Eldað og bakað upp úr jólabjórnum

Bjóráhugamenn og -konur gleðjast þegar jólabjórinn kemur í hús. Ölvisholt brugghús er með tvo jólabjóra fyrir þessi jól, Heims um bjór og Tuttugasta og fjórða, og er bruggmeistari þeirra Elvar Þrastarson. Það er þó hægt að gera meira við bjórinn en að hella honum í sig. Úr honum má elda dásamlega veislurétti sem fá hjartað til að slá örar og tunguna til að sleikja út um. 

Rétt fyrir utan Selfoss er Ölvisholt brugghús staðsett. Fyrirtækið hefur getið sér gott orð fyrir bjórgerð sína frá því það var stofnað 2007. Jólablað Morgunblaðsins fékk starfsmenn brugghússins til að töfra fram hamborgarhrygg og fleira góðgæti í samvinnu við súkkulaðiframleiðandann Omnom.

Hamborgarhryggur

Hér er hamborgarhryggurinn soðinn upp úr Heims um bjór og síðan er glasseringin gerð úr Tuttugasta og fjórða, sem gefur hryggnum dásamlegt jólabragð – öðruvísi hryggur sem kemur skemmtilega á óvart.

Hryggur

1 meðalstór hryggur

6 flöskur ÖB Heims um bjór

2 mandarínur

gljái

1½ dl púðursykur

1 tsk. dijon sinnep

4 msk. ÖB Tuttugasti og fjórði

bjórsósa Ölvisholts

2 skalottlaukar

2 meðalstórar gulrætur

2 stilkar sellerí

8 svört piparkorn

1 msk. matarolía

2 flöskur ÖB Tuttugasti og fjórði

½ l rjómi

1 teningur kjötkraftur

2 tsk. rifsberjasulta

1 tsk. gráðaostur

1 tsk. dijon-sinnep

salt og pipar

Setjið hrygginn í pott og hellið bjórnum yfir. Skerið mandarínurnar í tvennt, kreistið safann úr þeim í pottinn og bætið þeim svo líka út í. Ef bjórinn nær ekki að fljóta yfir kjötið má bæta aðeins vatni út í. Sjóðið í 40-60 mínútur, fer eftir stærð hryggjarins. Kveikið á ofninum á 200 °C þegar um 20 mín. eru eftir af suðunni. Blandið saman púðursykrinum, sinnepinu og bjórnum í gljáann og leggið til hliðar. Takið hrygginn upp úr pottinum að lokinni suðu og leggið hann á ofnplötu. Penslið hrygginn með hluta af gljáanum og setið hann inn í ofninn í u.þ.b. 15 mínútur. Á þeim tíma er hryggurinn tekinn út tvisvar sinnum og penslaður með restinni af gljáanum. Þegar eldunartímanum er lokið er gott að láta hrygginn standa á borði í um 20 mínútur áður en hann er skorinn og borinn fram.

Sósan

Skerið lauk, gulrætur og sellerí í nokkuð grófa bita. Setjið olíuna í pott og steikið grænmetið ásamt piparkornunum í olíunni. Bætið bjórnum út í eftir um 10 mín og sjóðið hann niður um helming með grænmetinu. Sigtið grænmetið frá, setjið soðið aftur í pott ásamt rjómanum og kjötkraftinum og hitið rólega að suðu. Bætið út í pottinn sultunni, gráðaostinum og sinnepinu og sjóðið í um 5 mín. Saltið og piprið eftir smekk áður en sósan er borin fram (sósan er frekar þunn og má þykkja hana með sósuþykkjara ef þið viljið). Þessi sósa hentar bæði með hamborgarhryggnum sem og öðru kjöti, bara breyta kjötkraftinum eftir þörfum.


Lava-rauðlauksulta með beikoni

Að þessari lauksultu á Elvar bruggmeistari heiðurinn. Ölvisholts Lava Stout bregður sér hér í jólabúninginn. Beikonið er steikt og tekið til hliðar, rauðlaukurinn steiktur upp úr feitinni af beikoninu og síðan er hann soðinn upp úr Lava. Sultan er góð bæði heit og köld og passar með flestu kjöti, er frábær á hamborgara og með öllum ostum, ekki verra að hafa einn jólabjór með. Þeir sem ekki vilja kjöt geta sleppt beikoninu og steikt laukinn upp úr matarolíu.

6 sneiðar reykt beikon

6 meðalstórir rauðlaukar

½ tsk. kínversk kryddblanda

(5 chinese spice, fæst í Krydd- og tehúsinu)

1,5 dl púðursykur

½ flaska ÖB Lava

salt og pipar

Steikið beikon á pönnu þar til það verður stökkt. Skerið laukinn á meðan í tvennt og svo í þunna hálfmána. Takið beikonið af pönnunni og skiljið fituna eftir. Steikið rauðlaukinn upp úr fitunni og bætið út í smásalti ásamt kínversku kryddblöndunni. Þegar laukurinn er orðinn nokkuð gegnsær er púðursykrinum bætt út í og látið malla í um 5 mínútur. Hellið þá Lava-bjórnum út í og sjóðið lauksultuna niður við vægan hita í um 30 mínútur. Skerið beikonið í bita og bætið aftur út í sultuna ásamt salti og pipar eftir smekk.

Ostaídýfa

Hér fær lauksultan framhaldslíf en hún er ein af uppistöðunni í þessari dásamlegu ostaídýfu. Ídýfan er góð með saltkringlunum og öllu brauði eða sem meðlæti með kjötinu. Hún gengur líka með alls kyns ostakexi og jafnvel nachos-flögum og það má bera meiri lauksultu fram með henni til að bæta á.

500 g rjómaostur

6 sneiðar beikon

4 msk. majónes

1 tsk. dijon-sinnep

1 msk. Worcestershire-sósa

1 dl Lava-rauðlaukssulta (sjá uppskrift hér að ofan)

150 g rifinn cheddar-ostur

smá pipar

Steikið beikonið þar til það er stökkt. Leyfið því að kólna og skerið það svo í litla bita. Blandið öllu hráefninu saman nema helmingnum af rifna ostinum og lúku af beikoninu. Setjið blönduna í eldfast mót og stráið restinni af ostinum og beikoninu yfir. Hitið ídýfuna í 200 °C ofni þar til osturinn að ofan er bráðnaður.

Saltkringlur

Saltkringlur (e. pretzel) eru hið fullkomna bjórfæði enda fátt sem passar eins vel með einum köldum. Hér byrjum við á að gera maltsíróp úr Tuttugasta og fjórða og bætum því svo út í deigið. Kringlurnar eru síðan soðnar upp úr Heims um bjór og kryddaðar með grófu salti og kínversku 5-spice kryddi sem einkennist af anis, kanil og negul áður en þær eru bakaðar.

Þessar bráðna í munni og ná sjaldan stofuhita eftir að þær koma úr ofninum!

Maltsíróp

½ bolli sykur

½ bolli ÖB Tuttugasti og fjórði

Sjóðið saman sykurinn og bjórinn við vægan hita. Gætið þess að ekki sjóði upp úr. Sjóðið og hrærið í um 1-2 mínútur. Takið pottinn til hliðar og látið sírópið kólna.

Saltkringlur

2 bollar volgt vatn (37°-40°C)

2 pk. þurrger

2 msk. maltsíróp

6½ bolli hveiti

2 msk. salt

75 g kalt smjör, skorið í bita

8 bollar vatn

½ bolli matarsódi

¼ bolli púðursykur

½ bolli ÖB Heims um bjór

Gróft salt og kínversk kryddblanda (5 chinese spice, fæst í Krydd- og tehúsinu)

Blandið saman 2 bollum af vatni, geri og maltsírópi í skál og leggið til hliðar í um 10 mínútur. Hveiti, salt og smjör er sett í hrærivélaskál og smjörinu blandað saman við þurrefnin í höndunum (klípið smjörið saman við þurrefnin). Hellið gerblöndunni út í og blandið saman með sleif þar til deigið hefur tekið í sig vökvann. Setjið nú hnoðarann á hrærivélina og hnoðið deigið á meðalhraða þar til það verður mjúkt og teygjanlegt, um það bil 5-6 mínútur. Breiðið klút yfir skálina og látið deigið lyfta sér á hlýjum stað í 1-1½ klst eða þar til það hefur stækkað um helming.

Hitið ofninn í 230 °C.

Takið deigið úr skálinni og formið n.k. hleif án þess að hnoða deigið. Skerið hleifinn í ca. 12 sneiðar. Rúllið hverri sneið út í 50-60 cm lengju. Til að forma kringlurnar er lengjan beygð í „U“. Endarnir á „U-inu“ eru krossaðir einu sinni, eða tvisvar og síðan festir sitt hvorum megin við botninn á „U-inu“. Hafið tvær til þrjár bökunarplötur með bökunarpappír tilbúnar. Blandið saman í skál grófu salti og kínverskri kryddblöndu og leggið til hliðar.

Setjið 8 bolla af vatni, matarsóda, bjór og púðursykri í pott og hitið upp að suðu. Lækkið þá hitann örlítið. Sjóðið kringlurnar, eina í einu í pottinum í um það bil 30 sekúndur eða þar til þær fljóta. Gætið þess að taka þær varlega upp úr pottinum, gott er að nota til dæmis fiskispaða. Leggið kringlurnar á bökunarplötu, kryddið með saltblöndunni. Bakið kringlurnar í 5 mínútur, snúið þá bökunarplötunni í ofninum og bakið í um 8 mínútur í viðbót. Athugið að það getur verið mjög misjafnt eftir ofnum hve lengi þarf að baka kringlurnar en þær eiga að koma nokkuð dökkar og stökkar út.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál