Rabarbarapæ með jarðarberjum og hvítu súkkulaði

Hvítum súkkulaðiperlum er dreift yfir rabarbarann og jarðarberin.
Hvítum súkkulaðiperlum er dreift yfir rabarbarann og jarðarberin. Ljósmynd/Eldhússögur

Matarbloggarinn Dröfn Vilhjálmsdóttir bakaði bestu rabarbaraböku sem hún hefur á ævinni smakkað og var stórfjölskylda hennar henni meira en sammála þegar hún bauð þeim í kaffi. Ekkert er sumarlegra en að nota rabarbara og ber í baksturinn og tilvalið að hafa ís og rjóma með en Dröfn vildi endilega hafa hvítt súkkulaði með þessari böku og útkoman var glæsileg.

HÉR er hægt að sjá uppskriftina ítarlegar.

Uppskrift: 

  •   5-600 g rabarbari, skorinn í bita
  •   250 g jarðarber, helst fersk, skorin í sneiðar
  •   2/3 dl sykur
  •   2 msk maísmjöl
  •   100 g Siríus hvítir súkkulaðidropar (þ.e. 2/3 úr pokanum)
  •   2 dl Kornax-hveiti
  •   1 dl púðursykur
  •   1 dl sykur
  •   2 dl haframjöl
  •   110 g smjör (kalt)

Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Rabarbara, jarðarberjum, maísmjöli og 3/4 dl sykri er blandað saman og sett í eldfast mót. Hvítu súkkulaðidropunum er því næst dreift yfir.

Hveiti, púðursykur, sykur, haframjöl og smjör er mulið saman í höndunum þar til blandan minnir á haframjöl. Þá er blöndunni dreift yfir berin og rabarbarann. Bakað við 180 gráður í 35-40 mínútur eða þar til toppurinn er orðin gullinbrún og berjablandan farin að „bubbla“ upp um hliðar formsins. Borið fram heitt með þeyttum rjóma eða vanilluís.

Ótrúlega auðvelt!

Girnilegt og sumarlegt.
Girnilegt og sumarlegt. Ljósmynd/Eldhússögur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert