Skellti í dásamlega vegan-marenstertu

„Vegan“-maregnstertan hennar Júlíu er svakalega girnileg.
„Vegan“-maregnstertan hennar Júlíu er svakalega girnileg. Ljósmynd: Veganistur

„Veganistur-síðan var stofnuð fyrir rúmu ári af mér, stóru systur minni og tveimur vinkonum hennar. Við lifum allar vegan-lífsstíl og fannst sniðugt að deila hugmyndum okkar úr eldhúsinu með öðru fólki sem hefur áhuga á veganisma,“ segir Júlía Sif Ragnarsdóttir sem skellti nýverið í dásamlega vegan-marenstertu.

„Á síðunni má finna fjölbreytt úrval af uppskriftum og við erum líka duglegar við að skrifa um vegan-vörur sem við mælum með,“ útskýrir Júlía sem deilir hér uppskriftinni að vegan-marenstertunni með lesendum.

„Hugmyndina að vegan-marensinum fékk ég í facebookhópi sem kallar sig „What fat vegans eat“. Þar deilir fólk hvaðanæva úr heiminum myndum af matnum sem það eldar og oftast nær eru myndirnar af frekar óhollum kræsingum. Fyrir um það bil tveimur mánuðum deildi einhver mynd af litlum marenstoppum sem viðkomandi hafði búið til úr vatninu sem fylgir kjúklingabaunum í dós. Eins fáránlega og þetta hljómar kom marensinn út alveg eins og þessi hefðbundni. Síðan þá hefur þetta verið mjög vinsælt og fólk út um allan heim er að prófa sig áfram í vegan-marensgerð. Mér fannst þetta spennandi og ákvað að útbúa kornflexköku, sem var ein af mínum uppáhalds þangað til ég gerðist vegan. Ég get sagt að þessi terta gefur hinni gömlu góðu marensköku ekkert eftir.“

Vegan-marensterta

  • 150 ml vatn af kjúklingabaunum í dós
  • 200 g flórsykur
  • 2 bollar kornflex
  • 1 tsk lyftiduft
  • 200 ml soyatoo-rjómi
  • askja jarðarber, niðurskorin
  • hvítt vivani-núgatsúkkulaði eftir smekk
  • vegan-smjör
  • púðursykur
  1. Vatnið af kjúklingabaunum í dós er sett í hrærivél og þeytt mjög vel þar til það er orðið froðukennt. Þá er flórsykrinum hellt út í hægt á meðan hrærivélin þeytir á litlum hraða.
  2. Þetta er þeytt mjög vel eða í allt að hálftíma, þar til blandan er mjög stíf. Kornflexi og lyftidufti er hrært varlega við blönduna með sleif. Deiginu er svo skipt í tvo botna á plötu og bakað við 150°C í 30 mín.
  3. Botnarnir verða að kólna alveg áður en þeir eru teknir af plötunni. Þá er soyatto-rjóminn úr fernu þeyttur. Niðurskornum jarðarberjum og hvítu súkkulaði er þá bætt út í. Rjóminn er settur á milli botnanna.
  4. Ofan á kökuna fer svo heimatilbúin karamella. Í hana fara um það bil sömu hlutföll af vegan-smjöri og púðursykri sem brætt hefur verið saman við lágan hita. Þá er smávegis af óþeyttum soyjatoo-rjóma hellt út í og suðan látin koma upp og karamellan látin malla í um þrjár mínútur. Karamellan þarf að kólna alveg áður en henni er hellt yfir kökuna.


„Soyatoo-rjóminn fæst meðal annars í Hagkaupum, Nettó, Víði og heilsuhúsinu. Hann fæst bæði tilbúinn sem sprauturjómi og einnig í fernu þar sem maður þeytir hann sjálfur. Ég mæli frekar með þeim í fernunni. Vivani-súkkulaðið fæst í Nettó,“ segir Júlía.

Helga María Ragnarsdóttir (t.v) og Júlía Sif Ragnarsdóttir eru meðal …
Helga María Ragnarsdóttir (t.v) og Júlía Sif Ragnarsdóttir eru meðal þeirra sem halda úti síðunni Veganistur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert