Völli Snær á BBC Lifestyle: Býður upp á íslensk veganesti í sumar

Völundur Snær Völundarson er með sjónvarpsþætti á BBC Lifestyle.
Völundur Snær Völundarson er með sjónvarpsþætti á BBC Lifestyle. Ljósmynd/Úr einkasafni

BBC Lifestyle sjónvarpsstöðin hefur hafið sýningar á kokkaþáttum Völundar Snæs Völundarsonar, Delicious Iceland. „Þetta eru vissulega frábærar fréttir og við erum eiginlega orðlaus yfir þessu,“ segir Völundur Snær um velgengni þáttanna. „Það er búið að sýna þá í yfir 30 löndum um allan heim en þeir fara í sýningu á RÚV í sumar og ég er mjög spenntur yfir því. Þetta opnar vissulega fleiri dyr og meðal annars er búið að bjóða okkur til Kína í sumar til að kynna efnið okkar á stærstu kaupstefnu í matarsjónvarpsgeiranum þar í landi. Ég er mjög spenntur fyrir því enda Kínamarkaðurinn sá eftirsóttasti í dag.“

Þættirnir fjalla um íslenskan mat og í þeim ferðast Völundur um landið og tekur bændur og búalið tali og kannar hvað verið er að rækta. „Við fórum víða og hittum mikið af frábæru fólki sem er að gera ótrúlega hluti úr íslensku hráefni. Svo héldum við mikilli tryggð við sjávarútveginn okkar en ég er mikill aðdáandi íslensks fiskmetis.“

Býður landanum Íslenskt veganesti í sumar

Völundur bjó á Bahama-eyjum í fimmtán ár en nú leitar hugurinn til Íslands. „Við hjónin erum búin að bræða þetta með okkur í dálítinn tíma og nú ætlum við að láta slag standa og opna lítinn veitingastað á Íslandi í sumar. Við erum búin að liggja yfir hugmyndafræðinni og ætlum að hafa þetta svolítið hrátt og „rustic“,“ segir Völundur. „Þemað er Íslenskt veganesti eða „Icelandic Street Food“. Meira segi ég ekki í bili en skora á fólk að kíkja til okkar í stemninguna.“ Mikil leynd ríkir yfir öðrum áformum en Völundur vill sem minnst segja um staðsetninguna. „Þetta er allt í vinnslu en þar sem þetta er veganesti má búast við að þetta verði í alfaraleið.“

Aðspurður hvað íslenskt veganesti sé segir hann það kjarngóðan íslenskan mat sem fylgt hefur þjóðinni í gegnum árin.

„Þetta er í grunninn kjarngóður íslenskur matur sem hefur fylgt þjóðinni í gegnum árin. En að sjálfsögðu með smá tilbrigðum. Einfalt en gott – eitthvað sem við þekkjum öll og elskum og erum stolt af því að bjóða ferðamönnum upp á. „Street Food“ gefur líka til kynna að þetta er einfalt, aðgengilegt og þú ræður hvort þú borðar á staðnum eða tekur með þér í tjaldið – eða hvert sem ferðinni er heitið. Hreinræktuð íslensk rómantík held ég bara,“ segir Völundur að lokum.

Réttur eftir Völund Snæ Völundarson.
Réttur eftir Völund Snæ Völundarson. Ljósmynd/Delicious Iceland.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert