Majónesið verður ekki gult ef það er blandað

Marentza Poulsen kennir réttu handtökin í Salt eldhúsi á morgun.
Marentza Poulsen kennir réttu handtökin í Salt eldhúsi á morgun.

Matargyðjan Marentza Poulsen er hrifnust af brauðtertum með sjávarréttum. Hún segir að brauðtertur hafi margt umfram annan brauðmat í veislur - sérstaklega það að auðvelt er að gera þær daginn áður. Brauðtertur hafa þann eiginleika að bragðast betur þegar þær eru örlítið búnar að taka sig.

Þegar Marentza er spurð hvers vegna brauðtertur séu svona vinsælar segir hún að það sé vegna þess hversu auðvelt er að búa þær til. „Þær eru bæði góðar og auðveldar. Brauðtertur eru líka eitthvað sem fólk getur gert sjálft og gert deginum áður. Það getur fólk ekki gert með snittur. Svo er hægt að hafa fjölbreytnina mikla og vera með ólíkt bragð. Brauðtertan hefur þann eiginleika að vera alltaf betri daginn eftir - það er alltaf betra þegar þetta er búið að blandast vel saman,“ segir hún.

Marentza segir skipta mestu máli að vera með rétta bragðið og að samsetningin sé rétt.

„Ef maður hefur smáhugmynd um matargerð og bragð þá geta allir gert þetta. Þegar brauðterta er skreytt skiptir miklu máli að það sé allt ofan á henni sem er inni í brauðtertunni þannig að það sé ekkert sem kemur á óvart,“ segir hún. 

Aðspurð hver sé hennar uppáhaldsbrauðterta nefnir hún sjávarrétta. „Brauðterta með rækjum og laxi er mitt uppáhald. Í hana getur maður notað kavíar og jafnvel krabbakjöt og humar. Gott er að hafa hana á tveimur hæðum, hafa aðra röðina með laxi og hina með rækjum. Það er gott að blanda því saman því rækjur eru mildari en lax er meira afgerandi. Í brauðtertum er ekki hægt að blanda tveimur afgerandi bragðtegundum saman.“

Oft er talað um það í gríni að partíið sé alveg búið þegar majónesið er orðið gult. Marentza segir engan þurfa að óttast að majónesið verði gult á mettíma en hún kann líka ráð við þessu og segir að majónes verði fljótt gult ef það er eitt og sér. Hún blandar það hins vegar með sýrðum rjóma og þannig getur brauðtertan staðið lengur.

„Það munar mjög miklu að blanda majónesið með 18% sýrðum rjóma. Hann má ekki vera með lægri prósentu því þá verður blandan svo þunn. Brauðtertan endist miklu betur ef í hana er notaður sýrður rjómi.“

Ef þig langar að læra réttu trixin geturðu skráð þig á námskeið hjá Marentzu Poulsen í Salt eldhúsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert