Ítölsk tómatasósa

Tómatasósa er grunnurinn að ótrúlega mörgum ítölskum uppskriftum og allar ítalskar húsmæður eiga sína uppskrift af sinni fullkomnu tómatasósu eða sugo di pomodoro- stundum kallaðar marinara-sósur. Við notum tómatasósur mikið í uppskriftunum okkar, þær eru notaðar í pastaréttum á pizzur og á margvíslegan annan hátt.

IMG 9530 200x200c Ítölsk tómatasósa

Grunnurinn er auðvitað góðir tómatar og flestar ítalskar uppskriftir gera ráð fyrir þroskuðum plómutómötum. Hvað bestir eru San Marzano-tómatarnir frá Kampaníu. Íslenskir tómatar henta  hins vegar því miður ekki. Þeir geta sumir verið ágætir í salöt en þeir eru ekki sólbakaðir undir Miðjarðarhafssólinni og ná aldrei þeim þroska og þeirri sætu sem nauðsynleg er í góða tómatasósu. Það er því betra að nota ítalska tómata – úr dós, eða krukku. Það er hægt að nota heila tómata, eða maukaða. Um daginn rákumst við til dæmis á hrikalega flotta pressaða, lífræna ítalska tómata, sem eru tíndir og pressaðir strax og settir á flösku. Ótrúlega mildir og flottir. Það er þannig tómata sem þarf í hina fullkomnu tómatasósu.

Skoðanir eru skiptar um hvernig sé best að gera tómatasósuna en yfirleitt er einfaldleikinn bestur. Fínsaxið lauk – og saxið hann virkilega fínt. Mýkið hann varlega í olíu (sumar uppskriftir gera líka ráð fyrir smá smjöri) í rúmar fimm mínútur og bætið þá nokkrum fínt söxuðum hvítlauksgeirum saman við. Mýkið hvítlaukinn í 2-3 mínútur og bætið næst tómötunum saman við. Ef þið notið heila tómata úr dós er gott að merja þá með trésleif. Bætið ögn af hvítvíni eða góðu vínediki saman við og svo auðvitað leyndarmáli ítlaskra húsmæðra. Það þarf smá sykursætu til að draga úr beiskleika tómatana. Skeið af sykri er því málið eða – ef þið viljið ekki nota sykur eða hrásykur – ögn af hunangi eða agave-sírópi. Það er líka gott að krydda með ögn af óreganó – og chili-flögum fyrir þá sem vilja örlítið bit.

Leyfið sósunni að malla. Ef þið eruð að nota fullkomna tómata eins og þessa sikileysku þarf ekki langan tíma. Ef þið notið hefðbundna niðursoðna tómata þarf hins vegar að leyfa sósunni að malla á mjög vætum hita í 45 mínútur eða jafnvel lengur.

Rétt áður en sósan er borin fram er loks fínt söxuðum kryddjurtum, t.d. basil, bætt út í ásamt örlitlu af mjög góðri ólífuolíu. Ef þið eruð að sækjast eftir virkilega sléttir og fínlegri sósu er hægt að mauka hana með töfrasprota eða í matvinnsluvél áður en basil er bætt saman við.

Þá er bara að njóta með pasta og parmesan og hvers vegna ekki kálfasnitsel.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert