Glænýtt eldhús fyrir örfáa þúsundkalla

Svana Símonardóttir og fjölskylda hennar ákvað nýverið að stækka við sig, en í febrúar fluttu þau í einbýlishús á Akureyri. Þrátt fyrir að stuttur tími sé liðinn er fjölskyldan búin að koma sér prýðilega fyrir á nýja heimilinu. „Við fengum að vita það fimmtudaginn 16. febrúar að húsið væri okkar, og við fluttum inn föstudaginn 17,“ segir Svana, sem augljóslega er ekki mikið að tvínóna við hlutina.

Fjölskyldan lagðist ekki í miklar framkvæmdir, ef frá er talið baðherbergið, sem nauðsynlegt var að endurnýja, heldur notaðist við ódýrar lausnir til að fegra í kringum sig. Þá fékk eldhúsið andlitslyftingu, en breytingin kostaði einungis örfáa þúsundkalla.

„Þetta er upprunalegt eldhús, frá sirka 1977. Í eldhúsinu er sem sagt gömul eikarinnrétting sem var svolítið illa farin, en við keyptum málningu fyrir flísar og ég dundaði mér við þetta eina kvöldstund í hálfgerðu myrkri. Síðan ákvað ég að taka borðplötuna í leiðinni, en það kom svona ljómandi vel út. Þetta er snilldar málning, sem er með mikla viðloðun og er mjög sterk. Svo málaði ég eldhúsið, veggurinn var mjög illa farinn en við tókum niður efri skápana rétt áður en maðurinn minn fór á sjóinn í mánuð. Hann vissi ekki af breytingunum á eldhúsinu fyrr en ég var búin,“ segir Svana glettin.

„Pabbi kom síðan í heimsókn einn daginn og fjarlægði allt flísalímið, en því fylgdi þvílíka mengunin. Þetta er rosalega gróft, en við erum að safna okkur fyrir nýrri eldhúsinnréttingu og ákváðum að redda þessu svona. Þetta er mjög einföld breyting, sem kostaði varla neitt. Við leyfðum síðan framhliðunum á innréttingunni að halda sér. Ég ætlaði að mála skápana hvíta en svo fannst mér þetta bara fallegt. Ég skreyti síðan með hillunum þarna fyrir ofan, þær voru sagaðar eftir máli í skógræktinni í Vaglaskógi og voru í gamla eldhúsinu okkar. Svo er eldavélin upprunaleg, en við ætlum að notast við gamalt. Það má alveg gera gamalt fallegt,“ segir Svana sem lærði ýmislegt á framkvæmdunum, þá sér í lagi að tileinka sér þolinmæði.

„Ég lærði að góðir hlutir gerast hægt, og ég lærði að það þarf ekki að gera allt í einu. Og svo lærði ég líka að það má gera fallegt úr hverju sem er. Það þarf ekki að kosta mikið að gera fallegt í kringum sig,“ segir Svana, sem lumar á ýmsum ráðum fyrir þá sem vilja flikka upp á heimilið með ódýrum hætti.

„Ef þú ert að fara að mála flísar, borðplötur eða annað þarf að fá góðar upplýsingar. Engin spurning er heimskuleg þegar maður er í þessu, því það er hægt að klúðra hlutunum ef maður spáir ekki aðeins í þeim,“ bætir Svana við, en hún er hæstánægð með afraksturinn þótt draumurinn sé að skipta innréttingunni út seinna meir.

„Já, ég er mjög ánægð með þetta. Auðvitað langar mann í nýja innréttingu, en þetta er fínt í bili. Það er nóg annað sem þarf að gera, eins og baðherbergið. Við ákváðum því að nota allt annað í húsinu. Við pússuðum gólf, og nýttum það sem fyrir var. Og svo máluðum við. Málning getur gert kraftaverk. Það þarf ekki alltaf að henda öllu út og byrja upp á nýtt. Ég held að það sé alveg satt að ég eigi enga dýra hluti. Maður á að nýta hlutina sem maður á fyrir, færa þá til og gefa þeim nýtt líf.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál