Hollt og heimilislegt

Valentína Björnsdóttir eigandi Krúsku og Móður náttúru.
Valentína Björnsdóttir eigandi Krúsku og Móður náttúru. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Nú er gósentíð í eldhúsinu enda íslenska grænmetisuppskeran í hámarki,“ segir Valentína Björnsdóttir hollustukokkur, en hún rekur ásamt eiginmanni sínum, Karli Eiríkssyni, heilsuveitingastaðinn Krúsku við Suðurlandsbraut og tekur sjálf þátt í að matreiða ofan í gesti gómsæta rétti. „Það fyllir hjarta mitt unaði og gleði þegar Lárus grænmetisbóndi á Reykjaflöt kemur vikulega til okkar með nýjar gulrætur og stóran poka af litríkri papriku, sem jafnvel var tínd af plöntunni fyrr um morguninn.“

Valentína segir íslenska grænmetisbændur eiga mikið lof skilið fyrir sína framleiðslu, sem matreiðslan á Krúsku byggist meðal annars á. „Við bjóðum upp á heilsusamlegan og góðan mat og notum alltaf besta fáanlega hráefnið hverju sinni. Nú þegar haustar að verða súpurnar okkar vinsælar, eftir léttari mat í sumar, en þær eru mjög matarmiklar og eiga marga aðdáendur. Á Krúsku gerum við súpurnar úr grænmeti sem bakað er í ofni og þvínæst maukað með soði og tilheyrandi kryddum, útkoman er holl og sérlega góð næring.“

Fyrirmynd annarra

Hópur fastagesta Krúsku fer stækkandi og þannig hefur það verið að sögn Valentínu allt frá því að þau hjónin keyptu reksturinn af Náttúrulækningafélagi Íslands árið 2010. „Krúska þykir vera persónulegur veitingastaður, hann er ekki of stór og frekar heimilislegur. Tryggum fastakúnnum fjölgar ört, sumir hafa komið nánast daglega þau fjögur ár sem við höfum átt veitingastaðinn. Við finnum vel fyrir því hve heilsumeðvitund almennings hefur aukist mikið og erum stolt af því að vera hluti af þessari miklu og jákvæðu breytingu á íslenskri skyndibitamenningu.

Flottum heilsuveitingahúsum fjölgar ört hérlendis og það er frábært, það kemur sér vel fyrir þjóðina alla. Við Íslendingar eigum að vera í fararbroddi í heiminum þegar kemur að hollu og heilbrigðu mataræði, með allt okkar hreina vatn og frábær matvæli; fiskinn, kjötið og grænmetið.“

Hollustuna heim

Aðspurð segir Valentína alltaf mikið annríki á veitingastaðnum í hádeginu, en þar er boðið upp á heitan mat allan daginn, fimm daga vikunnar. „Það róast hjá okkur yfir miðjan daginn og þá er ekki óalgengt að fólk mæti með tölvuna sína og sitji hér í ró og næði yfir kaffibolla og vinni að verkefnum sínum. Sífellt fleiri koma á Krúsku síðdegis til að taka með sér kvöldmat heim og enn fleiri borða hann á staðnum. Okkur þykir vænt um að sjá hvernig veitingastaðurinn hefur þróast, hann er orðinn hluti af tilveru svo margra. Það er afar gefandi að eiga þess kost að skapa veitingastað þar sem fólk getur komið saman og átt ánægjulega stund, yfir gómsætum mat í nærandi umhverfi.

Matseðillinn er breytilegur en við bjóðum ávallt bæði upp á kjúklingarétt og grænmetisrétt dagsins. Tvennt er alltaf í boði; grænmetislasagna með linsubaunum, sem er uppáhaldsréttur margra, og súpersalatið en það er blanda af bankabyggi, hnetum, fræjum og grænmeti, borið fram með kjúklingi og pestó. Súpersalatið er mjög orkumikið og við fáum til okkar íþróttafólk sem velur að fá sér það fyrir æfingar og keppni því það gefur aukinn kraft.“

Valentína og Karl stofnuðu fyrirtæki sitt Móður náttúru árið 2003 en það sérhæfir sig í gerð næringarríkra og hollra grænmetisrétta. „Þegar við fórum af stað með Móður náttúru fyrir ellefu árum var ætlunin að framleiða grænmetisrétti fyrir mötuneyti og skóla. Við fundum hins vegar fljótt fyrir mikilli eftirspurn eftir hollusturéttum í neytendaumbúðum og því þróaðist reksturinn yfir í framleiðslu á þannig matvöru.

Nú eru réttirnir frá Móður náttúru orðnir fastir liðir í heimilishaldi mjög margra, sem er auðvitað afar ánægjulegt. Í sumar settum við á markað þrjá nýja grænmetispottrétti sem eru frábær máltíð einir og sér, til dæmis með hýðishrísgrjónum. Þeir henta einstaklega vel þeim sem vilja halda í við sig því þeir eru afar hitaeiningasnauðir en gefa samt góða næringu og orku. Jafnframt eru nýju pottréttirnir góður grunnur að stærri máltíð, til dæmis með því að bæta saman við þá kjöthakki eða kjúklingi.“

Þakklát skólabörn

Móðir náttúra á stóran og góðan kúnnahóp, að sögn Valentínu. „Við þjónustum leikskóla og elliheimili og allt þar á milli. Okkur hlotnaðist sá heiður að fá að elda mat fyrir nemendur Ísaksskóla og Landakotsskóla og erum að fara af stað inn í fjórða veturinn með þetta skemmtilega verkefni. Fram til þessa hefur matreiðslan fyrir skólana verið í höndum Móður náttúru en nú í haust færist þjónustan yfir til Krúsku, þar sem heilsuréttir Móður náttúru verða þó eftir sem áður á matseðlinum.

Við hjá Krúsku hlökkum mikið til að elda fyrir skólabörnin; þetta er mikil áskorun, en matráðshjartað er stórt og sleifin löng. Skólamaturinn á að vera heimilislegur og hollur með íslenska matarhefð í grunninn, í bland við það sem alþjóðaeldhúsið býður okkur upp á. Það fylgir því mikil ábyrgð að elda fyrir skólabörn, það sýnir sig að börnunum líður mun betur í skólanum og eru ánægðari ef þau fá næringarríkan mat í hádeginu. Svo eru margir foreldrar sem stóla á að börnin fái staðgóða máltíð í skólanum.

Að mínu mati þurfum við sem þjóð að hlúa miklu betur að unga fólkinu okkar. Það þarf að hugsa þessi skólamötuneytismál í heild. Það er ekki nóg að moka einhverju í krakkana á sem skemmstum tíma, með tilheyrandi streitu og hávaða. Matartíminn á að vera nærandi stund, bæði andlega og líkamlega, og gera þarf ráð fyrir þessu í skólastarfinu. Mig grunar að margir kennarar geti tekið undir þetta með mér, enda eru börnin jú framtíðin okkar og það dýrmætasta sem við eigum.“

Tandoori-kjúklingasalat með melónusalsa

Tandoori-marinering

140 g grísk jógúrt

1 msk olía

1 dós tómatpúrra

4 cm ferskur engiferbútur

2 hvítlauksgeirar

ferskur chilibútur

½ tsk paprikuduft

½ tsk kanilduft

tsk garam masala

½ tsk túrmerikduft

salt og pipar

Öllu hrært saman.

600 g kjúklingakjöt, t.d. lundir, marinerað í einn sólarhring.

Vatnsmelónusalsa

1 bolli vatnsmelóna, skorin í bita

2 vorlaukar, fínt sneiddir

½ bolli kókosflögur

½ msk kummínfræ

1 msk engifer, saxað

1 bolli grænar baunir (frosnar affrystar)

sítrónusafi

salt og pipar

Ristið kummínfræ og kókosflögur á vel heitri pönnu í 1-2 mín., passið vel að brenni ekki. Öllu blandað saman. Setjið kjúklinginn á spjót og bakið í 7-10 mín við 200°C. Setjið fallegt salat að eigin vali á disk, stráið yfir vatnsmelónusalsa og leggið kjúklingaspjót ofan á. Skreytið með sítrónu og ferskum kóríander.

Brokkólísalat með kjúklingi og engifer-sojadressingu

fyrir 2-4

Steiktur kjúklingur að eigin vali.

olía til að steikja upp úr

250 g brokkólí, fallega skorið

mangó í bitum eftir smekk

4 hvítlauksrif, söxuð

1 rauðlaukur, sneiddur

1 msk engifer, saxað

1 græn paprika, skorin í bita

1 rautt chili, skorið í fínar sneiðar

smávegis sítrónusafi

½ dl vatn

10 kirsuberjatómatar

ferskur kóríander eftir smekk

spínat eftir smekk

salt og pipar

Setjið olíu á pönnu og hitið vel; steikið brokkólí, hvítlauk, engifer, græna papriku og chili þar til það byrjar að brúnast aðeins. Kreistið yfir safa úr ½ sítrónu og hellið vatninu yfir og látið sjóða snöggt niður. Setjið tómata á pönnuna, spínat og ferskan kóríander, hrærið öllu varlega saman, kryddið með salti og pipar.

Engifer-sojadressing

½ bolli ólífuolía

3 msk góð sojasósa

½ bolli eplasafi

4 cm engifer

½ hvítlauksrif

3 msk ferskur kóríander

½ tsk ferskt chili

3 msk sítrónusafi

½ grænt epli

salt og svartur pipar

Allt sett í blandara og þeytt vel saman.

Gulrótasúpa Krúsku

1 hótellaukur, sneiddur

4 hvítlauksrif

1½ kg rifnar gulrætur

½ dl rifið engifer

3 l grænmetis- eða kjúklingasoð

1 msk túrmerik

sítrónusafi eftir smekk

salt og svartur pipar

Steikið lauk og hvítlauk í potti, bætið saman við rifnum gulrótum og engifer og látið brúnast aðeins.

Setjið soð og túrmerik út í pottinn og leyfið suðunni að koma upp, látið síðan sjóða í u.þ.b. 20 mín.

Maukið súpuna vel í blandara eða matvinnsluvél og smakkið til með sítrónusafa, salti og pipar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert