Salat með ristuðum möndlum og sítrónu- og hunangsvinaigrette

Þetta er afskaplega sumarlegt og gott salat. Ristuðu möndlurnar gefa því bit og salatsósan með hunangi og sítrónu mikinn ferskleika. Það er tilvalið að nota jöklasalat, Romaine eða Salanova.

Byrjið á því að rista möndlurnar. Takið 1-2 lúkur af heilum möndlum og myljið mjög gróft. Það má gera í matvinnsluvél eða einfaldlega með kökukefli eða kjöthamar.

Setjið bökunarpappír á plötu og dreifið úr möndlumylsnunni. Ristið í miðjum ofni við 180 gráður í rúmar fimm mínútur eða þar til til að möndlurnar byrja að taka á sig smá lit. Passið að brenna þær ekki.

Pískið saman vinaigrette-salatsósuna.

  • 1 sítróna, safinn og rifinn börkur
  • 1/2-1 dl ólífuolía
  • 1 skalottulaukur, fínt saxaður
  • 1 msk hunang
  • 1/2 tsk sjávarsalt

Rífið börkinn af sítrónunni með fínu rifjárni. Pressið safann úr henni og setið í litla skál eða bolla ásamt sítrónuberkinum. Setjið hunangið út í og látið það leysast upp í safanum. Pískið olíunni saman við. Bætið fínt söxuðum skalottulauknum út í og saltinu.

Setjið nú rifið salat í skál ásamt vænni lúku af fint saxaðri steinselju og annarri lúku af fínt söxuðum graslaukum. Bætið ristuðu möndlunum og vinaigrette-sósunni saman við. Blandið vel saman og berið fram.

Fjölmargar og fjölbreyttar uppskriftir af salati finnið þið svo með því að smella hér.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert