Köld Béarnaise-sósa á 5 mínútum

Béarnaise-sósan er ein af sígildu frönsku sósunum og hefur svo sannarlega gengið í endurnýjun lífdaga á síðustu árum og nýtur nú vinsælda sem aldrei fyrr. Hún byggir á samspili eggjarauðna, smjörs, ediks og estragons. Galdurinn er að binda fituna í smjörinu við önnur hráefni þannig að úr verði þykk sósa. Efnafræðin á bak við byggir á svokallaðri ýrulausn (emulsion) þar sem egg er notað sem bindiefni með þeytingu.

Í klassískri béarnaise er þetta gert við hita en í þessari uppskrift gerum við kalda sósu og aðferðin því áþekk því og þegar við gerum heimatilbúið majonnes eða aioli.

Ef þið viljið reyna við ekta, klassíska Béarnaise- þá finnið þið uppskrift með því að smella hér.

Stundum er hins vegar betra að hafa kalda sósu og ekki spillir fyrir að það tekur innan við fimm mínútur að búa hana til.

Hráefnin sem að við þurfum eru:

  • 4 eggjarauður
  • 2 dl olía
  • 75 g smjör
  • 1/2 dl hvítvínsedik
  • 1 msk þurrkað estragon
  • 1 tsk Dijon-sinnep
  • salt og pipar

Bræðið smjörið.  Blandið ediki og estragon saman. Skiljið eggjarauðurnar frá og setjið í matvinnsluvél. Þeytið í smástund (kannski 15 sekúndur eða svo) og byrjið þá að hella olíunni saman við í mjórri bunu. Það er best að nota hlutlausa en góða olíu. Eftir smástund þá fer sósan að þykkna og þá má byrja að hella olíunni hraðar saman við. Þeytið næst brædda smjörinu saman við (ekki hella botnfallinu sem myndast) og síðan ediki og estragon. Loks er teskeið af Dijon þeytt saman við og allt bragðað til með salti og pipar.

Voila! Sósan er tilbúin. Það er hins vegar best að geyma hana í ísskáp í einhverjar klukkustundir, jafnvel heilan sólarhring áður en hún er notuð. Þá verður hún bragðmeiri. Skreytið gjarnan með söxuðu, fersku estragoni.

IMG 0965 200x200c Köld Béarnaise sósa á 5 mínútum

Ef þið viljið taka sósuna skrefinu lengra og gefa ykkur meiri tíma er best að gera Béarnaise-grunn með því að sjóða saman edik, lauk og ferskt estragon líkt og þegar klassísk Béarnaise er gerð. Sjá uppskrift.

Notið sósuna með nautasteikinni, lambinu, á hamborgarann eða bara allt sem ykkur langar til.

Fleiri sósur finnið þið með því að smella hér.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert