Mjólkureldaður kjúklingur með sítrónu og salvíu

Þótt það kunni í fyrstu að hljóma undarlega að elda kjöt í mjólk þá er þetta aðferð sem víða er notuð. Á Ítalíu, ekki síst í norðurhluta landsins, er algengt að grísakjöt sé eldað í mjólk þar til að kjötið er orðið yndislega mjúkt og mjólkin myndar himneska sósu. Sama má segja um saltfisk eins og hina klassísku uppskrift Stoccofisso Vicentina.

Þessi uppskrift er tilbrigði við þessa aðferð og er notaður kjúklingur í staðinn fyrir grísakjöt. Hugmyndin er sótt í uppskrift í bókinni River Café Italian Easy eftir þær Rose Gray og Ruth Rodgers en mjólkurkjúklingurinn varð síðan heimsfrægur þegar einn af lærlingum þeirra, Jamie Oliver, notaði útgáfu af uppskriftinni í sjónvarpsþáttum sínum og bókum. Hann bætti m.a. við kanilstöng, sem gefur réttinum örlítið asískan blæ í bragðinu frekar en hið hreinræktaða ítalska í uppskrift þeirra Gray og Rodgers.

  • 1 kjúklingur
  • 6 dl mjólk
  • rifinn börkur af tveimur sítrónum
  • 1/2 kanilstöng
  • 10-12 vænir hvítlauksgeirar
  • lúka af ferskri salvíu eða væn msk þurrkuð
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Það er best að elda kjúklinginn í þykkum pottjárnspotti með loki. Byrjið á því að hita ólífuolíu eða blöndu af ólífuolíu og smjöri í pottinum. Brúnið kjúklinginn allan  og saltið og piprið vel með góðu sjávarsalti og nýmuldum pipar. Hellið olíunni úr pottinum.

Setjið næst mjólkina, sítrónubörkinn, heila hvítlauksgeira og salvíu í pottinn ásamt kanilstönginni (ef þið viljið nota hana). Það má þess vegna setja meira af hvítlauk með og það þarf ekki að taka hýðið af hvítlauksgeirunum. Látið bringurnar á kjúklingnum snúa niður.

Setjið pottinn inn í 190 gráðu heitan ofn og eldið undir loki í 45 mínútur. Takið þá lokið af og eldið áfram í aðrar 45 mínútur. Það er ágætt að ausa mjólk yfir kjúklinginn 1-2 sinnum.

Takið kjúklinginn upp úr pottinum og setjið á skurðbretti. Hreinsið kjötið af beinunum – það á nánast að detta af.

Mjólkin sem eftir er í pottinum er orðin þykk og svolítíð kekkjótt. Pískið hana aðeins til og bragðið á henni. Bragðið til með salti og pipar ef þarf og jafnvel má kreysta smá sítrónusafa út í .

Berið kjúklinginn fram með sósunni og góðri kartöflumús. Þið finnið uppskrift að klassískri kartöflumús með því að smella hér og einnig væri hægt að hafa Fetamús með salvíu með þessum rétti.

Þetta er réttur sem fellur frábærlega að góðu Chardonnay-víni, t.d. hinu suður-franska Gerard Bertrand Chardonnay. 

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert