Með ilmkerti á ólíklegustu stöðum

Steinunn Jónasdóttir er konan á bak við ilmkertin frá REYK sem gerð eru úr hágæðahráefnum. Vaxið er 100% lífrænt soyavax og ilmolíurnar sem notaðar eru í kertin eru vottaðar samkvæmt gæðaflokki Alþjóðlegu ilmsamtakanna (IRFA). Þegar hún er spurð að því hvers vegna hún hafi farið að framleiða ilmkerti segir hún að þörfin hafi alltaf verið sterk hjá sér að skapa og hún hafi leitað ýmissa leiða til að fá útrás fyrir sköpunargleðina. Steinunn kláraði til dæmis nám í ljósmyndun í Ljósmyndaskólanum en nú eiga ilmkertin hug hennar allan. 

„Ég hef alltaf verið mikil áhugamanneskja um ilm og fylgist með litlum óháðum ilmvatnsframleiðendum og ilmkertaframleiðendum. Þegar ég sá svo að það var boðið upp á námskeið í ilmkertagerð í London hjá strákum sem ég hef fylgst með á Instagram var ekki aftur snúið. Ég hef því verið að prófa og þróa ilmina og kertin allt árið, lesa efnafræði og ilmfræði og ekki síst henda og byrja upp á nýtt því þetta snýst um að prófa og prófa. Kveikurinn þarf að passa í glasið því annars brennur kertið ekki vel eða brennur of hratt, ilmurinn þarf að blandast vel vaxinu og síðast en ekki síst þarf okkur að líða vel með kveikt (eða slökkt) á ilmkertunum. Ég hef sótt námskeið í ilmkertagerð og eins ilmvatnsgerð, bæði í London og París og mig langar mikið að fara í ilmvatnsskóla í mekka ilmvatnsgerðar, Grasse í Frakklandi. Vonandi rætist sá draumur einhvern tímann,“ segir Steinunn. 

Í ilmkertagerðinni er vel vandað til verka. 

„Kveikurinn er úr bómull og pappír og er blýlaus, því kveikur sem inniheldur blý getur haft neikvæð áhrif á okkur,“ segir Steinunn en alls er hún með fimm ilmi; blóðgreip, bál, fíkjur, tekk og Jól 2017 sem verður aðeins fáanlegur fyrir þessi jól,“ segir Steinunn. 

Kertin eru framleidd og pökkuð á Íslandi.

„Einungis níu kerti eru framleidd í einu svo þetta er mjög hæg framleiðsla – sem er gott. Ég blanda ilmina sjálf,“ segir hún. 

Steinunn segir að heilastöðin skynji ilm á sama stað og minningar. 

„Því getur ilmur kallað fram minningar og hughrif. Þegar ég var að hanna mín ilmkerti komu ýmsar minningar fram, bæði úr barnæsku og eins frá ferðalögum, því ég veit fátt betra en að ferðast um heiminn og upplifa eitthvað nýtt – ekki síst nýjar lyktir og ilmi. Það er líka gaman að geta ferðast í gegnum ilminn eða endurupplifað eitthvað skemmtilegt.“

Ilmkerti hafa verið býsna vinsæl síðustu ár. Steinunn undrast það ekki.  

„Það hefur verið mikil vakning í ilmkertum á síðustu árum og kröfurnar um leið hafa aukist mikið. Fólk er farið að átta sig á því að ilmkerti er ekki það sama og ilmkerti og að þau koma í ýmsum gæðaflokkum. Það má líka segja að ilmkerti sé hin fullkomna gjöf, hún klárast en maður getur notið hennar lengi.“

Ilmkerti búa ekki bara til góða lykt heldur eru þau falleg sem skraut. Þegar Steinunn er spurð að því hvernig best sé að raða kertunum upp segist hún kunna að meta alls konar útfærslur. 

„Mér finnst gaman að raða saman kertum frá mismunandi framleiðendum á bakka með nokkrum skrautmunum. Ég hef líka gaman af fallegum eldspýtustokkum og var svo lánsöm að fá nýverið gefins fallegan eldspýtustokk sem er gaman að hafa með á bakka. Svo er ég með ilmkerti á ólíklegustu stöðum, í svefnherberginu, inni í fataskáp (ég kveiki nú reyndar ekki á því) og í eldhússkápunum. Inn á milli tek ég mig til og safna öllum kertunum saman og set inn í skáp og svo byrja ég aftur að dreifa þeim um húsið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál