New York-stemningin sló í gegn

Ylfa Helgadóttir kokkur á Kopar.
Ylfa Helgadóttir kokkur á Kopar. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ylfa Helgadóttir kokkur og einn af eigendum Kopar fagnar 2 ára afmæli staðarins um þessar mundir. Af því tilefni er boðið upp á sérstakan afmælismatseðil til 24. maí.

„Það verða rosaleg tilboð í gangi á þessum tíma og við vonum að sem flestir láti sjá sig og fagni með okkur. Veitingarekstur er erfiður bisness og við erum mjög stoltar af árunum okkar tveim,“ segir Ylfa og segir að með afmælismatseðlinum sýni þær gestum sínum þakklæti því án þeirra væru þær ekki hér í dag.

„Við byrjuðum með svona New York concept þar sem við vorum alveg heillaðar af veitingastaðamenningunni í New York. En hún einkennist af góðum mat og þjónustu og frábærri stemningu. Að það sé upplifun að fara út að borða. Það sló alveg í gegn og við ætlum að halda ótrauðar áfram með okkar concept vonandi í mörg ár í viðbót,“ segir hún.

Í tilefni af afmælinu ætlar Ylfa að gefa uppskrift að gómsætum þorski með kryddjurtum (fyrir fjóra).

Þorskur með kryddjurtum.
Þorskur með kryddjurtum. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Pönnusteiktur þorskur 

800 g þorskhnakki, skorið í fallegar steikur

Steikurnar lagðar á stykki til að þerra fiskinn. Það eykur líkurnar á fallegri steikingar húð. Panna hituð og skvett á hana smáólífuolíu. Síðan er steikurnar lagðar varlega á pönnuna og steiktar í ca 3-4 mín sitthvoru megin. 

Kúrbítsspagettí með kremaðri kasjúsósu

2 stk. kúrbítur

200 g kasjúhnetur

1 hvítlauksgeiri

1 l vatn

1 tsk. salt

Kúrbítur er skorinn í ræmur - annaðhvort í þar til gerðri spagettivél, eða bara með hníf. Kasjúhnetur lagðar í bleyti í vatninu í tvær klukkustundur. Næst eru þær settar í blandara með hvítlauksgeira, salti og smá af vatninu sem þær lágu í. Því meira vatn því þynnri verður sósan. Fer eftir smekk hvers og eins hversu mikið vatn er notað.

Kúrbítsspagettiíð er sett í pott með smáolíu og hitað á milli hita þar til það byrjar aðeins að eldast. Þá er kasjúsósan sett út á. 

Gúrkusalat með rækjum og dilli

1/2 gúrka

100 g rækjur

1 búnt dill, smátt saxað (má sleppa)

góð olía ( ég nota sítrónuolíu )

Gúrkurnar eru skornar þvert og síðan kjarninn skafinn úr með skeið. Því næst eru þær skornar í mjóar ræmur.

Síðan er rækjunum og dillinu blandað saman við gúrkurnar. 

Það er rosa gott að setja bara góða olíu yfir allt, og kannski raspa smásítrónu til að fá smáferskleika. 

Basilmæjó

1 búnt basil

250 ml majones

1/2 sítróna - safinn

1/2 tsk. salt

Allt sett í blandara og maukað þar til áferðin er silkimjúk.

Kryddjurtasalat

50 g vatnakarsi

50 g kerfill

Athugið að hægt er að nota hvaða kryddjurtir sem er, til dæmis dill, graslauk, basil, myntu, steinselju eða bara salat eins og rucola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert