Nautalund með gorgonzola-sósu

Nautalund með Gorgonzola sósu.
Nautalund með Gorgonzola sósu. Ljósmynd/María Björg

„Þó að sumarið og mesta grilltíðin sé yfirstaðin er óþarfi að sniðganga nautalundina góðu. Í þessu tilfelli má sjálfsagt grilla lundina, en í tilefni nýkomins hausts ofnbakaði ég þessa. Ég er orðin nokkuð leið á köldu brakandi salati eftir sumarið svo ég útbjó haustlegt salat. Gráðostasósan virkar bæði sem sósa á kjötið og fer mjög vel með salatinu líka,“ segir María Björg Sigurðardóttir matarbloggari á Krydda eftir smekk. 

  • 1 nautalund 1,8 til 2 kíló, sinahreinsuð
  • 2 msk smjör (á stofuhita)
  • 1 msk gróft sjávarsalt
  • 1 grófmalaður svartur pipar

Hitið ofninn í 260°C

Leggið kjötið á bökunarpappír og þerrið með eldhúsrúllu. Makið smjörinu á kjötið með höndunum og sáldrið salti og pipar jafnt yfir það.

Setjið lundina í heitan ofninn og steikið í 22 til 25 mínútur fyrir „rare“ eða „medium rare“. Fylgist samt með kjötinu þar sem ofnar eru mjög misjafnir.

Takið lundina úr ofninum og pakkið henni þétt í álpappír og leyfið kjötinu að hvílast í um 30 mínútur við stofuhita.

Skerið svo lundina í þykkar sneiðar um leið og hún er borin fram.

Gorgonzola-sósa

  • 4 bollar rjómi
  • 10-15 g af gorgonzola stilton, íslenskur gráðaostur 
  • 3 msk nýrifinn parmesanostur
  • smávegis salt (hafið í huga að osturinn er saltur)
  • nýmalaður svartur pipar
  • handfylli fersk steinselja, söxuð


Látið rjómann sjóða á meðalhita í góðum þungbotna potti í um hálftíma eða þar til hann hefur þykknað töluvert. 

Takið af hitanum og bræðið ostinn út í ásamt salti, pipar og steinselju.

Salat með grilluðum tómötum

  • Baby-spínat, mizuna eða annað laufsalat
  • kirsuberjatómatar
  • ristaðar furuhnetur
  • 6 msk ólífuolía
  • 2 msk balsamedik
  • 1 msk dijonsinnep
  • salt og pipar

Blandið saman sinnepi og ediki, þeytið svo olíu saman við og salt og pipar. Veltið tómötunum upp úr leginum. Skellið tómötunum í heitan ofn (220°C) og bakið í 15 til 20 mínútur. Leyfið tómötunum aðeins að kólna og leggið þá svo á salatlaufin og hellið aðeins af dressingunni ofan á ásamt ristuðum furuhnetum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert