Unaðsleg marengsterta með ástaraldin

Þessi kaka er dásamleg
Þessi kaka er dásamleg tinnabjorg.com

Marengstertur eru alltaf jafn vinsælar í veislum enda eru þær einkar ljúffengar. Hér deilir bloggarinn Tinna Björg uppskrift af unaðslegri en öðruvísi marengstertu með snickers-kremi.

„Mér datt í hug að gera þessa marengstertu fyrir eins árs afmæli dóttur minnar. Marengstertur eru svo sígildar og slá alltaf í gegn í veislum. Sætu botnarnir og kremið geta verið svolítið yfirþyrmandi svo ég vil alltaf setja einhverskonar ávexti í rjómann á móti sætindunum. Ástaraldinið er heldur súrt, það frískar upp á tertuna og gefur henni svolítið suðrænt bragð,“ útskýrir Tinna Björg sem heldur úti blogginu tinnabjorg.com. 

Marengsbotn:

 
4 eggjahvítur
3 dl sykur
3 bollar Rice Krispies

Þeytið eggjahvíturnar í skál þar til þær verða stífar og ekki froðukenndar. Bætið við sykri og stífþeytið. Blandið því næst Rice Krispies varlega saman við blönduna. Teiknið með blýanti hring á sitthvora bökunarpappírsörkina. Gott er að nota botninn úr 20 eða 24 cm kökuformi til að teikna eftir. Skiptið marengsblöndunni jafnt á bökunarpappírsarkirnar og smyrjið þannig að hún fylli upp í teiknuðu hringina.

Bakið marengsbotnana við 120° í 60 mínútur.

Ávaxtarjómi:

400 ml þeyttur rjómi
250 g jarðarber
3 ástaraldin
100 g Snicker's

Skerið jarðarber í litla bita, skerið ástaraldin í tvennt og skafið innan úr þeim með skeið. Saxið Snicker's í litla bita og blandið saman við þeyttan rjóma ásamt jarðarberjum og innihaldi ástaraldinanna.

Hvolfið öðrum marengsbotninum á fallegan kökudisk og smyrjið rjómablöndu jafnt yfir. Leggið svo hinn botninn ofan á.

Snicker's krem:

200 g Snicker's
40 g suðusúkkulaði
50 g smjör
4 eggjarauður
60 g flórsykur

Skerið Snicker's í bita og bræðið í potti ásamt suðusúkkulaði og smjöri. Kælið blönduna í 10-15 mínútur. Þeytið eggjarauður þar til þær verða léttar og ljósar og bætið flórsykri smátt og smátt saman við. Þegar blandan hefur þykknað, bætið súkkulaðiblöndu saman við hana og þeytið í 2-3 mínútur.

Hellið kreminu jafnt yfir marengstertuna og skreytið hana að vild.

Tinna er mikill snillingur í eldhúsinu og deilir reglulega uppskriftum af girnilegum og gómsætum réttum á blogginu sínu. Tinna segir maregnstertuna henta vel á veilsuborðið og með kaffinu um helgar. „Marengsbotnar geymast vel svo það er þess vegna hægt að baka þá eitt kvöldið í miðri viku og skella tertunni svo saman rétt fyrir sunnudagskaffið.“

Tinna Björg er snillingur í eldhúsinu.
Tinna Björg er snillingur í eldhúsinu. tinnabjorg.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert