Hinn fullkomni desember (eða þannig)

Heimagerður aðventukrans. Kertin eru frá Bröste Copenhagen, könglarnir eru frá …
Heimagerður aðventukrans. Kertin eru frá Bröste Copenhagen, könglarnir eru frá Ralph Lauren og ilma eins og jólin sjálf, gyllta jólatréð og leðurklæddi bakkinn búa til stemningu. Allt fæst þetta í Húsgagnahöllinni. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Það er fátt notalegra en að geta átt friðsælan og afslappandi desembermánuð þar sem fólk hefur nægan tíma til að gera allt sem því þykir skemmtilegt. Hvern dreymir ekki um að geta bakað allar heimsins smákökur, haft heimilið eins og í húsbúnaðarblaði (hreint, vel skreytt og skipulagt), sent hnittin, sniðug og persónuleg jólakort á nánustu ættingja og vini og haft nægan tíma til að lesa, sækja skemmtanir með börnunum og ná einhvern veginn utan um líf sitt í eitt skipti fyrir öll. Því miður er þetta ekki alltaf svona framúrskarandi frábært og þá þarf aðeins að velja og hafna. Það er að sjálfsögðu valkostur að kaupa jólagjafir á sumrin og skrifa jólakort næsta árs í september en vandamálið er að þá er maður alltaf að gera eitthvað annað og alls ekki í stemningu. Þegar glundroðinn verður of mikill, eins og gerist stundum í desember, skiptir máli að framkvæma það allra mikilvægasta og sleppa hinu (því sem skiptir litlu sem engu máli). Sumir myndu kalla þetta að skítaredda hlutunum en ég vil nú ekki segja það heldur benda á að það eru margar leiðir til guðs og hver og einn þarf að finna sína leið.

Þessi kertahús fást í Húsgagnahöllinni og líka hördúkurinn sem er …
Þessi kertahús fást í Húsgagnahöllinni og líka hördúkurinn sem er undir. Hann er frá Bröste Copenhagen. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Einhvern veginn er tilhneigingin oft sú að allt það skemmtilegasta sem lífið hefur upp á að bjóða hrúgast á sömu dagana og það dag eftir dag í desember. Til þess að þurfa ekki að leggjast inn á stofnun vegna yfirkeyrslu í byrjun janúar 2017 eru hér nokkur góð ráð fyrir þá sem vilja bæði hafa það notalegt í desember, ná að baka allavega eina sort og gera fallegt í kringum sig með lítilli fyrirhöfn.

Jólatréð, gylltu kertahúsið og svarta jólatréð er úr Húsgagnahöllinni.
Jólatréð, gylltu kertahúsið og svarta jólatréð er úr Húsgagnahöllinni. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Desember er tíminn þegar maður reynir eftir fremsta megni að halda börnunum frá verslunarmiðstöðvum og neysluhyggjunni og gerir allt til að kyrrsetja þau inni á heimilinu. Í þessari stemningu skiptir máli að börnin hafi eitthvað að gera og fái að taka virkan þátt. Börnum finnst nefnilega yfirleitt skemmtilegast að vera með foreldrum sínum þegar foreldrar eru andlega á staðnum og ekki í símanum.

Það er mín reynsla að börnin eru sjaldan glaðari en þegar þau hafa verkefni og á mínu heimili elska allir að baka, eða réttara sagt húsmóðirin og börnin. Heimilisfaðirinn er betri í að gæðasmakka og gefa afurðum bakstursins einkunnir. Svo er hann betri en enginn þegar kemur að því að taka til eftir baksturinn, en það er önnur saga.

Það er fínt að byrja á því að setja einhverja góða jólatónlist á áður en hafist er handa við baksturinn. Driving Home For Christmas með Chris Rea er til dæmis gott byrjunarlag og svo gætu Dolly Parton og Kenny Rogers tekið við með laginu Christmas Without You. Jóladiskurinn þeirra má reyndar rúlla í gegn því hann hefur þann eiginleika að öll lögin eru góð (eða venjast þegar maður hefur hlustað á þau nógu oft). Rétti jólaandinn ætti að vera kominn á réttan stað og ekki úr vegi að taka hrærivélina fram, setja svuntur á mannskapinn og vinda sér í þetta. Ekki væri verra að setja smá jólaöl í glas eða bara sódavatn með sítrónu ef húsmóðirin er á „cleanse“.

Hafraklattar, karamellubitakökur, marengstoppar með piparbrjóstsykri og Oreo-smákökur.
Hafraklattar, karamellubitakökur, marengstoppar með piparbrjóstsykri og Oreo-smákökur. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Karamellubitakökur

Karamellubitakökurnar slógu í gegn á heimilinu. Uppskriftin er sáraeinföld og svo er hún líka þannig að hægt er að leika sér endalaust með hana. Í staðinn fyrir karamellukurl frá Nóa Síríusi má til dæmis nota dökkar súkkulaðirúsínur, M&M-kúlur, suðusúkkulaði eða lakkrískurl.

1 eggjarauða

100 g sykur

80 g mjúkt ósaltað smjör

140 g hveiti eða spelt

1 tsk. lyftiduft

pínu sjávarsalt

100 g karamellukurl frá Nóa Síríusi

Þeytið eggjarauðuna með sykrinum þangað til blandan er létt og ljós. Bætið smjörinu út í og haldið áfram að þeyta. Hrærið þurrefnum saman við og þeytið varlega. Bætið karamellukurlinu út í og hrærið því saman. Takið deigið og mótið í rúllu. Ef þið hafið tíma þá er gott að geyma deigið í ísskáp í klukkutíma áður en kökurnar eru bakaðar. Raðið þeim á bökunarplötu og bakið í 10-15 mínútur við 180 gráður.

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hafraklattar með lakkríspiparperlum

Hafraklattarnir þóttu svolítið „hollir“ en húsmóðirin benti á að það væri bæði púðursykur og sykur í þeim og því gætu þeir varla flokkast sem einhver ofurhollusta. Líkt og með karamellubitakökurnar er hægt að nota annað sælgæti í staðinn fyrir lakkríspiparperlurnar frá Nóa Síríusi. Í raun má nota hugmyndaflugið út í hið óendanlega.

200 g ósaltað mjúkt smjör

200 g púðursykur

100 g sykur

3 egg

220 g hveiti eða spelt

½ tsk. matarsódi

1 tsk. salt

100 g haframjöl

160 g súkkulaðikex með dökku súkkulaði

1 poki, 150 g, lakkríspiparperlur frá Nóa Síríusi

Þeytið smjör, púðursykur og sykur saman þannig að blandan verði létt og ljós. Bætið eggjunum út í einu og einu í senn og hrærið mjög vel á milli. Bætið þurrefnum út í deigið og hrærið varlega saman. Skerið súkkulaðikexið smátt og líka lakkríspiparperlurnar og bætið út í og búið til kúlur og setjið á bökunarplötu.

Ofninn þarf að vera stilltur á 165 gráður og kökurnar eru bakaðar í 15-18 mínútur.

Marengstoppar með Turkis pepper brjóstsykri.
Marengstoppar með Turkis pepper brjóstsykri. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Marengstoppar með piparbrjóstsykri

Húsmóðirin veit ekkert betra en marengs en það er þó fátt sem toppar hreinræktaða marengstoppa eins og þessi. Þarna sameinast tvö undur veraldar, eggjahvítur, sykur og Tyrkisk peber-brjóstsykur. Í staðinn fyrir Tyrkisk peber-piparbrjóstsykur má nota nánast hvaða sælgæti sem er sem er stökkt og ljúffengt undir tönn. Hamfarakokkurinn sem þessi húsmóðir er mælir með því að fólk flippi og prófi eitthvað nýtt. Í staðinn fyrir þessi 100 g er hægt að setja sama magn af nánast hverju sem er.

2 eggjahvítur

200 g sykur

1 tsk. hvítvínsedik

100 g Tyrkisk peber-piparbrjóstsykur

Stífþeytið eggjahvíturnar og bætið sykrinum út í. Þeytið vel saman og bætið hvítvínsediki út í. Þá er piparbrjóstsykurinn settur í blandara og mulinn og bætt út í. Búið til litla marengstoppa og setjið á bökunarpappír á plötu.

Bakið í miðjum ofni við 150 gráður í 15 mínútur og lækkið svo hitann niður í 100 gráður og bakið í 15 mínútur í viðbót.

Oreo-smákökurnar brögðuðust vel.
Oreo-smákökurnar brögðuðust vel. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Oreo-smákökur

Flest ungmenni á Íslandi eru með Oreo-kökur á heilanum. Ekki er vitað nákvæmlega hvað veldur þessu en eitt er víst að góðar eru þær á bragðið. Í þessari uppskrift fá þær að njóta sín í botn.

2 egg

200 g sykur

200 g Oreo-kökur

200 g möndlumjöl

Þeytið eggin og sykurinn vel saman. Oreo-kökurnar eru skornar smátt og bætt út í ásamt möndlumjöli. Hægt er að kaupa möndlumjöl tilbúið eða setja möndlur í blandara og búa til mjöl úr þeim. Allt þeytt vel saman og sett á bökunarplötu með smjörpappír.

Kökurnar eru bakaðar við 180 gráður í 8-10 mínútur eða þangað til kökurnar eru orðnar gylltar á litinn.

Rice Krispies með Snicers-súkkulaði.
Rice Krispies með Snicers-súkkulaði. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Snickers Rice Krispies

Á köldum desembersunnudögum er aldeilis viðeigandi að búa til hátíðarútgáfu af Rice Krispies-kökum með því að bræða Snickers-súkkulaðistykki í potti og sykurhúða jólagleðina fyrir allan peninginn. Þessar kökur eru líka sniðugar í jólaboðið eða bara sem eftirréttur með heimagerðum ís og ferskum jarðarberjum. Best er að geyma þær í frysti og gott að laumast í þær á meðan hinir í fjölskyldunni sofa.

200 g smjör

6 Snickers-stykki

100 g suðursúkkulaði

6 msk. síróp

Rice Krispies eftir smekk (um það bil 400 g)

Smjör brætt í potti og Snickers og súkkulaði bætt út í. Allt bráðið saman og í lokin er sírópinu bætt út í. Þegar allt er orðið vel bráðið saman er Rice Krispies bætt við. Það fer aðeins eftir smekk hversu mikið Rice Krispies er notað. Hér var sett eins mikið og mögulegt var eða um 400 g.

Gulljólatré úr Húsgagnahöllinni, gyllt kertahús og svört jólatré búa til …
Gulljólatré úr Húsgagnahöllinni, gyllt kertahús og svört jólatré búa til stemningu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Þegar fjölskyldan er búin að baka frá sér allt vit þarf að þurrka af og skúra. Þegar búið er að gera sæmilega snyrtilegt inni á heimilinu er ekki úr vegi að jólaskreyta örlítið. Ef þið eigið fallegar glerskálar er um að gera að setja smákökurnar í þær og nota þær sem stofustáss á milli þess sem hægt er að laumast í eina og eina.

Hördúkar hafa þótt ákaflega móðins upp á síðkastið. Þeir eru ekki bara hentugir því skella má þeim í þvottavél og svo eiga þeir að vera krumpaðir. Hördúkar skapa góða stemningu og koma með hátíðlegan blæ inn á heimilið. Þegar búið er að setja hördúk á borðið má raða fallegu jólaskrauti saman í hóp.

Það er varla hægt að taka á móti desember nema vera allavega með einn aðventukrans. Afar einfalt er að búa til aðventukrans með því að setja fjögur kerti frá Broste Copenhagen á disk. Þau koma í nokkrum litum en þessi gráfjólubláu smellpassa við gráfjólubláa hördúkinn og svo skemma gullstafirnir ekki fyrir neinu. Síðan er eitt gyllt jólatré sett í miðjuna og loks er jólakönglum frá Ralph Lauren skellt með. Þetta eru engir venjulegir jólakönglar því þeir ilma með hinum eina sanna guðdómlega jólailmi. Bara með þessu litla trixi verður jólalegt í húsinu.

Þegar aðventukransinn er kominn á borðið er ekki úr vegi að búa til stemningu hér og þar um húsið. Raða saman fallegum hlutum í hópa og hafa ákveðið litaþema í gangi. Jólin í ár eru mjög fjólublá og gyllt og fékk sá stíll að njóta sín. Þess má geta að rauði liturinn er þó alltaf velkominn líka enda er fátt hátíðlegra en rauð jólakerti. Engin ástæða er til að ofhlaða eða gera eitthvað sem er allt of mikið heldur finna rétta taktinn. Það skiptir máli að jólaskrautið sé svolítið skylt hvað öðru svo þetta verði ekki eins og í súru jólaeftirpartíi þar sem allt er farið úr skorðum.

Í Söstrene Grene er hægt að kaupa gyllt og silfruð …
Í Söstrene Grene er hægt að kaupa gyllt og silfruð bollakökuform. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál