Páskasteik Völundar Snæs

Völundur Snær Völundarson með börnin sín tvö.
Völundur Snær Völundarson með börnin sín tvö. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég hef alltaf verið mikill áhugamaður um páska enda var lagt mikið upp úr því heima í Aðaldalnum, þar sem ég er fæddur og uppalinn, að gera þá fyrst og fremst eitthvað skemmtilegt,“ segir Völundur Snær Völundarson, veitingamaður á Borg Restaurant, Hótel Borg.

„Oftar en ekki var farið upp á sand, sem er svæði milli Aðaldals og Mývatns, en þar er yfirleitt snjór á þessum árstíma. Þá voru vélsleðar notaðir til að draga okkur krakkana á uppblásnum gúmmíslöngum og eitt árið vorum við enn stórtækari og notuðumst við gúmmíbát. Þetta var alltaf mikið ævintýri og í minningunni voru ferðirnar upp á sand hápunktur páskahátíðarinnar.

Það var vinsælt hjá okkur krökkunum fyrir norðan að reisa snjóhús. Það er frábær og holl skemmtun og eitt sinn sváfum við í snjóhúsinu okkar, við vorum búin að stúdera málið vel og lifðum öll af nóttina. Útivera einkenndi páskana alla mína æsku og þannig hefur það líka alltaf verið hjá okkur fjölskyldunni.“

Girnilegt nesti

Völundur Snær viðurkennir að sökum anna hafi hann minni tíma nú en áður til að slaka á yfir páskahátíðina. „Ég er ekki alltaf í fríi þá, veitingabransinn er eins og hann er og stundum er ég á haus í vinnu alla páskana. Þegar ég get rifið mig lausan reynum við fjölskyldan þó alltaf að stunda útivist og drífum okkur oftast norður. Við leitum uppi snjóinn og förum á skíði og bretti, rennum okkur á sleða og byggjum snjóhús.

Í mínum huga snúast páskarnir um fjölskylduna og vinina, notalegar samverustundir, góðan mat, útiveru og ævintýri. Ég elda alltaf eitthvað gott á páskum eins og gengur og gerist, oft lambakjöt, og legg mikið upp úr góðu nesti, alvörusamlokum og öðru í þeim dúr til að taka með þegar við fjölskyldan förum út að leika. Svo reynum við að hafa góða stjórn á sykurátinu, þannig að krakkarnir fá bara eitt egg hvort og það í smærri kantinum.“

Spurður út í páskaplönin í ár segir hann ekkert ákveðið enn. „Ég verð í fríi og hlakka til að eyða góðum tíma með Þóru og börnunum. Ég reikna með að við höfum þetta eins og venjulega, fylgjum veðurspánni og eltum góða veðrið. Við gerum eitthvað skemmtilegt saman, svo mikið er víst, og þar mun snjórinn koma við sögu.“

Ungar að norðan

Völundur Snær segist aldrei eiga þátt í því að koma heimilinu í hátíðarbúning á páskum, skreytingar séu ekki hans sterkasta hlið. „Mitt eina framlag er páskaungasafnið sem ég hef átt frá því að ég var krakki og mér finnst vænt um. Ég geymdi það lengi fyrir norðan hjá mömmu og pabba en nú er það komið hingað suður.

Þóra er sérlegur stílisti heimilisins og ég læt henni það eftir að skapa páskastemningu, með lifandi blómum og páskaskrauti sem börnin hafa föndrað. Á æskuheimili mínu er það aftur á móti pabbi sem er skreytingameistarinn og hann sinnir starfinu með miklum sóma. Það er því aldrei að vita nema ég verði sjálfur tekinn til við að skreyta heimilið innan fárra ára.“

Framandi siðir

Völundur Snær og fjölskylda voru búsett á Bahama-eyjum í 12 ár og var jafnan mikið líf og fjör á heimilinu á páskum, að hans sögn. „Þá fengum við alltaf góða gesti að heiman og gerðum ýmislegt skemmtilegt með þeim. Oftar en ekki var húsfyllir og vel það. Þá fóru dagarnir í að slæpast á ströndinni og grafa holugrill í sandinn, sigla, stunda stórveiðar, kafa eftir humri eða annað í þeim dúr. Eitt sinn veiddi tengdafaðir minn tveggja metra langan hákarl á stöng, geri aðrir betur.

Páskarnir í Karíbahafinu voru alltaf skemmtilegir og þeir buðu ekki upp á sömu vonbrigði og jólin. Í jólafríum komu ættingjar og vinir til okkar í stórum stíl, en nenntu ekki að burðast með íslenskan mat, hangikjöt og annað, alla þessa löngu leið. Á páskum vorum við hins vegar alltaf í góðum málum og fengum okkar egg að heiman, enda gátu gestirnir sjálfir ekki hugsað sér að verða af íslenskum páskaeggjum.“

Nýtt á Borg

Völundur Snær starfar eins og áður sagði sem veitingamaður á Borg Restaurant; reksturinn hefur legið niðri um nokkurt skeið vegna hótelframkvæmda en nú styttist í opnun sem er áætluð í maí. „Fyrir rétt rúmu ári var ráðist í stækkun Hótels Borgar sem olli því að við urðum að loka veitingastaðnum. Góðu fréttirnar eru þær að með breytingunum fáum við splunkunýja veislusali og eitt fullkomnasta eldhús landsins, þannig að við erum mjög spennt.

Veitingastaðurinn Borg Restaurant verður að mestu óbreyttur, sem og Gyllti salurinn, en þar sem Skuggabarinn var áður eru nú glæsilegir salir sem nýtast fyrir veislur, fundi, erfidrykkjur og allt þar á milli. Húseigendur og hönnuðir hafa lagt gríðarlegan metnað í verkið, sem miðar að því að líkja sem mest eftir Borginni eins og margir muna hana, glæsilega og virðulega, og útkoman er ákaflega vel heppnuð.

Á Borg Restaurant höfum við notað tímann vel til undirbúnings. Sem dæmi má nefna að nýi yfirkokkurinn okkar, Aníta Ösp Ingólfsdóttir, hefur undanfarna mánuði dvalið í Bandaríkjunum þar sem hún hefur starfað á ýmsum virtum veitingahúsum og aflað sér enn frekari þekkingar og reynslu. Það verður spennandi að opna upp á gátt í maí með nýjum og breyttum matseðlum og við hlökkum til að taka á móti góðum gestum.“

Völundur Snær deilir uppskriftum að páskamáltíð fjölskyldunnar í ár.

Laxatartar með skyri

125 g reyktur lax, smátt saxaður

75 g hreint skyr

50 g mæjones

1 msk. ólífuolía

Saxið laxinn smátt og blandið öllu öðru hráefni vel saman við. Kryddið eftir smekk með salti og pipar. Borið fram með góðu brauði, jafnvel snittubrauði, og gott er að hafa það léttristað.

Páskalambaskankar

fyrir fjóra

4 lambaskankar

1 rauðlaukur, grófskorinn

4 hvítlauksgeirar

8 greinar af fersku timían

4 greinar ferskt rósmarín

2 meðalstórar gulrætur

½ grófskorinn blaðlaukur

1 msk. heil, svört piparkorn

2 lárviðarlauf

1 teningur nautakraftur

Hitið ofnpottinn, hellið einni matskeið af ólífuolíu út í og léttbrúnið skankana. Setjið síðan grænmetið og kryddið ofan í, hellið rauðvíninu yfir, bætið við nautakraftinum og fyllið upp með vatni. Látið suðuna koma upp og setjið þá pottinn, með lokinu á, inn í ofn og eldið í fjóra tíma við 100 gráður.

Takið skankana upp úr, sigtið frá soðið og sjóðið það niður um ¾, smakkað til með salti og pipar og notið sem sósu.

Gljáanum er loks smurt utan á skankana og þannig eru þeir bakaðir í ofni við 180 gráður í 10-15 mínútur, eða þangað til skankarnir eru orðnir glansandi fínir og girnilegir.

Gljái á lambaskanka

1 msk. dijon sinnepsfræ

1 msk. dijon sinnep

1 dl ólífuolía

1 tsk. þurrkað, mulið rósmarín

1 tsk. paprikuduft

1 tsk. chili pipar

1 msk. hunang

1 hvítlauskgeiri, rifinn

Öllu blandað saman í skál með pískara og saltað og piprað eftir smekk.

Ofnsteikt rótargrænmeti

4 gulrætur

1 rófa

1 sellerírót

1 stór sæt kartafla

1 bökunarkartafla

1 lítið fennel

12 sveppir

8 greinar timían

4 msk ólífuolía

Skerið grænmetið niður í u.þ.b. þumlungsstóra bita. Blandið grænmetinu saman við ólífuolíuna, saltið og piprið og setjið í eldfast mót og bakið í ofni við 180 gráður í 15-20 mín eða þar til grænmetið er tilbúið.

Hátíðarrauðkál

1,5 kg rauðkálshaus

2 perur

2/3 dl rauðvínsedik

1 dl brúnn sykur

2/3 dl appelsínuþykkni

½ tsk salt

2 msk. smjör

Skerið rauðkálshausinn í fernt, fjarlægið kjarnann og skerið blöðin í fínar sneiðar. Skrælið perurnar og skerið í litla teninga. Því næst er allt hráefnið sett í pott, suðan látin koma upp og látið krauma í um tvo tíma. Smakkið til eftir um klukkustund til að kanna hvort bæta þurfi við sykri, ediki eða appelsínuþykkni. Látið sjóða áfram þar til rauðkálið er tilbúið. Þá er það kælt niður, sett í fallegar krukkur og geymt í kæli.

Völundur Snær Völundarson með börnin sín tvö, Móu og Baldvin.
Völundur Snær Völundarson með börnin sín tvö, Móu og Baldvin. mbl.is/Styrmir Kári
Völundur og börnin í eldhúsinu.
Völundur og börnin í eldhúsinu. mbl.is/Styrmir Kári
Ofnbakaðir lambaskankar.
Ofnbakaðir lambaskankar. mbl.is/Styrmir Kári
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert