Sykurlaus marengs-bomba

Sykurlaus marengsbomba.
Sykurlaus marengsbomba.

Hrönn Hjálmars sagði frá því á dögunum í viðtali við Smartland Mörtu Maríu hvernig henni leið eftir að hafa borðað pítsu og með viðtalinu birti ég fyrir og eftir mynd af henni. Hún leggur mikið upp úr því að nota sem minnstan sykur og er lunkin við að lifa nánast sykurlausu lífi. Hér gefur hún uppskrift að sykurlausri marengskökur.

Marengsbotn

  • 7-8 eggjahvítur (3 dl)
  • 120 gr sukrin (ég var með gylltan sukrin)
  • 1 tsk vanilludropar (má sleppa, eða nota stevíu með vanillu)
  • 1/2 tsk vínsteinn og salt á hnífsoddi
  • 30 dropar stevía, nota ýmist bragðlausa eða með vanillu

Þeyta hvíturnar mjög vel. Bæta rest út í og þeyta þar til það er mjög stíft. Ég setti þetta í 120 °C heitan ofn í 15 mínútur, lækkaði niður í 90 °C og bakaði í 2 klst. Lét þetta svo standa í ofninum og kólna. Kveikti aftur á ofninum á 100 °C í 1 klst og endurtók leikinn. Losaði marensin og sneri honum við og bakaði aftur í 1 klst á 100 °C.  Ég veit, þetta er langur tími en ég kann ekki aðra aðferð.

Það besta er að þetta má geyma að vild og skella í eftirrétt þegar stundin rennur upp en þá er bara að þeyta nóg af rjóma. Skera niður ávexti að eigin vali og dreifa yfir. Ég gerði „sykurlausa“ karmellusósu með þessu þannig að allir héldu að hér væri verið að innbyrða að minnsta kosti 100 hitaeiningar í hverri skeið en svo var nú ekki.

Karmellusósa:

  • 120 gr smjör
  • 110 gr sukrin
  • 1/2 tsk vanilludropar
  • 1/4 bolli rjómi

Allt sett í pott og soðið vel saman. Þetta þykknar ekki eins og ef um venjulegan sykur er að ræða og því þarf ekki að „sjóða þetta niður”.  Best að dreifa þessu yfir ávextina þegar borið er fram. Hugsa að ég geti bara lofað því að þið verðið ekki svikin af þessu. Þessi mynd náðist áður en síðasti bitinn hvarf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert