Manchego-gratínerað brokkólí

Manchego er spænskur ostur frá héraðinu La Mancha á spænsku hásléttunni. Þetta er afbragðs góður ostur og það er líka tilvalið að nota hann í gratín sem þetta. Spánverjar nota oft Manchego í staðinn fyrir Parmesan og því má auðvitað snúa við. Ef þið finnið ekki Manchego (sem er þó til í ostaborðum og helstu stórmörökuðum) þá má alveg nota Parmesan í staðinn.

Þetta brokkólígratín er afbragðsgott með margvíslegum kjötréttum, t.d. nautasteik.

  • 2 brokkólíhausar
  • 3-4 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
  • klípa af chiliflögum
  • safi úr 1/2 sítrónu
  • rifinn börkur af 1/2 sítrónu
  • 75 g rifinn Manchego-ostur
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Byrjið á því að skera stöngulinn af mestu af brokkólíhausunum og saxið þá niður. Setjið í eldfast fat og blandið ólífuolíu, chiliflögum, salti og pipar saman við.

Eldið í um 30 mínútur í 200 gráða heitum ofni. Brokkólíbitarnir mega alveg taka á sig örlítinn lit.

Takið úr ofninum og blandið sítrónusafa, fín rifnum sítrónuberki og rifnum osti saman við. Eldið áfram í um 10 mínútur.

Margvíslegt annað meðlæti má finna með því að smella hér.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert