Öndin frá Pichon

Það var vorið 1997 sem að ég fór í fyrsta skipti í svokallaða en primeur-smökkun í Bordeaux en þá kynna stóru vínhúsin í fyrsta skipti nýjan árgang – einhverjum dögum eða vikum áður en þau gefa síðan út fyrsta verð í forsölu (en primeur).

Blaðamaðurinn ungi frá Íslandi með vínáhugann var þarna kominn í hóp margra af þekktustu vínblaðamanna aðallega Bretlands, Frakklands, Þýskalands og Belgíu sem eyddi viku í að fara á milli svæða og smakka öll Grand Cru Classé vínin auk all nokkurra til viðbótar.

Ólík Chateau hýsa smakkanirnar á hverju svæði og sömuleiðis tóku húsin að sér á kvöldin að hýsa okkur og fæða eftir erfitt dagsverk. Í Pauillac var mér þetta árið komið fyrir á Chateau Pichon-Longueville Comtesse de Lalande. Þá réð þar húsum hefðarfrúin Madame May Eliane de Lencquesaing. Hún er dóttir Edouard Miailhe sem ásamt bróður sínum hafði keypt eignina af Lalande-ættinni árið 1925. Áratug síðar seldi hún  eignina til kampavínsfjölskyldunnar Roederer sem varð þar með þriðja fjölskyldan til að reka þetta merka og magnaða vínhús.

Madame Lencquesaing er gamaldags frönsk hefðarfrú út í fingurgómana og stýrði borðhaldinu af mikilli festu. Þjónustufólkið stjanaði í kringum okkur og hefðarfrúin var með litla bjöllu undir borðinu sem hún hringdi þegar aðstoðar var þörf. Eins og oft vill gerast á þessum slóðum voru nokkrir réttir bornir fram og vínin urðu eldri og eldri eftir því sem leið á máltíðina.

Aðalrétturinn stóð þó upp úr. Það var önd elduð með ólífum og borin fram með kartöflumús og Pichon-Lalande 1975. Einföld samsetning en algjörlega fullkomin. Þegar heim var komið var því tekið til við að reyna að endurtaka þessa stórkostlegu máltíð. Þótt yfirleitt noti ég andarbringur en ekki heila önd (af praktískum ástæðum) stendur samsetningin alveg jafnvel fyrir sínu og hefur verið enduð óteljandi sinnum síðan.

Og þetta er ekki mikið mál.

  • 2 andarbringur
  • 2 dósir af grænum steinlausum ólífum

Eldið andarbringurnar samkvæmt leiðbeiningunum sem er að finna hér. Þegar bringurnar eru komnar inn í ofninn eru ólífurnar steiktar úr andarfitunni úr bringunni sem situr eftir á pönnunni. Það má sker þær í tvennt ef vill.

Þegar andarbringurnar eru komnar úr ofninum og þær búnar að jafna sig aðeins eru þær sneiddar niður. Setjið sneiðar á diska ásamt ólífum og kartöflumús.

Kartöflumús er hægt að gera með margvíslegum hætti en ég mæli með að þið notið þessa frönsku uppskrift hér.

Því miður er ekki hægt að ganga að rúmlega 20 ára gömlu Pichon í vínbúðunum líkt og ég fékk að njóta hjá Madame de Lencquesaing þarna um árið. Vín frá systurhúsinu Pichon-Baron sem er bókstaflega hinum megin við götuna (þetta var eitt sinn sama landareignin) er hins vegar til og því tilvalið að njóta þess með öndinni. Annað vínið frá Pichon-Baron heitir Tourelles de Longueville og er ekkert slor með öndinni.

Fleiri uppskriftir af önd finnið þið með því að smella hér.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert