Kjúklingur í sítrónu- og rósmarínsósu með Orecchiette-pasta

Orecchiette mætti þýða sem litlu eyrun en þessi pastategund er dæmigerð fyrir héraðið Púglía allra syðst á Ítalíuskaganum. Það hentar mjög vel með margs konar pastasósum þar sem “litli eyrun” eru einstaklega lúnkin við að fiska upp sósuna.

Sósan með þessu kjúklingapasta er unaðsleg Miðjarðarhafsblanda – sítrónur og rósmarín auk rjóma sem gefur sósunni mýkt og þykkt. Það er hægt að skerpa á sítrónubragðinu með því að draga úr rjómanum og sömuleiðis milda það með því að auka rjómamagnið.

  • 600 g  beinlaust kjúklingakjöt, s.s. bringur, lundir eða læri, skorið í bita
  • 500 g Orecchiette-pasta
  • 1 sítróna, börkurinn rifinn og safinn pressaður
  • 2,5 dl kjúklingasoð (kraftur og vatn)
  • 2 dl rjómi
  • 1-2 vænar matskeiðar af söxuðu fersku rósmarín
  • 4-5 hvítlauksgeirar, saxaðir
  • hveiti
  • olía og smjör
  • salt og pipar

Skerið kjúklingin í litla bita og veltið þeim upp úr hveiti.

Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum.
Hitið olíu og smjör saman á pönnu. Setjið hvítlauk kjúklingabitana á pönnuna og brúnið á öllum hliðum, 2-3 mínútur. Hellið kjúklingasoðinu á pönnuna ásamt rósmarín, sítrónusafanum og fínt rifnum sítrónuberkinum. Látið malla á pönnunni þar til að vökvinn hefur soðið niður um ca helming. Bætið rjómanum út á og látið malla þar til að sósan er farin að þykkjast. Það er gott bæta örlitlu af pastasoðinu út í sósuna. Bragðið til með salti og pipar.

Berið fram með nýrifnum parmesanosti eða Grana Padano.

Fleiri pastauppskriftir finnið þið með því að smella hér. 

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert