Gerum uppreisn - gefum okkur sjálfum ró

Þorbjörg Hafsteinsdóttir næringaþerapisti.
Þorbjörg Hafsteinsdóttir næringaþerapisti. mbl.is/Árni Sæberg

Þorbjörg Hafsteinsdóttir hjúkrunarfræðingur og næringarþerapisti veit hvernig við eigum að komast í gegnum jólin án þess að líða illa líkamlega. Í þessum pistli gefur hún þeim góð ráð sem vilja setja heilsuna í fyrsta sæti.

Veturinn er kominn og með honum fylgja blessuð jólin sem mér þykir alltaf svo vænt um. Ég elska öll kósíheitin, jólaseríurnar úti um allt og konfekt í hverri skál. „Jólaæðið“ með tilheyrandi kaupæði og sykuræði stimplar sig inn og fer á flug á núll einni. Mér finnst það ekki alveg eins sjarmerandi, en það er bara ég. Sennilega er það jóginn í mér sem spornar við græðginni og leitar í nægjusemina og sem er reyndar erindi mitt í þessum pistli. Jógi eður ei, er ekki einmitt nægjusemin ágæt að hafa með í veganestið, eða alla vega á bak við eyrað, svona fram að áramótum til að byrja með?

Það er dásamlegt að gefa. Reyndar er til á vísindum byggð innistæða fyrir því, að það gerir okkur hamingjusöm. Hvað maður þarf að gefa mikið til að tryggja hamingjuna virðist ekki vera eins mikilvægt og hugarfarið og tilgangur með gjöfinni en sá gjörningur framkallar hamingjuboðefnin í heilanum.

Það er ekki endilega gefið, að jólagjafir framkalli gleði og hamingju, hvorki hjá gefanda né þiggjanda. Hver þekkir ekki að æða í búðir á síðustu stundu og kaupa eitthvað tilfallandi og allt of dýrt og hver þekkir ekki að sitja uppi með einhvern hlut eða flík sem okkur langar ekkert í eða hvað þá höfum not fyrir.

Gerum uppreisn – gefum okkur sjálfum ró

Spurningin er hvort við ættum að vera huguð í ár og gefa með meðvitund. Sleppa kaupæðinu, gefa minna og setja alúð í að velja gjöfina.

Gefum til dæmis einungis endurnýtt, notað eða „fair trade“. Gott súkkulaði eða vítamín. Spennandi mataruppskrift og allt í hana. Ullarsokka eða fallegt ljóð. Kort í jóga eða bíómiða. Og hvernig væri að skrifa alvöru jólakort?

Svo finnst mér alltaf góð hugmynd að gefa sjáfum sér gjöf . Til dæmis tíma. Til að vera með sjálfum sér á uppbyggjandi námskeið fyrir líkama og sál eða loforð um 20 mínútur daglega í þögn. Það er líka hægt að gefa sjálfri sér að jólin í ár séu streitulaus og pakka fullkomnunaráráttunni niður í kassa og setja upp á loft. Þú getur alltaf náð í hana aftur ef þú þarft á henni að halda. Mundu að skrifa niður það sem þú gefur og pakka inn í jólapappír. Endurunninn að sjálfsögðu.

Tölum aðeins um mat og sykur. Það er almennt viðurkennt að með jólaæðispakkanum fylgir fríkort til að borða hvað sem er og hvenær sem er. Engrar spurningar spurt um hollustu, uppruna eða nytsemi fyrir líkamann. Það eru sterkir kraftar á kreiki og getur verið afar erfitt að ögra; „þetta erum við vön að gera um jólin“. Við dettum í það saman: jólasmákökur, jólarandalínur, jólakonfektið, jólaölið, jólabjórinn og jólaskinkuna og jólasteikina og í allt hitt jóla mig hér og jóla mig þar! Æ! ég segi þetta með bros á vör og frá kærleiksríku hjarta. En engu að síður með smá alvöru því mér er kunnugt um ekki fáar innlagnirnar á bráðavaktina sökum ofáts! En magakveisurnar, uppþemban, brjóstsviðinn og hægðateppurnar, í fylgd með ógleði og ónotum sem enda í langlegu á sófanum, allt annað en kósítíma á klósettinu, eru miklu fleiri.

Byrjaðu daginn með glasi af vatni og safa úr ½ sítrónu eða 1 msk. af eplasíder-ediki.

Hugsaðu vel um flóruna og taktu daglega góða gerla; ég tek sjálf Probi Mage LP299v. Þegar þú „dettur í það“ og borðar þungan mat, taktu hann þá 2-3 sinnum á dag.

Drekktu staup af sykurlausum ananas- og greipávaxtasafa. Hann auðveldar þér meltingu á þungum og fituríkum mat.

Drekktu 1,5 -2 l af vatni daglega. Hafðu það með þér.

Hafðu einn dag í viku fljótandi dag á súpum og söfum.

Hreyfðu þig. Ef þú gerir það alla vega 5 sinnum í viku, t.d. jóga, gönguferðir, sund eða fitness, þá geturðu leyft þér meira af jólagottinu.

Taktu meðvitundina og hjartað með í ráðum í vali á jólagjöfum í ár.

Slökktu á jólaseríunum á nóttunni. Fyrir jörðina.

Og ekki gleyma að njóta. Það er dásamlegur tími fram undan og hann verður það ef þú ákveður það.

 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál