Síld með sænsku lambi

Yesmine Olsson og Arngrímur Fannar Haraldsson.
Yesmine Olsson og Arngrímur Fannar Haraldsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í Svíþjóð er skírdagur svolítið eins og öskudagur hér, þá fara börnin í búninga og breytast í litlar páskakerlingar, påskgummor, ganga á milli húsa með körfur og syngja og fá sælgæti að launum,“ segir Yesmine Olsson, sælkerakokkur og einkaþjálfari. Yesmine er fædd á Srí Lanka en ólst upp í Svíþjóð og á þar stóra fjölskyldu. Hún hefur verið búsett á Íslandi í 14 ár og á von á sínu öðru barni með eiginmanninum, Arngrími Fannari Haraldssyni, í lok mánaðarins.

„Mínar páskahefðir eru sambland af sænskum og íslenskum hefðum og matreiðslan er eins og alltaf undir áhrifum frá Indlandi og fleiri Asíulöndum. Í Svíþjóð hittist stórfjölskyldan og slær upp páskaveislu með girnilegu hlaðborði. Ómissandi á páskahlaðborðið eru til dæmis egg, síld, grafinn lax og svo auðvitað páskalambið. Á borðinu eru bæði heitir réttir og kaldir, ásamt gómsætum kökum og eftirréttum.

Hefðbundið borðskraut er lifandi blóm; gulir túlípanar og páskaliljur. Margir föndra fyrir páskana og blása og handmála hænuegg. Það er mjög vinsælt að sækja trjágreinar í garðinn eða út í skóg og stinga í stóra vasa og skreyta þær svo með litríkum, máluðum eggjum og fallegum fjöðrum.“

Gos með flugi

Yesmine segist oftast fara í mat til tengdaforeldra sinna á páskadag en að þessu sinni ætli hún og eiginmaðurinn að halda sína páskaveislu, enda eigi þau von á góðum gesti frá Svíþjóð. „Pabbi kemur og verður hjá okkur um páskana og ég ætla að elda indverskt lamb handa okkur með sprengdum kartöflum, ávaxtasalati, raita, poppadums og súkkulaðimús í eftirrétt. Réttirnir eru allir upp úr nýjustu matreiðslubókinni minni, Í tilefni dagsins, en hún hefur að geyma margar spennandi uppskriftir sem byggjast á sænskum matarhefðum og passa einmitt svo vel í vor og sumar. Svo set ég fullt af túlípönum í vasa og skreyti með þeim veisluborðið, þá eru páskarnir komnir.“

Hún segir ýmislegt í mat og drykk sem hún sakni frá æskuslóðunum og eitt sé algjörlega ómissandi á páskum. „Pabbi kemur færandi hendi með Påskmust, en það er gosdrykkur sem er bara seldur í kringum páskana og bragðast svolítið eins og malt. Gosdrykkurinn er svipaður Julmust sem er aðeins seldur í Svíþjóð á jólum. Þetta gos er fyrir Svíum eins og malt og appelsín í augum Íslendinga.“

Egg úr pappa

Yesmine kynntist íslenskri páskaeggjahefð nokkru áður en hún fluttist hingað til lands. „Ég átti íslenskan kærasta þegar ég var 18 ára gömul og bjó enn hjá foreldrum mínum heima í Viken, litlu sjávarþorpi skammt frá Helsingborg. Hann sendi mér súkkulaðipáskaegg frá Íslandi og mér fannst það voða flott og stillti því upp, hélt að það væri til skrauts. Svo kom hann út til mín í heimsókn um sumarið og varð steinhissa þegar hann sá að páskaeggið var enn ósnert uppi í hillu.

Í Svíþjóð er hefð að kaupa fallega skreytt páskaegg úr pappa og fylla þau með sérstöku páskanammi. Svo eru eggin falin inni í húsi eða úti í garði og alltaf jafnspennandi hjá börnunum að vakna á páskadagsmorgun og byrja að leita. Pabbi minn er svo yndislegur, hann sendir alltaf Ronju dóttur minni og Haraldi stjúpsyni mínum fyllt pappapáskaegg frá Svíþjóð og mér finnst gaman að halda í þá hefð að fela þau fyrir krökkunum, ýmist inni eða úti. Þau eiga því von á góðri gjöf frá pabba þegar hann kemur og fá að auki súkkulaðiegg frá okkur.“

Uppskriftir eru úr nýrri bók Yesmine Olsson, Í tilefni dagsins, með myndum Áslaugar Snorradóttur.

Indverskt páskalamb

fyrir 4-6

2,5 kg lambalæri eða 1,5 kg lambaprime (skorið í bita)

Best er að marinera kjötið yfir nótt.

Blanda 1

5 kardimommur

10 negulnaglar

5 cm löng kanilstöng

1 tsk. túrmerik

2 tsk. cumin-fræ

2 stórir laukar

5 hvítlauksrif

2 msk. Isio-4 olía eða repjuolía

1-2 grænir chili (með eða án fræja)

5 cm fersk engiferrót, afhýdd og skorin gróft

safi af 1 sítrónu (2 matskeiðar)

Maldon-salt eftir smekk

Blanda 2

5 msk. lífræn, hrein jógúrt

2 msk. lífrænt hunang

4 msk. pistasíuhnetur

4 msk. rúsínur

1. Hreinsið lærið og skerið nokkra djúpa skurði þversum í það/eða skerið kjötið niður í grófa bita.

2. Takið til kryddið á disk.

3. Þurrristið kardimommur, negulnagla, kanil og cumin-fræ á heitri pönnu í um það bil 30-40 sek. (hreyfið allan tímann), þar til þið finnið góðan hnetukeimsilm og fræin rétt skipta um lit.

4. Myljið kryddið í mortéli til að ná fram meira bragði.

5. Setjið blöndu 1 í blandara með kryddi og maukið. Nuddið maukinu vel inn í kjötið og látið marinerast í kæli yfir nótt.

Samdægurs:

Takið kjötið úr kælinum og látið það ná stofuhita. Setjið blöndu 2 í blandara og maukið gróft.

Hitið ofninn í 180°C. Setjið lærið í ofnskúffu og hyljið vel með blöndu 2. Setjið álpappír yfir lærið, steikið í 1½ til 2 tíma. Takið álpappírinn af og steikið áfram í 10-15 mín., eða þar til kryddmaukið er orðið stökkt og gullinbrúnt.

Ef þið notið kjötbita er gott að skera niður einn lauk í grófa bita og hafa undir kjötinu og hylja það svo með blöndu 2. Sett í 200°C heitan ofn og steikt í 15-20 mín.

Sprengdar kartöflur

fyrir 4

12 nýjar, meðalstórar, lífrænar kartöflur

500 ml vatn

1 msk. ólífuolía

4 hvítlauksrif, fínsöxuð

2 msk. saxað timjan

2-3 msk. ólífuolía (í hvítlauks-timjanblönduna)

sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk

Hitið ofninn í 225°C. Setjið vatn í stóran pott og látið suðuna koma upp, bætið þá kartöflunum varlega saman við og sjóðið mátulega. Leggið bökunarpappír á plötu og dreypið ólífuolíu rausnarlega yfir. Leggið mjúkar kartöflurnar á plötuna og hafið gott bil á milli. Þrýstið svo varlega með hreinu viskustykki ofan á kartöflurnar, svo þær springi en haldi samt lögun. Steikið hvítlauk og timjan í ólífuolíunni. Stráið salti og nýmöluðum svörtum pipar yfir kartöflurnar og dreypið olíunni yfir. Bakað í 20-25 mínútur, eða þar til kartöflurnar eru orðnar gullinbrúnar.

Litríkt salat með kóríanderbasil-vinaigrette

fyrir 4

Ég nota helst aðeins lífrænt hráefni því þá bragðast salatið svo miklu betur.

½ lítil rauðrófa

½ avókadó

½ rauð paprika

½ gulrót

½ Granny Smith-epli, hreinsað

og flysjað

2 stórir, fræhreinsaðir tómatar

Allt skorið í grófa teninga, um 2 cm á kant.

Vinaigrette

20 g kóríander með stilkum, fínsaxað

10 g basil, fínsöxuð

1 hvítlauksrif, fínsaxað

1 tsk. hunang

1 msk. ólífuolía

2 tsk. hvítvínsedik

salt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk

Saxið allt hráefnið, blandið olíu saman við edik, hunang, salt og pipar. Bætið afganginum af hráefninu saman við. Látið standa á meðan þið gerið salatið, borið fram sem meðlæti.

Poppadums

1 pakki

2-3 dl Isio-4 olía

Ég kaupi brauðið tilbúið og legg sjálf lokahönd á það, það er einfaldast. Poppadums fæst víðast hvar en það kryddaða er langbest. Það þýðir hins vegar að fara verður sérferð í asíska verslun. Besta leiðin og sú upprunalega er að djúpsteikja kökurnar. Ég er hins vegar vön að steikja þær bara á pönnu, þó með nægri olíu til að kökurnar fari á kaf og hún þarf að vera rjúkandi. Ég nota góða grænmetisolíu, repjuolíu eða Isio-4. Kökurnar þurfa ekki nema fáeinar sekúndur á hvorri hlið, leggið þær svo strax á disk með eldhúspappír. Staflið þeim loks upp og hafið pappír á milli til að draga í sig olíuna.

Cumin raita

fyrir 4

300 ml lífræn jógúrt

2 tsk. cumin-fræ (aðeins marin)

1 msk. lífrænt hunang

½ lítill solo-hvítlaukur, fínt skorinn eða 2 hvítlauksrif

½ tsk. sjávarsalt

Öllu blandað saman í skál og látið standa í 10 mínútur áður en borið fram.

Súkkulaðimús með döðlum

og cayenne-pipar

fyrir 6

200 g ljóst súkkulaði, grófsaxað (má blanda saman ljósu og dökku með hámark 62% kakóinnihaldi)

2 msk. bragðlítil matarolía, Isio-4

1 tsk. vanilludropar

½ tsk. cayenne-pipar

75 ml mjólk eða vatn

4 mjúkar döðlur, steinlausar

ögn af sjávarsalti

2 dl rjómi

saxaðar pistasíuhnetur og svartur pipar til skrauts

Súkkulaðið malað fínt í matvinnsluvél, látið standa í skálinni. Blandið saman olíu, cayenne-pipar og vanillu í bolla. Hitið mjólk/vatn upp að suðu ásamt döðlum og salti í litlum potti, hrærið til að mýkja og leysa upp döðlurnar. Hellið svo heitri mjólkinni/vatninu í gegnum sigti í skál. Setjið matvinnsluvélina í gang og hellið mjólkinni í gegnum stútinn, blandað í 15-20 sekúndur eða þar til súkkulaðið er bráðið. Bætið olíublöndunni saman við og blandið aftur í 5-10 sekúndur, þar til blandan er slétt. Setjið blönduna í stóra skál og látið kólna í 5-10 mínútur.

Þeytið rjómann þar til hann heldur lögun (en er alls ekki stífþeyttur). Blandið smávegis af rjóma varlega saman við súkkulaðið til að létta það, í eins fáum handtökum og hægt er (súkkulaðið má ekki vera heitt þegar rjóminn fer saman við). Bætið við rjóma eins og þarf, þar til blandan er hæfileg. Skiptið blöndunni strax í eftirréttaglösin og látið standa í ísskáp yfir nótt; músin geymist vel kæld í 2 daga. Skreytið með pistasíuhnetum og pipar um leið og rétturinn er borinn fram.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert