Saltfiskur í saffranrisotto

Spánverjar og Ítalir eru snillingar í saltfiski og hér er matarhefðum þessara tveggja matarmenningarþjóða splæst saman í unaðslegum saltfiskrétti þar sem saffran gefur undirliggjandi bragð og mascarpone og parmesan gefa réttinum rjómakennda mýkt.

  • 250 g útvatnaður saltfiskur (gjarnan gott hnakkastykki)
  • 2 laukar, saxaðir
  • 2-3 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
  • 6-8 sólþurrkaðir tómatar
  • 3 dl risotto-grjón (arborio eða carnaroli)
  • 3 dl hvítvín
  • klípa af saffran
  • grænmetissoð (ca 1-1,2 lítrar)
  • 100 g mascarpone
  • væn lúka af rifnum parmesan
  • ólífuolía
  • svartur pipar

Byrjið á því að hita grænmetissoðið. Það má auðvitað gera það frá grunni en líka er hægt að nota heitt vatn og grænmetiskraft. Haldið soðinu heitu í potti.

Hitið olíu á pönnu og mýkið laukin. Skertið saltfiskinn í bita. Bætið fiskinum út á pönnuna og steikið í um 3-4 mínútur. Þá er söxuðum sólþurrkuðum tómötum, hvítlauk og saffaran bætt út á. Veltið um á pönnunni í smá stund. Bætið þá grjónunum út á. Veltið um þannig að þau hitni vel. Hellið hvítvíni út á og sjóðið niður að mestu.

Þá er komið að því að ausa soðinu á pönnuna. Byrjið á svona 2 ausum þannig að soðið rétt þekji grjónin. Haldið áfram að bæta út á þangað til að grjónin eru tilbúin. Þau eiga að vera “al dente” með smá biti í miðjunni. Það tekur 15-18 mínútur.

Loks er mascarpone og parmesan hrært saman við. Bragðið til með nýmuldum svörtum pipar.

Berið fram með auka parmesan. Það er líka gott að strá smá fínt saxaðri steinselju yfir.

Fullkomnið svo með góðu spænsku hvítvíni á borð við Baron de Ley.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert