„Þegar við fjölskyldan áttum ekki neitt“

Brynja Björk Garðarsdóttir með son sinn.
Brynja Björk Garðarsdóttir með son sinn.

„Í gær átti ég óskaplega annríkt fannst mér og þar sem ég sat úti í umferðinni að flýta mér ægilega mikið fann ég jólastressið búbbla upp í maganum á mér. Ég átti eftir að keyra út um allt og sækja hitt og þetta og gera og græja, það eru jólakort og jólapakkar og elda og pakka inn og þrífa og og og,“ segir Brynja Björk Garðarsdóttir verkefnastjóri og jólabarn í hugleiðingu á Facebook rétt í þessu: 

Þá mundi ég eftir því hvað ég er nú í raun heppin að sitja þarna. Í hlýja bílnum mínum, með skottið fullt af jólagjöfum sem ég gat keypt handa öllum sem mér þykir vænt um og troðfulla innkaupapoka af jólamat sem ég ætla að elda á aðfangadag fyrir fólkið mitt í fallega húsinu mínu. Ég skammaðist mín fyrir að vera pirruð og stressuð og varð í staðinn afskaplega þakklát. Ég er heppin og þú líka. Ég veit að þetta er gömul tugga en það skiptir engu máli þótt eitthvað gleymist eða að skáparnir séu ekki hreinir. Sumir eiga ekki einu sinni skáp til að setja matinn sinn í. Sumir eiga ekki einu sinni mat til að setja í skápinn.

Ein eftirminnilegustu jólin mín eru einmitt jólin þegar við fjölskyldan áttum ekki neitt. Mamma var nýskilin og hræðilegt ár að baki þar sem ýmsir erfiðleikar höfðu leikið okkur fjölskylduna grátt. Við áttum ekki krónu og ef yndislegt fólk sem við könnumst við hefði ekki komið færandi hendi með matargjöf frá Kiwanis hefði líklega ekki einu sinni verið jólamatur á borðum. Ég man það svo vel að mamma fór að gráta þegar þeir mættu með pappakassa fullan af jólamat. Jólagjafirnar voru afskaplega fábrotnar þetta árið og ég man að ég fékk vettlinga á meðan margir bekkjarfélagar mínir fengu fyrstu Nintendo leikjatölvuna. Okkur krökkunum var alveg sama og þetta voru bestu jólin okkar í mörg ár. Því við vorum glöð og ánægð og okkur leið vel saman á heimilinu. Ég hugsa um þessi jól á hverju einasta ári og mér hlýnar þá aðeins í hjartanu og ég verð svo þakklát fyrir það sem ég á, ekki bara af efnislegum gæðum heldur fyrst og fremst fjölskylduna mína og vini. Þau eru það sem gerir jólin að besta tímanum.

Gleðileg jól elsku vinir. Ekki vera jólastressuð - það er ekkert sem skiptir raunverulegu máli nema fólkið okkar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál