Risaeggið sem bráðnaði

Sara María er komin í páskaksap.
Sara María er komin í páskaksap. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Páskar eru samverutími fjölskyldu og vina. Sumir halda þá hátíðlega heima en aðrir nota tækifærið og fríið til að fara í ferðalög eða stunda íþróttir, svo sem skíðagöngur. Sara María Júlíudóttir hönnuður og stílisti lítur á páska sem frítíma, þegar fjölskyldan getur slakað á og notið þess að borða góðan mat, setið saman í sófa og horft á sjónvarp meðan páskaeggin eru borðuð. Af fjölmörgu er að taka sem tengist páskahátíð landsmanna og skreytingum fyrir hana.

Páskar – orðið kemur af stað alls kyns hugrenningatengslum. Fyrir utan þær trúarlegu koma í hugann alls kyns tákn sem fólk setur inn í híbýli sín til þess að fagna þessari helstu hátíð kristinna manna. Einnig er ýmiss konar matur tengdur þessari hátíð. Svo sem páskalambið, sem er tákn fyrir Krist, því var fórnað eins og hann fórnaði sér fyrir mennina. Eðlilegt þykir að borða lambakjöt á páskunum. Páskaeggin eru líka fyrirferðarmikil í páskum nútímamannsins. Sumir telja að þau vísi til vorkomunnar og endurfæðingarinnar. Þau eiga rætur í páskaskattinum sem leiguliðar greiddu landsdrottnum sínum og oft var greiddur í eggjum. Landeigendurnir áttu á endanum svo mikið af eggjum að þeir gáfu þau fátækum. Enn síðar fóru menn að skreyta eggin og loks að stinga inn í þau samanbrotnum orðsendingum. Páskaegg úr súkkulaði voru fyrst auglýst til sölu á Íslandi í Björnsbakaríi árið 1920. Íslendingar hafa einir þjóða þann sið að stinga málshætti inn í súkkulaðipáskaegg. Ekki má gleyma páskaliljunni, sem mörgum þykir ómissandi á páskaborðið. Ættkvísl hennar kallast narcissus á latínu, en nafnið er úr grísku og vísar til hins unga Narkissosar sem var svo hugfanginn af eigin fegurð að hann varð hungurmorða. Upp af líkama hans óx svo páskalilja. En eitt er það þó sem fólk ætti að varast við páskaliljur. Kettir geta orðið veikir af að éta þær. Ekki má svo gleyma páskakanínunum. Þær hafa orðið sífellt vinsælla páskaskraut. Germanska vorgyðjan Eastre breytti gælufugli sínum í kanínu. Kanínan gladdi svo börn með því að færa þeim marglit egg. Tákn sem vísar til til upphafsins, lífsins og frjóseminnar, gjöf frá vorgyðjunni Eastre. Páskakanína er sem sagt ekki beint tengd hinum kristna boðskap páskanna, en skreytir eigi að síður páskahátíðina okkar.

Samverustundir í sófanum

Sara María Júlíudóttir er hönnuður og stílisti og sem slíkur mjög frumleg. Hún er harðdugleg að skreyta, hvort sem það er fyrir uppákomur eða fyrir hátíðir. Við heimsóttum hana á heimili hennar í Hlíðunum og byrjuðum á að spyrja hana hvað helst kæmi upp í hugann þegar páskar væru til umfjöllunar. „Á páskunum fær fjölskyldan að eiga tíma saman sem ekki er of mikið af í nútímanum,“ segir Sara María og leggur tattóveraða handleggina fram á borðstofuborðið. Við höfum fengið okkur sæti og suplum úr kaffibollum meðan viðtalið fer fram. „Ég tengi páskana við minningar um samverustundir í sófanum, þar sem við börnin fengum að horfa á teiknimyndir og borða súkkulaði. Mínir páskar eru fyrst og fremst heimilisleg hátíð og þess vegna vil ég hafa heimilið fallega skreytt öllum til gleði.“

Ólst þú upp við mikilfenglegar páskaskreytingar?

„Nei. Ekki var mikið skreytt á mínu æskuheimili. Fram til átta ára aldurs ólumst við systurnar tvær upp hjá mömmu, sem var einstæð. Hún hafði allt mjög látlaust á heimilinu, ef eitthvert skraut var sett upp var það annaðhvort mjög fágað eða eitthvað sem við börnin höfðum föndrað. Þegar ég var krakki setti ég fræ í blauta bómull, svo vökvuðum við fræin og upp af þeim spruttu grænar spírur. Þetta fannst okkar spennandi skraut. – Ég er aftur á móti mjög skrautgjörn,“ segir Sara María og hlær. „Kannski er ég svona skrautgjörn af því hvað mamma hafði látleysið mikið í fyrirrúmi. Hún var ljósmóðir og afskaplega þrifin, allt í ljósum litum heima og vel skipulagt. Ég fór hamförum í litum og skreytingum þegar ég fór sjálf að búa.

Heimilisleg hátíð

Ég var ekki gömul þegar ég fór að safna páskaungunum sem við systurnar fengum á páskaeggjunum okkar,“ heldur Sara María áfram. „Mamma gaf okkur lítil egg en svo heimsóttum við pabba og konu hans í Sandgerði og fengum hjá þeim stór egg og mikið skreytt. Eftir að mamma gifti sig aftur, þegar ég var átta ára, voru páskarnir mínir á Akureyri. Þangað fluttum við m.a. til að geta verið nær fjölskyldu fósturföður míns á Dalvík. Ein helsta páskaminning mín tengist einmitt afa og ömmu á Dalvík. Þau höfðu fengið risastórt páskaegg í verðlaun fyrir góðan árangur í golfi, stærsta egg sem ég hef nokkurn tíma séð. Þetta glæsilega egg var sett upp á borðstofuborð og beið páskahátíðarinnar. Við systurnar bundum miklar vonir við þetta egg. En svo kom sólin til skjalanna. Hún skein á eggið í heilan dag. Þegar við komum heim var það bráðnað og orðið að stórum súkkulaðiköggli með páskaungann hálfan ofan í. Ég gleymi þessu aldrei. Þetta var svakalegt áfall. Ekki aðeins tilfinningalegt heldur var ég líka alltaf að hugsa um hvað svona egg hefði kostað! Ég átti vinkonu á Akureyri sem átti vel efnaða foreldra sem unnu mikið. Alltaf var mikill matur til á heimilinu. Við systurnar og vinkona mín og systir hennar vorum mikið saman og gerðum ýmislegt sem ekki hefði þótt gott heima. Við bræddum til dæmis ost í örbylgjuofninum og borðuðum hann með súkkulaði. Það var nóg af nammi hjá vinkonu minni um páskana. Okkur systrunum fannst þetta fín tilbreyting frá hinu fastmótaða og látlausa hátíðahaldi heima hjá okkur.“

Hvað stendur til núna í skreytingamálum fyrir páskana?

„Þá ætla ég að gera stór, gul pappírsblóm. Fyrir brúðkaup bestu vinkonu minnar í sumar gerðum við þannig pappírsblóm úr servíettum og hengdum á mörg tré fyrir utan sumarhús, þar sem brúðkaupið og veislan fóru fram. Ég ætla líka að gera páskakerti, finna góða mynd og líma á kerti. Myndin verður í páskalitum en óhefðbundin og í mínum stíl. Auðvitað hef ég svo páskaliljur og nóg af súkkulaði. Þá á ég skraut síðan um daginn, þegar dóttir mín fermdist. Þá prentaði ég alls konar myndir af henni á þríhyrninga og saumaði á band og hengdi um allan salinn. Ég ætla að hengja þessar skemmtilegu myndalengjur upp aftur núna um páskana. – Svo verður bökuð bananasúkkulaðikakan mín, sem allir elska, og þá er þetta komið. Páskar hafa sem fyrr sagði mikla þýðingu fyrir mig, þeir eru frítími fjölskyldunnar og fjölskylduhátíð. Og þótt ég sé nýflutt skreyti ég sem sagt sem aldrei fyrr til að skapa heimilislega hátíð.“

Fallegt páskaskraut.
Fallegt páskaskraut. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert