Blómkálssúpa með Cheddarosti

Þetta er ekta vetrarsúpa, matarmikil og bragðgóð. Blómkál hentar afskaplega vel til súpugerðar og þroskaður og fínn Cheddar-ostur fullkomnar súpuna  ásamt sítrónuberkinum.

  • 1 blómkálshaus
  • 1 púrrulaukur
  • 3-4 hvítlauksgeirar
  • 1 bökunarkartafla
  • 5 dl kjúklingasoð
  • 2,5 dl mjólk
  • 1 dós sýrður rjómi 18%
  • rifinn börkur af einni sítrónu
  • 100 g þroskaður Cheddar-ostur
  • 25 g smjör
  • olía

3 lárviðarlauf og nokkrir timjanstönglar bundnir saman í kryddvönd

Skerið púrrulauk í litlar sneiðar og fínsaxið hvítlaukinn. Skerið blómkál og kartöflu niður í bita.

Hitið smjör og olíu í þykkum potti og mýkið púrrulauk og hvítlauk. Bætið kartöflu og blómkáli saman við og steikið í um fimm mínútur. Bætið þá mjólk og kjúklingasoði saman við ásamt kryddvöndinum. Látið suðu koma upp og leyfið að malla í 20-25 mínútur. Maukið í matvinnsluvél eða með töfrasprota.

Bætið sýrða rjómanum út í pottinn og sítrónuberki og þeytið vel saman. Rífið ostinn og hrærið saman við.

Setjið í skálar og skreytið með rifnum osti og sítrónuberki og Cayennepipar.

Fleiri súpuuppskriftir finnið þið hér. 

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert