Gefur heimilislausum jólamat

Rannva Olsen.
Rannva Olsen. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Ýmsir gestir okkar eru ekki endilega úr hópi þeirra sem lítið eiga heldur kemur einnig fólk sem er einmana á jólunum. Stundum er um að ræða fólk sem er fráskilið og börnin eru hjá hinum aðilanum, eða það hefur misst maka. Þetta á ekki aðeins við um gestina heldur líka sjálfboðaliðana,“ segir Rannva Olsen, kapteinn og forstöðukona á Dagsetrinu, sem er athvarf fyrir heimilislausa á Eyjaslóð 7 í Reykjavík.

Hvernig hagið þið jólunum í ár?

„Í nóvember hefst undirbúningur fyrir jólin. Þá byrjar maður að hugsa um hvað eigi að hafa í matinn og sækja um styrki. Ýmis fyrirtæki og félög hafa styrkt okkur blessunarlega í mörg ár. Einnig þarf að undirbúa jólapakka fyrir fanga á Íslandi. Það hefur verið hefð lengi að Hjálpræðisherinn sendi föngum jólapakka. Þetta getum við gert vegna þess að við fáum styrk til þess frá góðu fólki.“

Skreytt í hólf og gólf

„Hjá mér á Eyjaslóð erum við byrjuð að skreyta. Við höfum hér til umráða um 200 fermetra. Hér er borðstofa, setustofa og þrjú svefnherbergi. Og auðvitað snyrtingar og þvottaaðstaða. Við skreytum allt nema klósettin, fólkinu sem kemur hingað finnst svo gaman að skreyta. Og það er mjög skemmtilegt að sjá hvernig ýmsir skreyta, þeir gera meira en minna ef svo má segja.

Um þetta leyti förum líka að baka. Það er svo gott að fá kökuilminn í húsið. Við bökum allskonar kökur, stundum gefa bakarí okkur deigrúllur sem auðvelt er að skera niður. Ýmsir bjóða sig fram í það. En þegar við bökum eftir uppskriftum þá er það yfirleitt starfsfólkið sem stendur í því. Okkur þykir öllum gaman að gleðja þá sem koma hingað.

Einnig er núna verið að fara í að athuga með jólafötin. Fólk sem kemur hingað fær flest spariföt hjá okkur. Gestir okkar á Eyjaslóð um jólin eru karlmenn í meirihluta, þar sem Konukot er opið yfir sjálfar hátíðarnar. Jólafötin koma frá Hertex, nytjamarkaðinum okkar, þetta er fatnaður sem almenningur hefur gefið okkur. Hann nýtist bæði til að selja viðskiptavinum og til að fata upp heimilislausa fólkið sem kemur til okkar.“

Skiptar skoðanir um skötu

Hvað borðið þið venjulega á jólunum?

„Við erum yfirleitt ekki með skötu á Þorláksmessu en í fyrra komu einstaklingar og veitingastaður með soðna skötu og meðlæti. Eldri gestirnir voru kátir með þetta en hinir yngri og útlendingarnir voru ekki hrifnir. Þeir vildu heldur venjulegan fisk. Ég er því búin að ákveða að hafa grjónagraut á Þorláksmessu núna með möndlugjöf og svo eitthvert gott brauðmeti með áleggi.“

Hátíðarmaturinn fyrir gesti Hjálpræðishersins verður framreiddur á Tapashúsinu þessi jólin. Tapashúsið er niðri við gömlu höfnina, á bak við Hamborgarabúlluna.

„Forsagan að því er þannig að það hringdi maður í okkur og vildi gerast sjálfboðaliði hjá okkur. Í tal barst að við værum að leita að stærra húsnæði fyrir jólamatinn því salurinn okkar í Hjálpræðishershúsinu tekur varla lengur þá gesti sem koma í mat á aðfangadagskvöld. Þá sagði þessi yndislegi maður: „Ég get bjargað þessu, ég á veitingastað og þar er pláss fyrir 120 gesti. Þar er allt til staðar, aðstaða til eldunar og mataráhöld. Við höfum hvort sem er Tapashúsið ekki opið á aðfangadag og jóladag.“ Svona bjargaðist þetta. Mér finnst fallegt hvernig þessi maður brást við.

Við höfum líka fengið kokk sem sjálfboðaliða. Hann hefur verið með okkur ásamt öðrum í tvö ár og nú ætlar hann að elda í Tapashúsinu. Eftir borðhaldið röltum við svo yfir á Herkastala og þeir fá bílfar sem treysta sér ekki til að ganga. Í sal Herkastalans verður kaffi og kökur og við munum dansa í kringum jólatréð. Þetta er oft skemmtilegasta stundin, hápunktur kvöldsins. Á jóladaginn verður svo opið hjá okkar hér á Eyjaslóðinni fyrir skjólstæðinga okkar.“

Tekið á móti öllum

Er jólahald Hjálpræðishersins svipað í öðrum löndum?

„Já, ég þekki hvernig þetta er í Danmörku og Noregi, það er svipað og við höfum það hér. Ég hef einnig heyrt af jólahaldinu hjá Hjálpræðishernum í Bandaríkjunum, þar er starfið mjög öflugt. Vafalaust er álíka sögu að segja frá ýmsum öðrum löndum. Við hjá Hjálpræðishernum tökum á móti fólki á jólum hverrar trúar sem það er og úr hvaða stétt sem er. Ég vil taka fram að Hjálpræðisherinn í Reykjanesbæ er með jólamat líka á aðfangadagskvöld.

Allir geta komið til okkar á jólunum og gott væri ef fólk gæti skráð sig sem fyrst, sent póst á netfangið rannva@herinn.is eða hringt í síma 5613203 – svo við vitum hve mikið þarf í matinn.“

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert