Jólabjórinn degi fyrr í Vínbúðir

Íslenskur jólabjór í verslun ÁTVR
Íslenskur jólabjór í verslun ÁTVR mbl.is/Árni Sæberg

Þrátt fyrir að í reglugerð um sölu á jólavörum sé kveðið á um að jólabjór megi aðeins selja í Vínbúðum ÁTVR frá 15. nóvember ár hvert munu óþreyjufullir fá sinn jólabjór degi áður þetta árið. Helgast það af því að stjórnendur ÁTVR fengu heimild til undanþágu.

Í ár ber 15. nóvember upp á laugardegi en þá eru margar Vínbúðir á landsbyggðinni lokaðar. Sökum þess fékkst heimild til að hefja sölu á jólavörum deginum fyrr en vanalega.

Á síðasta ári seldust um 616.000 lítrar af jólabjór í Vínbúðunum sem var ríflega 7% aukning frá árinu 2012. Að þessu sinni verða í boði 36 mismunandi vörunúmer af 29 tegundum.

Best er að nýta við vöruleitina á vinbudin.is til að sjá hvaða tegundir eru í boði og í hvaða Vínbúðum þær fást. Leitað er eftir bjór og hakað í reitinn „tímabundin sala“ sem er að finna neðst í leitarvélinni (táknað með klukku). Þá kemur upp listi jólabjórtegunda, en þessi leit er einungis virk á meðan jólabjórinn er í sölu. Með því að smella á nafn vörunnar er síðan hægt að sjá í hvaða Vínbúðum hún fæst og hvaða magn er til hverju sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert