Stór blóm með sterka liti

Sigríður Helga Sigurðardóttir.
Sigríður Helga Sigurðardóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður hjá Gróðrarstöðinni Mörk segir að kenningar séu til um að tískan í blómunum haldist í hendur við fatatískuna. Sólbrúður, hortensía og hengibrúðarauga ættu að prýða marga garða í sumar.

Í sumar verða liðin 50 ár frá því að Gróðrarstöðin Mörk í Fossvogsdal var stofnuð. Sigríður Helga Sigurðardóttir og maður hennar Guðmundur Vernharðsson, Mummi, keyptu reksturinn árið 2000 af stofnendunum, þeim Mörthu C. Björnsson og Pétri N. Ólafssyni.

„Mummi hafði þá starfað hjá þeim frá 16 ára aldri og grunar mig að Martha og Pétur hafi viljað selja okkur fyrirtækið því þau vissu að gróðrarstöðin myndi vera í góðum höndum. Að reka gróðrarstöð er nefnilega ekki eins og annar rekstur, og kallar á að hafa næma tilfinningu fyrir plöntunum og ákveðið innsæi,“ segir Sigríður.

Er óhætt að kalla Guðmund og Sigríði samrýmd hjón en þau deila ástríðu fyrir öllu sem viðkemur blómum, trjám og garðrækt. „Göngutúrarnir okkar snúast um að spá og spekúlera í plöntum og greinabyggingu, og skoða fallega garða,“ segir Sigríður en bæði eru þau garðyrkjumenntuð.

Stór blóm í sterkum litum

Garðar landsmanna taka breytingum í takt við tísku og tíðaranda. Þá hefur aukið skjól og batnandi veðurfar gert mögulegt að rækta plöntur sem áður gátu ekki þrifist í íslenskum görðum. Spurð um vinsælustu blómin þetta sumarið segir Sigríður að hortensían sé að koma mjög sterkt inn. „Hún er ægifögur jurt með fallega og stóra blómknúppa, fáanleg í nokkrum litum og stendur lengi í blóma. Sólbrúðurin heillar líka marga með sinn djúpa bláleita lit. Einnig á ég von að hengibrúðarauga og dalía muni sjást í mörgum görðum í ár.“

En hvað ræður því hvaða blóm eru vinsælust hverju sinni? Sigríður segir að til séu ákveðnar kenningar um að fatatískan hafi áhrif á blómatískuna og gæti það passað því að bláir og bleikir litir eru áberandi í tískuverslununum um þessar mundir og svipaðir litir eftirsóttir í blómunum. „En umfram allt held ég að blómaflóran á Íslandi ráðist af því hvaða tegundir þrífast vel og eru blómviljugar við íslenskar aðstæður.“

Segir Sigríður að að þessu leyti sé blómamenningin á Íslandi ólík öðrum löndum, og vilja landsmenn helst ekki planta í garðinn sinn oftar en einu sinni á sumri. „Erlendis byrjar fólk oft að planta í mars, skiptir svo út í maí, aftur síðsumars og svo jafnvel enn eina ferðina fyrir veturinn. Hinn almenni íslenski garðræktandi er yfirleitt bara með eina útplöntun og vill tegundir sem haldast lengi í blóma. Við höfum líka greint það síðustu sumur að fólk sækir meira í fjölærar blómplöntur til að einfalda garðverkin.“

Gaman er að hafa glæsilegt tré eða runna í garðinum, og getur veitt gott skjól. Sigríður segir að vanda verði valið og finna trénu eða runnanum hentugan stað. „Alaskaöspin á t.d. lítið erindi í venulegan einkagarð, en veitir hins vegar heilmikið skjól á stórum opnum svæðum.“

Víða í þéttbýli er alaskaöspin farin að verða til vandræða og segir Sigríður að megi ekki fordæma þetta fallega tré, sem geti verið gott til síns brúks á réttum stöðum. Íslendingar eigi alaskaöspinni ýmislegt að þakka. „Foreldrar mínir fæddust fyrir seinna stríð og frá þeim hef ég heyrt hvað fólk var hissa að sjá að trjágrjóður gæti yfirhöfuð vaxið á Íslandi. Fyrir vikið varð það viðhorf ríkjandi að það mætti helst ekki hagga við alaskaöspinni eða öðrum trjám. Í dag hefur þetta viðhorf breyst og fólk er orðið óhræddara við að grisja burtu tré og breyta til í garðinum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál