Vinnur í Jólahúsinu allan ársins hring

Erika Martins Carneiro.
Erika Martins Carneiro. Ófeigur Lýðsson

Erika Martins Carneiro er fædd og uppalin í Brasilíu en býr nú á Íslandi og starfar í Jólahúsinu í Hafnarstræti. Erika er sannkallað jólabarn eins og við er að búast. Erika er gift íslenskum manni og saman eiga þau tvö börn sem tala íslensku, portúgölsku og smá þýsku. „Þetta eru tungumálin sem við tölum saman,“ segir Erika sem kynntist manni sínum þegar hún bjó í Þýskalandi. Jólahefðirnar á heimili Eriku koma úr ýmsum áttum enda á fjölskyldan rætur að rekja bæði til Íslands og Brasilíu. 

Já, ég elska jólin og jólatímann og það gleður mig að jólunum sé fagnað svona mikið á Íslandi, fólk tekur þetta alvarlega, allt í tengslum við matinn og skreytingarnar. Ég elska jólalögin líka,“ segir Erika, spurð hvort hún sé mikið jólabarn. En fær hún ekkert leiða á jólalögunum, jólaskrautinu og stemningunni við það að vinna árið um kring í Jólahúsinu? „Nei, ég kann vel við það, ég hugsa ekki beint um jólin þegar ég er að vinna, þetta er bara eins og hlutverk. Eftir að hafa unnið þarna í ákveðinn tíma þá hættir maður að pæla í jólatónlistinni og jólastemningunni. Á sumrin eru þetta aðallega túristar sem koma í búðina til okkar, þeir eru þá helst að leita að minjagripum á jólatréð. Þá er gaman að segja þeim frá íslensku jólahefðunum og sjá viðbrögð þeirra. Allir elska söguna um íslensku jólasveinana og margir vilja þá eignast jólaskraut með jólakettinum eða Grýlu, það finnst þeim heillandi. Það eru nefnilega helst túristar sem versla í Jólahúsinu yfir árið en Íslendingarnir koma svo gjarnan yfir helgarnar og á hátíðardögum. Og svo koma Íslendingarnir auðvitað í desember þegar jólastemningin er komin í bæinn, og þá fær maður jólafílinginn beint í æð. Ég verð svo spennt við að sjá borgina upplýsta með jólaljósum,“ segir Erika sem skreytir mikið heima hjá sér. „Já, við eigum mikið jólaskraut og elskum að skreyta. Krakkarnir hjálpa mér. Mamma mín elskar líka að skreyta og þetta kemur frá henni.“
mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Santa Claus setur gjafirnar undir rúmið

En hvaða jólahefðir eru í hávegum hafðar á heimili Eriku? „Það er heitt í Brasilíu á þessum árstíma en jólahefðirnar okkar eru náskyldar amerískum og evrópskum jólahefðum. Búðirnar eru skreyttar með gervisnjó og gínurnar í búðunum eru með jólasveinahúfur og klæddar sundfötum. Heima hjá foreldrum mínum í Brasilíu er heimilið prýtt með stóru gervitré og við skreytum það með glerkúlum og gylltu glimmerskrauti. Og svo setjum við seríur á jólatréð og á svalirnar, alveg eins og er gert hér heima,“ segir Erika sem reynir að finna jafnvægi á milli brasilískra og íslenskra jólahefða á sínu heimili. „Sumt er líkt en annað er ólíkt. Það er til dæmis einn stór munur – við borðum kalkún á aðfangadag á miðnætti, það er gert á hverju heimili í Brasilíu. Fólk fer yfirleitt í kirkju um kvöldið og svo er kvöldmaturinn borinn fram eftir það, sem sagt mjög seint. Jólasveinninn Santa Claus kemur með jólagjafirnar á aðfangadagskvöld og þær eru settar undir rúmið okkar – en svona er þetta gert í minni heimaborg en Brasilía er mjög stórt land og jólahefðir eru mismunandi á milli landshluta. Svoleiðis er þetta líka gert heima hjá okkur á Íslandi því ég vil að börnin mín fái að kynnast þeirri hefð. En svo koma íslensku jólasveinarnir auðvitað heim til okkar og gefa í skóinn.“

Erika og fjölskylda hennar borða svo kalkún með ávöxtum á aðfangadag. „Hann er borinn fram með meðal annars ávöxtum (ananas, ferskjum, fíkjum og kirsuberjum), hrísgrjónum og nóg af kastaníuhnetum. Döðlur og þurrkaðar fíkjur eru líka mikið borðaðar á mínu heimili yfir hátíðarnar. Svo bjóðum við upp á skinku sem kallast „tender“, hún er svipuð íslenska hamborgarhryggnum. Og þar sem Brasilía er mjög fjölmenningarlegt land höfum við erft jólahefðir frá ýmsum áttum, við berum til dæmis fram Panettone-gerbrauð með þurrkuðum ávöxtum, það kemur frá Ítölunum. Svo er mismunandi hvað fólk er með í eftirrétt en ástaraldinbúðingur er í uppáhaldi hjá mér,“ segir Erika.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál