig fyrir vindinum og þeim er kalt.“

Fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í ávaxtatrjáarækt er líka best að fara hægt í sakirnar. „Ég ráðlegg öllum byrjendum þegar þeir eru að fá sér t.d. kirsuberja-, plómu- eða perutré að byrja bara með eitt tré af hverri tegund,“ segir Ólafur Sturla. Standi hugurinn hins vegar til eplatrjáa þá þurfa trén að vera a.m.k. tvö og sitt af hvoru yrkinu, þ.e. sitt af hvorri eplatrjáategundinni. „Þetta er nauðsynlegt til að þau frjóvgi hvort annað,“ útskýrir hann. Því þó að eplatré séu tvíkynja, þá þurfi blóm eplatrésins að fá frjó frá blómi af eplatré af öðru yrki. „Eplatré vill ekki frjó úr sjálfu sér, það vill frjó úr annarri sort með annað DNA.“

Þarf stundum að hjálpa býflugunum

Alla jafna er það síðan hlutverk býflugna að bera frjó milli blómanna og sjá til þess að þau beri ávöxt. Þegar sumrin á Íslandi eru köld og blaut eins og stundum vill verða, þá þarf mannshöndin hins vegar að aðstoða við frjóvgunina. „Þegar svo er þá þurfum við að leika býflugur,“ segir Ólafur Sturla. „Þá velur maður þurran dag á meðan allt er í blóma til verksins og tekur lítinn pensil og notar hann til að bera frjóið á milli blómanna. Þetta gerir maður með því að dusta varlega í blóm á einu trénu og bera yfir í blóm á hinu trénu og svo koll af kolli fyrir hvert blóm.“

Blómgun sína byggja ávaxtatré upp sumarið áður en þau bera ávöxt og eftir sumarið í fyrra þá geta ávaxtatrjáaeigendur á suðvesturhorninu leyft sér að vera vongóðir um góða blómgun þetta sumarið. Veðurfar þessa sumars mun hins vegar ráða úrslitum um það hversu vel ávöxtunum gengur síðan að þroskast og dafna.

Mælir með sumaryrkjum fyrir byrjendur

Ávaxtatré þroskast mishratt og þetta er nokkuð sem vert er að hafa í huga þegar valin eru ávaxtatré til gróðursetningar í garðinum heima. Þannig eru sum ávaxtatré sumaryrki, önnur haustyrki og enn önnur vetraryrki, en tíminn vísar til árstímans sem ávextirnir eru að ná fullum þroska á sínum heimaslóðum.

Ólafur Sturla segist mæla með því við þá sem koma til hans í Nátthaga að þeir velji sér sumaryrki. Sérstaklega þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref í ávaxtaræktinni. „Ég hef það fyrir venju að benda fólki á að velja eitt sumaryrki, þar sem aldinin eiga að vera að þroskast í ágúst eða byrjun september og svo eitt haustyrki sem þroskast þá í september.“ Hann bendir á að með þessu móti þá þurfi menn ekki að drífa sig í að borða alla uppskeruna á sama tíma, takist þeim að fá ávexti á trén, heldur sé ávöxtur síðara trésins þannig að þroskast þegar uppskeran á því fyrra er búin.

Sömuleiðis sé um að gera að velja yrki sem hafa svolítinn geymslutíma. „Sum sumaryrkin eru þannig að maður á helst bara að borða þau strax, því þau geymast kannski viku í ísskáp á meðan önnur geymast betur. Maður vísar fólki í gegnum þennan frumskóg með hverju einasta ávaxtatré sem maður selur.“

Nái ávextirnir síðan ekki að taka út fullan þroska áður en spáð er miklu haustfrosti, þá sé um að gera að tína þá og setja í skál á stofuborðinu og leyfa þeim að taka út þroskann þar. „Þegar komið er fram í október og von er á miklu frosti þá er um að gera að tína ávextina og láta þá eftirþroskast,“ útskýrir hann og segir 1-2 vikur í skál á borðinu geta dugað ávöxtunum til eftirþroskunar að verða tilbúnir til átu. „Eplin þola þó alveg vægt frost meðan þau eru ennþá á trénu.“

Þarf góðan forðapúða við ræturnar

Ekki er enn komið mikið af plöntum á sölusvæði Nátthaga fyrir sumarið, en ávaxtatrén eru þó komin út og segist Ólafur Sturla nota tækifærið og kenna fólki að móta trén með klippingu á meðan þau eru tiltölulega blaðlaus. „Þá sér fólk hvernig það á að halda áfram að móta trén,“ útskýrir hann.

Trén koma mjög vel undan vetri þetta árið og lítið mál er að gróðursetja ávaxtatré núna þar sem jörðin er frostlaus. Einnig eru haustgróðursetningar sérlega árangursríkar og þá er varla nokkur þörf á vökvun. „Ég hef gróðursett ávaxtatré um hávetur, þegar jörð er þíð og það hefur ekki skaðað þau.“

Eigi ávaxtatrénu að líða vel frá byrjun, þá mælir Ólafur Sturla með því að góður forðapúði sé útbúinn fyrir rætur trésins. „Ef við tökum aldin af trjánum þá erum við að taka við fullt af næringu frá trénu. Tréð var þegar búið að nota fullt af næringu til að búa til ávextina og þess vegna þarf jarðvegurinn að koma til móts við það með meiri næringu.“

Því sé um að gera að búa til góðan jarðvegspúða fyrir hvert tré.

Staur til stuðnings

Mælt er með að fólk grafi um 60 cm djúpa holu þegar það gróðursetur ávaxtatré. „Þá er ég bara að tala um þessa venjulegu rótardýpt,“ útskýrir Ólafur Sturla. Annars grefur fólk jafn langt niður og það kemst. Stundum er einhver fyrirstaða og þá má alveg hafa holuna breiðari í staðinn og koma næringunni þannig fyrir til hliðanna.“ Nota má rothaugamassa eða annan lífrænan áburð í forðapúðann til helminga við moldina. Síðan þarf að gefa trjánum áburð í byrjun maí á hverju ári svo þau nái að flytja hann tímalega upp í laufblöðin og svo aftur í byrjun júlí. Mælt er með um 40-50 g af alhliða áburði fyrir hvert tré.

„Trén gera ekkert ef þau svelta,“ segir Ólafur Sturla.

Ávaxtatré þurfa sömuleiðis að fá góðan staur sér til stuðnings þegar þau eru gróðursett. „Þau eiga ekki að svigna í vindinum, heldur þurfa þau að hafa staur á meðan þau eru að rótfesta sig,“ segir Ólafur Sturla og mælir með að staurinn sé hafður við tréð í að minnsta kosti þrjú ár.

Vera duglegur að skrifa niður nöfnin

Þegar keypt eru tré sem þegar eru með blómum, geta þeir ávextir stundum náð að þroskast það sumarið. Ekki er hins vegar óeðlilegt að það komi 2-3 ára hlé eftir það og jafnvel lengur áður en ávextir koma aftur á tréð.

Ólafur Sturla mælir með að fólk sé duglegt að skrifa niður nöfnin á þeim ávaxtatrjám sem það kaupir og staðsetningu þeirra í garðinum. „Með því móti er auðveldara fyrir sérfræðinga eins og mig að svara spurningum á borð við það af hverju það komi engin blóm á tréð,“ segir hann. „Þetta er líka mikilvægt til að hægt sé að safna áfram í reynslubankann yfir það hvaða ávaxtatrjáaryrki pluma sig og við hvaða aðstæður.“

Sjálfur er hann þakklátur Uppbyggingarsjóði Suðurlands fyrir að styrkja tilraunavinnuna sína, enda sé hún töluverður fjárhagslegur baggi á ekki stærra fyrirtæki. „Ég kemst ekki alltaf yfir allt sjálfur og læt starfsfólk mitt aðstoða við ýmis verk tengd tilrauninni, jafnhliða því að reka fyrirtækið sem á að standa undir sér. Fyrsta styrkupphæðin kemur í hús í haust haldi ég fullum dampi áfram!“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál