Grísasamloka

Hægeldað grísakjöt sem síðan er “tætt” í sundur áður en það er borið fram er kallað “pulled pork” í Bandaríkjunum og til í  fjölmörgum mismunandi útgáfum eftir ríkjum. Í Tennessee er hefðin sú að blanda kjötinu saman við BBQ-sósu og bera fram í brauði líkt og hamborgara. Þetta hefur verið kallað grísasamloka á íslensku og var einn vinsælasti rétturinn matseðli Hard Rock Café í Kringlunni hér í den.

Þetta er svolítið tímafrekur réttur en engu að síður einfaldur. Þeir sem vilja taka þetta alla leið gera auðvitað sína eigin BBQ-sósu og baka sín eigin brauð auk þess að búa til amerískt hrásalat eða Cole Slaw. Þeir sem vilja stytta sér leið geta auðvitað notað uppáhalds BBQ-sósuna sína og keypt brauð út í búð.

Það er hins vegar ekki hægt að stytta sér leið þegar kemur að kjötinu. Það þarf að liggja í kryddlegi í um hálfan sólarhring og síðan hægeldast í ofni í þriðjung úr sólarhring.

Við notum grísahnakka og fyrsta skrefið er að fara í kjötborðið og kaupa vænan bita. Um það bil eitt kíló af grísahnakka dugar vel fyrir 4-6.

Næsta skref er að krydda kjötið. Í kryddblönduna þarf eftirfarandi:

  • 3 msk púðursykur
  • 1 msk paprikukrydd
  • 1/2 msk “smoked paprika”
  • 1 msk laukduft (onion powder)
  • 1 msk cummin
  • 1 tsk Cayenne-pipar
  • 1 msk Maldon-salt
  • 6 hvítlauksgeirar, pressaðir

Blandið öllu vel saman. Stingið djúpt í kjötbitann með gaffli allan hringinn til að kryddinn nái að komast inn í vöðvann. Veltið kjötbitanum upp úr kryddblöndunni og þrýstið henni í kjötið þannig að kryddblandan þekji allan bitann vel. Setjið í fat eða skál, lokið með álpappír eða plastfilmu og geymið í ísskáp yfir nótt.

Hitið ofninn í 125 gráður. Takið kjötbitann úr ísskápnum. Setjið í fat og og eldið í ofninum í 8 klukkustundir.

BBQ-sósa

  • 3 dl tómatsósa
  • 1 dl púðursykur
  • 1 dl eplaedik eða cider-edik.
  • 2 msk Worchesterhire-sósa
  • 1 tsk Tabasco
  • 1 msk  mulinn kóríander
  • salt og pipar

Blandið öllu saman í potti, hitið upp að suðu og látið malla rólega í um 5 mínútur. Geymið.

Þegar um ein klukkustund er eftir af eldunartímanum er kjötið penslað með BBQ-sósu og eldað áfram.

Eftir 8 klukkustundir er kjötið tekið úr ofninum. Setjið á skurðbretti og leyfið aðeins að kólna. Tætið síðan kjötið í ræmur með tveimur göfflum. Blandið BBQ-sósu saman við.

Með þessu þarf svo tvennt í viðbót:

Heimabökuð hamborgarabrauð (smellið til að sjá uppskrift)

Amerískt hrásalat – Cole Slaw (smellið til að sjá uppskrift).

Skerið brauðin í tvennt. Setjið fyrst Cole Slaw og síðan grísakjöt á brauðið. Setjið efri hlutann á og berið fram ásamt hrásalatinu og afganginum af BBQ-sósunni.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert