Appolo-eggið fær góðar viðtökur

Helgi Vilhjálmsson í Góu.
Helgi Vilhjálmsson í Góu. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

„Ætli þetta verði ekki rúmlega hundrað þúsund egg í ár, og þá eru ekki talin með allra minnstu eggin sem seljast í tugþúsundatali,“ segir Helgi Vilhjálmsson, eigandi sælgætisverksmiðjunnar Góu.

Um fimmtán ár eru síðan Góa hellti sér út í páskaeggjaslaginn og hefur fyrirtækið smám saman sótt á í harðri samkeppninni. Helgi segir að það taki langan tíma fyrir ný páskaegg að sanna sig á markaði enda geti neytendur verið íhaldssamir. Það hafi þó hjálpað mjög að páskaeggin frá Góu hafa bæði komið vel út í verðkönnunum og ekki síður í bragðprófunum, hvort sem það eru börn eða fullorðnir sem smakka.

Ómótstæðilegt kurl

Á síðustu árum hefur mikil áhersla verið lögð á þróun nýrra og spennandi páskaeggja þar sem er meðal annars horft til þeirra sem hafa sérþarfir í mataræði en líka reynt að uppfylla drauma sælkeranna.

Í ár kynnir Góa nýtt Appolo-páskaegg með fylltum lakkrís í skelinni. Íslendingar hafa lengi haldið upp á vörur Appolo, en Góa keypti lakkrísgerðina á sínum tíma. Eiga lesendur eflaust ekki í neinum vanda með að gera sér í hugarlund hversu ljúffengt eggið er, með kurluðum lakkrís með marsípanfyllingu, sem blandast saman við bragðgott súkkulaðið.

Segir Helgi að nú þegar hafi salan á þessum eggjum farið vel af stað og greinilegt að neytendur eru forvitnir. Sömu sögu er að segja um nýja hvíta páskaeggið. „Það egg er meðal annars hugsað fyrir þá sem þola ekki kakóbaunir og kakómassa, en svo er hvíta súkkulaðið líka einfaldlega bragðgott og sniðug tilbreyting á páskum. Eggið er fallega rjómagult en fyllt með sams konar sælgæti og hin páskaeggin.“

Spádómskraftar eggsins

Málshættir eru mikilvægur hluti af íslensku páskaeggjahefðinni. Landsmönnum þykir oft málshættirnir hafa eins konar spádómsgildi, eða alltént fela í sér mikilvæg skilaboð til viðtakandans. Góa hefur tekið merkilegt skref í þá átt að útvíkka þessa hefð og fengið til liðs við sig spákonuna Siggu Klingenberg. „Þetta er verkefni sem byrjaði í fyrra og hefur vakið lukku. Inni í hverju Spádómseggi er að finna skemmtilega stjörnuspá og hver veit nema þar sé að finna boðskap sem kemur sér vel á árinu framundan.“

Einnig framleiðir Góa Töfraegg í samstarfi við Einar Mikael töframann. Eru eggin ætluð yngstu kynslóðinni og hafa að geyma sniðuga töfraskífu sem nota má til að búa til einfalt galdraatriði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert