Möndlubotn, súkkulaðikrem og hindber

Súkkulaðikaka með hindberjum.
Súkkulaðikaka með hindberjum. Ljósmynd/Berglind Guðmundsdóttir

„Hér er á ferðinni dásamlegur hráfæðiseftirréttur sem vekur lukku og kátínu þeirra sem hann bragða enda er hann ekki einungis ótrúlega bragðgóður heldur líka svo fallegur og ekki skemmir það fyrir. Hann tekur stuttan tíma í gerð, en þið gætuð kannski staldrað við kókossmjörið. Ekki veit ég hvort það fæst í heilsubúðum á Íslandi en í raun er þetta bara kókos sem er maukaður í matvinnsluvél þar til hann er orðinn fljótandi þannig að það er nú ekki flókið. Eftirréttur sem vert er að prufa…og njóta,“ segir Berglind Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur og matarbloggari á Gulur, rauður, grænn og salt. 

Botn

70 g möndlur, fínmalaðar (í matvinnsluvél)
2 msk. kakó
1 msk. kókosolía
1 msk. agave síróp

Blandið öllum hráefnunum vel saman.

Súkkulaðikrem
60 g kakó
118 ml agave síróp
50 g kókossmjör (ath ekki kókosolía)*

Blandið öllum hráefnunum vel saman.

Setjið saman
Hindber, ég notaði frosin enda mun ódýrari
Botni
Súkkulaðikremi

  1. Setjið botninn í form og þrýstið þétt niður.
  2. Hellið þunnu lagi af súkkulaðikreminu yfir botninn. Raðið hindberjum ofan á og hellið síðan ríflegu magni af súkkulaðikreminu yfir hindberin. Endið á að raða hinberjum yfir allt og þrýstið þeim aðeins niður í súkkulaðikremið. Geymið í kæli í a.m.k. 3 tíma áður en kakan er borin fram. Ég lét svo smásíróp yfir í lokin.

    Athugið að uppskriftin miðast við eitt hringlaga form með 7-8 cm í þvermál. Ég nota hinsvegar plastglas sem ég klippi botninn úr og þannig næ ég að gera 2-3 kökur. Að sjálfsögðu er hægt að leika sér aðeins með þetta.

    *Kókossmjör er ofureinfalt að gera. Látið um 3 bolla af kókosmjöli eða flögum í matvinnsluvél og maukið þar til kókosinn er orðinn fljótandi. Stöðvið matvinnsuvélina reglulega í ferlinu og skafið úr hliðunum. Þetta ætti að taka um 15 mínútur.

Þessi lítur vel út.
Þessi lítur vel út. Ljósmynd/Berglind Guðmundsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert