Hanna húsgögn jafnt sem náttúrulaugar

Brynhildur Sólveigardóttir og Arnhildur Pálmadóttir stofnuðu arkitektastofuna Dark studio saman.
Brynhildur Sólveigardóttir og Arnhildur Pálmadóttir stofnuðu arkitektastofuna Dark studio saman.

Arnhildur Pálmadóttir og Brynhildur Sólveigardóttir kynntust í arkitektarnámi fyrir 13 árum en fyrir tveimur árum stofnuðu þær arkitektastofuna Dark studio. Þær vilja sjá breytingar í arkitektúr á Íslandi þar sem hugsað verður meira út í samspil umhverfis og arkitektúrs. 

Hvers vegna ákváðuð þið að opna arkitektastofuna?

Við kynntumst í BA-námi í arkitektúr í Listaháskóla Íslands fyrir 13 árum og höfum síðan þá unnið saman að ýmsum verkefnum ásamt því að fara í gegnum sama meistaranámið í Barcelona. Eftir námið höfum við báðar unnið sjálfstætt og á öðrum arkitektastofum en ákváðum árið 2015 að taka skrefið til fulls og sameinast undir einu nafni enda báðar komnar með umtalsverða reynslu af verkefnisstjórn stórra verkefna auk annarrar víðtækrar reynslu innan hönnunar- og skipulagsverkefna.  

Í hvernig verkefnum eruð þið?

Við erum að vinna í mjög fjölbreyttum verkefnum, allt frá hönnun húsgagna og innréttinga og upp í skipulagsverkefni. Núna erum við til dæmis að vinna að endurhönnun á veitingasölum í þjónustubyggingunni við Gullfoss. Þar sjáum við um val á lýsingu og húsgögnum ásamt því að sérteikna innréttingar og hluta húsgagna. Þetta er smám saman að taka á sig mynd og verður komið í fulla notkun með haustinu. Tvö stór verkefni eru í byggingu og komin vel á veg en það eru annars vegar 11.000 m2 hótelbygging við Geysi í Haukadal sem áætlað er að opni 2018 og hins vegar Krauma náttúrulaugar við Deildartunguhver.  Nýbyggingin Hótel Geysir tengist núverandi þjónustu á svæðinu og mun gefa því heildstætt útlit. Áhersla er lögð á að byggingin sé hógvær í umhverfi sínu og endurspeglast það í formi hennar og landslagsmótun en byggingin er formuð þannig að hún skyggi sem minnst á náttúruperlur svæðisins. Krauma náttúrulaugar við Deildartunguhver hafa verið í byggingu í tvö ár en nú sér fyrir endann á framkvæmdunum. Byggingarnar samanstanda af þjónustuhúsi með búningsaðstöðu fyrir 140 manns, veitingastað og bar. Meginaðdráttarafl Krauma verða náttúrulaugarnar sem verða af ýmsum gerðum en eiga það sameiginlegt að innihalda ekta hveravatn úr Deildartunguhver en vatnið sem notað er til kælingar á uppruna sinn úr Okinu sem er minnsti jökull Íslands.  Engum klór eða sótthreinsiefnum verður blandað í vatnið en þess í stað verður tryggð næg endurnýjun vatnsins í laugunum. Tvö aðskilin gufuböð verða á laugasvæðinu hvort með sitt lyktarþema auk kaldrar laugar. Stefnt er að opnun staðarins síðsumars eða í haust.

Náttúrulaugaverkefnið Krauma er langt á veg komið.
Náttúrulaugaverkefnið Krauma er langt á veg komið.

Hvað finnst ykkur skemmtilegast að teikna? Hvað finnst ykkur mest spennandi við vinnuna?

Öll verkefni eru áhugaverð og spennandi hvert á sinn hátt. Skemmtilegast er að eiga í nánu og góðu samstarfi við kúnnann óháð því hver stærð verkefnisins er. Okkur finnst jafngaman að liggja yfir og grúska í útfærslu á borðfæti eins og að halda utan um og verkstýra heilli hótelbyggingu. Einnig er alltaf gaman að fara á verkstað og hitta þá iðnaðarmenn sem koma að hverju verkefni fyrir sig en þar verða oft til nýjar hugmyndir og vandamál leyst.

Hvernig er ykkar stíll?

Að okkar mati snýst arkitektúr ekki um stíl en við leggjum áherslu á að öll verkefni séu unnin í sátt við umhverfið og að lokaútkoman verði þannig að allir geti verið ánægðir og stoltir af verkefninu bæði við og verkkaupi.

Hvernig er íslenskur arkitektúr að breytast? 

Það er kannski auðveldara að segja hvernig við viljum sjá hann breytast. Við þurfum að muna að við erum ekki einangruð eyja heldur staðsett á plánetu sem við berum öll ábyrgð á. Við þurfum að vera meira nýskapandi og hugsa meira um tækni og útfærslur. Það er mikilvægt að vinna hvert verkefni miðað við staðsetningu þess, umhverfi, menningu og sögu og koma í veg fyrir einsleitni. Vonandi þróast íslenskur arkitektúr i þessa átt.

Brynhildur og Arnhildur hafa hannað smáhýsi.
Brynhildur og Arnhildur hafa hannað smáhýsi.

Hvert er draumaverkefnið?

Meistaranám okkar í skólanum IAAC í Barcelona snerist aðallega um að skoða arkitektúr út frá nýsköpunar- og umhverfissjónarmiðum og hvernig hönnun mannvirkja tengist tækni og vísindum auk hinna augljósu menningar- og samfélagslegu sjónarmiða. Þetta eru atriði sem við höfum sérstakan áhuga á að þróa í verkefnum okkar í framtíðinni og mætti því segja að þau verkefni séu draumaverkefni. Í þessu samhengi erum við að skoða endurnýtingu á byggingarefni sem fellur til á byggingarsvæðum og erum að undirbúa verkefni því tengdu þar sem þessi afgangsefni eru notuð í aðrar nýbyggingar. Annað verkefni sem við erum að þróa sjálfar eru sérhönnuð nýstárleg smáhýsi. Sérstaða þeirra er sú að þau þurfa ekki að tengjast hefðbundnum innviðum eins og vatni og rafmagni heldur er við hönnun og útfærslu smáhýsanna gert ráð fyrir því að þau geti séð um sig sjálf. 

Hvernig er að vera kona í þessum heimi?

Byggingariðnaðurinn er enn þá mjög karllægur og á það líka við um okkar fag. Það eru margar konur sem mennta sig sem arkitektar en þær eru fæstar að stýra stofum. Þegar öllu er á botninn hvolft þá skipta vönduð vinnubrögð og reynsla meira máli en kyn en það væri auðvitað gaman að sjá kynjahlutfallið jafnast því þannig víkkar sjóndeildarhringurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál