Áfengir drykkir mun óhollari en flestir halda

Stórt glas af bjór samsvarar sneið af súkkulaðiköku í hitaeiningafjölda.
Stórt glas af bjór samsvarar sneið af súkkulaðiköku í hitaeiningafjölda. Mynd/AFP

Mörgum þykir notalegt að koma heim eftir langan dag og fá sér ískaldan bjór eða glas af víni. En myndi fólk fá sér annað og þriðja glasið ef það vissi hversu margar hitaeiningar þau innihéldu? Þetta eru spurningar sem höfundar nýrrar rannsóknar hafa reynt að svara, og eru niðurstöðurnar þær að fæstir vita hversu margar hitaeiningar eru í áfengum drykkjum. 

Úrtak rannsóknarinnar var tvö þúsund fullorðnir einstaklingar í Bretlandi, og var rannsóknin unnin af Royal Society for Public Health (RSPH). Niðurstöðurnar leiddu í ljós að þrír fjórðu vissu ekki hversu margar hitaeiningar væru í stóru glasi af víni. Þá höfðu 90% fólksins enga hugmynd um hversu margar hitaeiningar væru í stóru bjórglasi.

Ásamt rannsókninni gerði RSPH samanburð á áfengum drykkjum og mat. Þá voru nokkrir vinsælir drykkir listaðir upp og óhollum mat sem inniheldur jafnmargar hitaeiningar stillt upp við hliðina á þeim. Samanburðurinn kemur verulega á óvart, en þar kemur eftirfarandi fram:

Stórt bjórglas = 180 hitaeiningar = Sneið af súkkulaðiköku. 

Stórt glas af hvítvíni = 185 hitaeiningar = 4 djúpsteiktir fiskifingur.

Pina colada með rommi = 644 hitaeiningar = Big mac hamborgari.

Sætir áfengir drykkir, t.d. Breezer = 237 hitaeiningar = Pitsusneið.

Tvöfaldur vodka í tónik = 143 hitaeiningar = Fylltur kleinuhringur með súkkulaði.

Tveir þriðju þeirra sem tóku þátt í könnuninni sögðust vilja að magn hitaeininga kæmi fram á áfengisflöskum. Þar sem áfengi flokkast ekki sem matur er það undanskilið reglum í Evrópu um merkingar á umbúðum. RSPH hefur komið því inn sem tillögu til Evrópusambandsins að þessu verði breytt.

Þá kemur fram að ekki einungis felist inntaka hitaeininga í áfengu drykkjunum, heldur einnig í þeim óholla mat sem margir borða daginn eftir að hafa drukkið mikið.  

„Þar sem tveir þriðju hlutar þjóðarinnar eru í yfirþyngd eða offitusjúkir, og að því gefnu að fullorðnir sem drekka innbyrði 10% hitaeininga frá áfengi, þá gæti þessi rannsókn breytt miklu fyrir þjóðina,“ sagði Shirley Cramer, framkvæmdastjóri RSPH.

Vín er mun óhollara en flestir halda.
Vín er mun óhollara en flestir halda. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert