Hvernig fæ ég flottan garð?

Sesselja Thorberg, sem rekur fyrirtækið Fröken Fix, svarar spurningum lesenda. Hér fær hún spurningu frá Leifi sem keypti sér hús síðasta vetur og langar til að gera eitthvað geðveikt við garðinn. 

Kæra Sesselja – Fröken Fix,

Ég keypti hús í vetur og langar mikið til að gera eitthvað við garðinn, eitthvað sem er skemmtilegt og ekki týpískt. Vona að þú lumir á einhverjum ásum uppi í erminni.

kveðja, Leifur

Sesselja Thorberg rekur fyrirtækið Fröken Fix.
Sesselja Thorberg rekur fyrirtækið Fröken Fix.

Sæll Leifur

Þótt hæfileikar mínir í landslagsarkitektúr séu takmarkaðir við áhuga, vill svo til að Frökenin hefur aldeilis skoðun á því sem henni finnst smart.

Mér finnst viðhaldslítið vera smart, huggulegt vera smart og notkun mismunandi efna saman vera smart, rétt eins og inni á heimilinu.

Að nota til dæmis, sand, gras, möl og tréverk saman er málið að mínu mati. Ekki festa þig í þessu sem vanalega er auglýst, viðarvörðum pöllum með viðarvörðum húsgögnum. Stígðu út fyrir þann brúna kassa, þótt mjög notalegur sé.

Þú ert væntanlega búinn að fara hringinn og láta teikna upp fyrir þig mismunandi pallapælingar hjá þessum helstu fyrirtækjum sem gera það. Ef þig langar að fara þá leið, hugsaðu þá til dæmis viðarvörnina svarta, gráa eða jafnvel rauða! Settu upp viðhaldsfrí álhúsgögn í dökkum eða ljósum tónum, gula dúka, hengirúm og jafnvel sand eða malarblett þar sem þú getur raðað upp þægilegum sætum í kringum eldstæði! Hugsaðu um útisturtu (ef þú ert með pott), blóm í pottum, tré í pottum, útiseríur og sígrænan gróður með inn á milli, því hann er fallegur allt árið um kring.

Þú gætir jafnvel sett upp pergólu og látið sníða litrík segl sem hægt er að hengja upp á kósur á mismunandi stöðum á trapísunum, eftir því hvort sé rigning eða úr hvaða átt blæs (við vitum nefnilega öll að hann blæs hérna hjá okkur). Einnig er í dag hægt að fá steypu í mismunandi litum og fá prentað mynstur á hana – sem mér finnst spennandi kostur þar sem ekki þarf þá að kroppa mosann sem safnast á milli ár eftir ár.

Ég birti hér nokkrar myndir til þess að koma þér af stað. En hugsaðu í þessum lykilorðum, viðhaldslítið, huggulegt og nota mismunandi efni saman!

Gangi þér vel!

Kv., Fröken Fix

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Fröken Fix spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál