Kjúklingur í sinneps- og estragonsósu

Sumt á betur saman en annað og það á t.d. við um franskt Dijon-sinnep og estragon en það er einmitt grunnurinn í sósunni með þessum franskættaða kjúkling.

  • 8-10 kjúklingaleggir
  • 1 msk kóríanderfræ
  • 1 laukur, saxaður
  • 4 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
  • 3 dl kjúklingasoð
  • 1 dós sýrður rjómi, 18 eða 36%
  • 2 matskeiðar grófkorna Dijon -sinnep
  • 1 lúka saxað estragon eða 1 væn tsk þurrkað
  • salt og pipar

Byrjið á því að þurrista kóríanderfræin á heitri pönnu. Veltið þeim um á pönnunni í 2-3 mínútur þar til að þau fara að dökkna. Leyfið að kólna aðeins. Setjið í mortel og myljið.

Hitið olíu á pönnu og brúnið kjúklingabitana. Saltið og piprið. Lækkið hitann, bætið saxaða lauknum út á og mýkið í 3-4 mínútur. Bætið þá hvítlauk út á og veltið áfram um á pönnunni í 2-3 mínútur. Kryddið með muldu kóríanderfræunum og hellið kjúklingasoðinu á pönnuna. Leyfið suðu að koma upp, látið malla undir loki á miðlungshita í um 20 mínútur.

Takið þá kjúklingabitana af pönnunni og haldið heitum.

Setjið sýrða rjóman sinnep og estragon á pönnuna. Pískið vel saman og látið malla í um 5 mínútur á miðlungshita eða þar til að sósan fer að þykkna. Setjið kjúklinginn aftur út í og leyfið að malla saman í 1-2 mínútur þannig að kjötið nái fullum hita á ný. Berið fram.

Gott og einfalt franskt rauðvín smellpassar merð, t.d. Vidal-Fleury Cotes-du-Rhone.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert