Orecchiette með kjúklingabollum

Orecchiette er sú pastategund sem vinsælust er í Púglía syðst á Ítalíu. Nafnið mætti þýða sem “litlu eyrun” og það er nokkuð augljóst hvernig nafnið er tilkomið. Þessi pastategund minnir nefnilega óneitanlega töluvert á…lítil eyru.

Litlu eyrun eru ekki hvað síst góð til að nota með pastasósum þar sem “eyrun” skófla sósunni í sig.

Hér leikum við okkur aðeins með kjötbollur og pasta – gerum bollurnar úr kjúklingakjöti með fullt af steinselju og pecorino-osti. Það má líka nota parmesan-ost.

Kjúklingabollur

  • 600 g úrbeinuð kjúklingalæri
  • 2,5 dl heimatilbúið brauðrasp
  • 50 g Pecorino
  • 1 búnt steinselja
  • 2 egg
  • 1/2 tsk chiliflögur
  • sjávarsalt og nýmulinn pipar

Hakkið kjúklingalærin. Ristið um 3 brauðsneiðar í ofni þar til að þær eru orðnar harðar (en ekki brenndar). Maukið brauðið í rasp í matvinnsluvél ásamt Pecorino-ostinum og steinseljunni. Léttpískið egginn. Blandið öllu saman, Kryddið með chiliflögum, salti og pipar. Mótið í litlar kjötbollur.

Og já…það er hlaupið að því að fá Orecchiette á Íslandi. Þannig að við urðum að gera okkar eigin “eyru”. Þið sem nennið því ekki notið bara annað pasta, t.d. penne eða fusilli.

Í pastadeigið þarf:

  • 175 g Semolina hveiti
  • 75 g venjulegt hveiti
  • 1 eggjarauða
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 tsk sjávarsalt

Hrærið með hrærara í hrærivél ásamt um 1 dl af vatni þar til að deigið er orðið að kúlu. Látið kúluna standa í um 20 mínútur.

Mótið í sívalar lengjur. Skerið niður í  hringlótta krónupeninga” og þrýstið þumalfingri inn í pastahringinn þannig að það myndast “eyra”. Sáldrið hveiti yfir tilbúin eyru og geymið undir viskustykki.

Sjóðið pasta í um 6-7 mínútur í mjög söltu vatni.

Hitið olíu á pönnu og steikið bollurnar um 2-3 mínútur á hvorri hlið. Bætið um 1 dl af kjúklingasoði út á pönnuna ásamt skvettu af víni ef þið eigið (hvítu eða rauðu). Hellið næst um 3-4 dl. af tómatamauki út á og látið malla á miðlungshita í um 10 mínutur þar til sósan hefur þykknað og bollurnar eru fulleldaðar.

Rífið niður um 2 dl af parmesanosti og hrærið saman við. Setjið pasta í skálar eða á disk. Hellið sósu yfir og setjið bollur á diskinn ásamt söxuðum ferskum basil. Berið fram með auka rifnum Parmesan.

Auðvitað þarf Púglía-vín með. Við völdum A Mano Primitivo sem lengi hefur verið í uppáhaldi.

Meira ítalskt hér.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert