Saltimbocca-kjúklingur

Saltimbocca alla Romana er heitið á þekktum ítölskum rétti þar sem þunnar kálfasneiðar eru eldaðar með Parmaskinku og salvíu. Stundum eru sneiðunum rúllað upp, stundum ekki. (Við erum með uppskrift af þessum klassíska rétti hér.) Það er líka hægt að leika sama leik með kjúklingabringur. Það sem við þurfum er:

  • Kjúklingabringur
  • Parmaskinka
  • fersk salvía
  • hveiti
  • salt og pipar

Fyrsta skrefið er að fletja bringurnar út í þunnar sneiðar. Skerið í þær langsum með beittum hníf báðum megin þannig að þær “opnist” aðeins. Svolítið eins og að fletta upp bók. Saltið vel og pipripð. Setjið 1-2 salvíublöð á hverja bringu og síðan sneið af Parmaskinku. Setjið bringuna á bökunarpappíra og svo annað blað af bökunarpappír yfir.Berjið til með kjöthamri þannig að bringan verður að þunni sneið sem bókstaflega er búið að hamra skinkuna saman við. Endurtakið koll af kolli með næstu bringur.

Veltið bringunum upp úr hveiti.

Hitið olíu og smjör á pönnu. Steikið í 2-3 mínútur á hvorri hlið, á hliðinni þar sem skinkan er fyrst. Setjið sneiðarnar á eldfast fat og inn í 200 gráðu heitan ofn á meðan þið klárið sósuna.

  • hvítvín
  • kjúklingakraftur
  • smjör

Hellið nú 2-3 dl af þurru hvítvíni út á pönnuna sem að þið steiktuð sneiðarnar á ásamt 1-2 tsk af góðum kjúklingakrafti. Sjóðið vínið niður um a.m.k. helming. Hrærið loks tæpa  msk af smjöri saman við.

Takið sneiðarnar úr ofninum. Setjið á disk og hellið sósunni yfir. Með þessu er gott að hafa t.d. pönnusteiktar kartöflur eða kartöflumús og eitthvað gott salat.

IMG 0273 200x200c Saltimbocca kjúklingur

Gott rauðvín með. Hafið þið t.d. prufað Vinea Museum Crianza?

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert