Appelsínukjúklingur

Appelsínuönd er auðvitað sígildur réttur úr franska eldhúsinu en þessi appelsínuönd sækir meira til þess asíska eða kannski öllu bandarísk-kínverska eldhússins.

Fyrsta skrefið er að gera appelsínumarineringu en í hana þarf:

  • safa og rifinn börk af 2 appelsínum
  • 1 góða matskeið af rifnum engifer
  • 4 pressuð hvítlauksrif
  • 2,5 dl kjúklingasoð (vatn og kraftur)
  • 1/2 dl sojasósu
  • 1 dl hrísgrjónaedik
  • 1,5 dl púðursykur
  • 1/2 msk Shriracha-chilisósu
  • örlítinn hvítan pipar

Blandið öllu saman í skál. Takið 1/3 af blöndunni frá til að nota sem sósu og geymið 2/3 til að nota sem marineringunni.

Þá þurfum við næst:

  • 800 g kjúklingabringur eða beinlaus læri
  • 2 egg
  • hveiti
  • 2,5 dl olía

Skerið kjúklinginn í litla bita. Setjið í marineringuna og láti liggja í henni um 30 mínútur. Hellið marineringunni frá.

Hitið olíuna á stórri pönnu.

Setjið egg í skál og pískið. Setjið hveiti í aðra skál. Dýfið kjúklingabitunum fyrst ofan í eggin og síðan hveiti og steikið. Bitarnir þurfa svona 2-3 mínútur í steikingu eða svo.

Á meðan eru þeir 1/3 af appelsínuleginum sem teknir voru til hliðar settir í pott ásamt um matskeið af Maizena sem búið er að leysa upp í vatni. Pískið vel saman og hitið. Leyfið suðu að koma upp og látið malla í nokkrar mínútur eða þar til sósan er farin að þykkna vel.

Blandið kjúklingabitunum saman við sósuna. Stráið sesamfræum og fínt söxuðum vorlauk yfir og berið strax fram með hrísgrjónum.

Með þessum kjúklingi er gott að hafa suðrænt Chardonnay, t.d. Laurent Miquel Vendanges Nocturnes.

Fleiri uppskriftir í sama anda finnið þið hér.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert