Kornhænur með jólalegum brag

Kornhænur eru afskaplega vinsæll matur víða í Evrópu. Bretar kalla þessa fugla quail, Frakkar nefna þá caille og Ítalír tala um quaglia. Kornhænur eru ansi matarmiklar miðað við stærð og afskaplega bragðgóðar. Þær má elda með margvíslegum hætti en í þessari uppskrift erum við á svipuðum slóðum og Danir með jólaöndina sína og eldum kornhænuna með sveskjum og kartöflum.

Kornhænur má fá frosnar í betri stórmörkuðum og það þarf að lágmarki einn fugl á mann.

Það sem þarf fyrir fjóra er:

  • kornhænur
  • sítrónu
  • 2 skallottulauka
  • 600 g kartöflur
  • væna lúku af steinlausum sveskjum, ca 20 stykki
  • 100 g rúsínur
  • 2 dl sérrí
  • ólífuolíu

Skerið sítrónuna í litla báta og setjið eina sneið í hverja lynghænu. Saltið þær vel og piprið.

Hitið ólífuolíu á pönnu og brúnið fuglana vel á öllum hliðum. Saxið laukana, bætið út á pönnuna og mýkið með fuglunum í um fimm mínútur.

Flysjið kartöflurnar og skerið í litla bita. Bætið út á pönnuna. Veltið um með lauknum í nokkrar mínútur, bætið þá um 2 dl af vatni út á og leyfið að malla rólega í um 20 mínútur. Þá er sérrí helt út á pönnuna ásamt sveskjum og rúsínum og allt látið malla á vægum hita í um korter í viðbót.

Ef vökvinn hefur soðið niður að mestu má bæta sérrí og vatni á pönnuna til að fá sósu með.

Fleiri uppskriftir fyrir jólaborðið má finna hér. 

Kornhænur njóta sín vel með góðu rauðvíni, hér ætti t.d. gott ítalskt vín á borð við La Braccesca vel við.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert