Velferð kjúklinganna er í fyrirrúmi

Elva Björk Barkardóttir, kjúklingabóndi.
Elva Björk Barkardóttir, kjúklingabóndi. Þórður Arnar Þórðarson

Elva Björk Barkardóttir segist finna fyrir mikilli vitundarvakningu hjá fólki bæði varðandi velferð dýra og einnig nauðsyn þess að vita uppruna fæðunnar sem það leggur sér til munns. Hún gaf upp starf sitt sem lögmaður í fyrra og ákvað að gerast kjúklingabóndi, ákvörðun sem hún sér sannarlega ekki eftir. Gunnþórunn Jónsdóttir tók viðtal við Elvu fyrir Sunnudagsmoggann í seinustu viku. Elva deildi með lesendum uppskrift af kjúklingapasta með pistasíupestói og tómat-basilíku bruschetta.

Elva Björk Barkardóttir og mæðgurnar Margrét Gunnarsdóttir og Jóna Margrét Kristinsdóttir ákváðu að stofna fyrirtækið Litla gula hænan sem sérhæfir sig í kjúklingaframleiðslu þar sem velferð kjúklinganna er í fyrirrúmi. Sérstaða fyrirtækisins er m.a. sú að kjúklingarnir þeirra fá meira rými en venjan þykir, þeir fá að fara út að viðra sig er veður leyfir auk þess sem kjúklingarnir fá óerfðabreytt fóður.

„Okkur fannst sárlega vanta þessa vöru á markaðinn og vorum sjálfar búnar að bíða lengi eftir því að hafa kosta á því að versla annars konar kjúkling en þennan hefðbundna. Við ákváðum því að láta slag standa og drífa í þessu sjálfar í stað þess að bíða þar til einhver annar gengi í verkið,“ sagði Elva. „Kjúklingurinn okkar fær einungis byggblandað óerfðabreytt fóður sem Lífland blandar sérstaklega fyrir okkur ásamt því að fá íslenskt bygg og grænmeti sem við ræktum sjálfar. Það er einnig nýjung í kjúklingaframleiðslu á Íslandi en allt fóður sem notað er í hefðbundinni kjúklingaframleiðslu er innflutt og erfðabreytt.“

Lærdómsríkt, krefjandi en skemmtilegt ferli

Elva Björk er menntaður lögfræðingur og starfaði sem slíkur til margra ára. Hún er einnig með meistaragráðu í mannréttindum og þjóðarrétti frá Friðarháskóla Sameinuðu þjóðanna. Þá hefur hún búið víða erlendis og var m.a. í námi á Kosta Ríka og í Kína. Hún gaf hins vegar lögmannsstarfið upp á bátinn til þess að gerast kjúklingabóndi og var ein af ástæðunum sú að hún vildi leggja áherslu á velferð dýra í ræktun til manneldis. Sama má segja um meðeigendur hennar, Margréti og Jónu. „Samstarfið hefur gengið vonum framar og við erum góðar vinkonur,“ segir Elva. „Við sjáum um allt sem tengist fyrirtækinu, að ala kjúklingana, bókhald, markaðssetningu, dreifingu, sölu og þar fram eftir götunum. Ferlið hefur því verið afar lærdómsríkt og að sama skapi mjög skemmtilegt.“

Viðtalið má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Sunnudagsmoggans.

Kjúklingapasta með pistasíupestói og tómat-basilíku bruschetta

  • 700-800 gr. af kjúklingakjöti frá Litlu gulu hænunni. Ég notaði kjúklingalæri en það er líka gott að hafa kjúklingabringur eða kjúklingaleggi.
  • 500 gr. tagliatelle pasta eða annað pasta sem er í uppáhaldi.

Pestó:

Hráefni:

  • 100 g pistasíuhnetur
  • 1 bolli steinselja
  • 1 bolli fersk basilíka
  • 1 dl fetaostur
  • ½ dl parmesanostur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1½ dl góð ólífuolía
  • salt og pipar

Aðferð:

Ristið pistasíuhneturnar og leggið til hliðar. Steikið kjúklingalærin á heitri pönnu til þess að loka þeim og látið þau svo eldast í 180 gráðum í ofni þangað til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Á meðan kjúklingurinn er að eldast í ofninum búið þá til pestóið. Blandið öllum hráefnunum saman í matvinnsluvél og hakkið smátt. Bætið meiri ólífuolíu í ef pestóið er þurrt. Setjið til hliðar.

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á umbúðum. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn skerið hann þá niður í smáa bita. Þegar pastað er tilbúið þá er því blandað saman við pestóið og kjúklingnum bætt við. Ég blanda oft furuhnetur og aðeins af fetaosti í olíu saman við.

Tómat-basil Bruschetta

Hráefni:

  • baguette brauð, skorið niður
  • 3 stórir tómatar
  • ½ krukka af fetaosti (ég nota oftast fetaost í kryddolíu)
  • stór lúka af ferskri basilíku
  • 1-2 hvítlauksrif
  • ólífuolía

Aðferð:

Tómatar eru skornir niður smátt. Basilíkan er rifin niður og blandað saman við tómatana. Því næst er fetaostinum ásamt smá af olíunni blandað saman við. Brauðið er skorið niður og ólífuolía sett á sneiðarnar. Setjið svo brauðsneiðarnar á álpappír og inn í ofn á 180 gráðum í nokkrar mínútur eða þangað til það er orðið smá hart. Takið þá brauðið út og setjið örlítið meira af ólífuolíu á það. Skerið hvítlauksrifin í tvennt og nuddið brauðið með hvítlauknum. Setjið svo hæfilegt magn af tómat-basil blöndunni á hverja sneið.

Áhugasamir geta svo fylgst með Litlu gulu hænunnu á facebook.

Kjúklingapasta með pistasíupestói og tómat-basilíku bruschetta.
Kjúklingapasta með pistasíupestói og tómat-basilíku bruschetta. Þórður Arnar Þórðarson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert