Eurovision er okkar HM

Berglind Guðmundsdóttir matarbloggari á Gulur Rauður Grænn og Salt.
Berglind Guðmundsdóttir matarbloggari á Gulur Rauður Grænn og Salt. mbl.is

„Ég hef meira að segja farið til útlanda með vinkonunum til að horfa á Eurovision,“ segir Berglind þegar hún er innt nánar eftir því hversu alvarlega hún tekur áhugann. Þegar Hera Björk keppti fyrir hönd Íslands í Noregi árið 2010 með lagið Je ne sais quoi fóru Berglind og vinkonurnar til Óslóar til að taka þátt í stemningunni og hún segir það hafa verið ógleymanlegt. „Við fórum semsagt á generalprufuna og vissum ekkert við hverju var að búast en þetta var algerlega magnað. Svo horfðum við aftur á allt prógrammið í keppninni um kvöldið. Þegar maður hafði fengið að upplifa þetta allt saman í þessari nálægð skildi maður loks hvað fólk er að tala um; þetta er bara ólýsanlegt. Alveg meiriháttar.“

Heilög stund á hverju ári

Berglind er svo lánsöm að hafa vinkvennahóp í kringum sig sem deilir áhuganum á Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og hefur svo verið um árabil. „Við vorum allar saman í grunnskóla og þetta er heilög stund á hverju ári hjá okkur, þegar við hittumst yfir Eurovision.

Við hittumst alltaf með börnin til að horfa á keppnina yfir góðum mat. Stemningin er bara svo skemmtileg í kringum keppnina. Þetta er eiginlega okkar HM,“ bætir Berglind við og hlær.

Aðspurð segir Berglind að viðhorf hennar gagnvart íslenska laginu gangi gegnum ákveðið ferli á hverju ári. „Fyrst í stað heilla íslensku lögin mig heldur takmarkað og þá er ég yfirleitt handviss um að öll okkar þátttaka í keppninni fari fjandans til. Svo hlustar maður aftur, og aftur, og þá fer þetta heldur að skána. Loks eru svo nokkur lög sem manni þykja flott og skemmtileg. Íslenska lagið sem valið er til keppninnar vinnur svo sífellt á þangað til á lokakvöldinu, þá er ég orðin handviss um að við vinnum,“ segir Berglind og hlær dátt. „Þannig gengur þetta alltaf. Þjóðarstoltið segir alltaf til sín og stemningin nær um leið yfirhöndinni.“

Þegar talið berst svo að þátttöku Íslands í ár, í flutningi Maríu Ólafsdóttur, leynir sér ekki að Berglind hefur talsvert dálæti á söngkonunni ungu. „Mér finnst María alveg dásamleg. Þegar haft er í huga hvað hún er ung þá finnst mér hún alveg ótrúlega örugg og glæsileg. Frábær söngkona.“ Berglind hefur hinsvegar svolítinn fyrirvara á laginu sjálfu.

„Já, ég veit það ekki – en hún gerir þetta svo vel að ég hlakka mikið til að sjá hana á sviði. Kjóllinn er líka svo fallegur og gaman að sjá hana berfætta á sviði.“

Á María þá ekki eftir að syngja okkur yfir í úrslitin?

„Jú, það held ég. Hún tekur þetta á tásunum! Ég spái laginu okkar svo 10. sæti á lokakvöldinu en vona auðvitað að hún lendi jafnvel enn ofar.“

Hún lætur hér nokkrar girnilegar og gómsætar uppskriftir fylgja með sem myndu sóma sér í hvaða Eurovision-partíi sem er.

Rjómaostafylltur kjúklingur

með jalapeno

8 stk. kjúklingalundir, flattar út og skornar í tvennt

80 g rjómaostur, mjúkur

1 ferskur jalapeno-pipar (má líka nota úr krukku), fræhreinsaður og saxaður smátt

8 sneiðar beikon, skornar í tvennt.

Látið ½ tsk. af rjómaosti á hvern kjúklingabita. Stráið ¼ tsk. af jalapeno yfir rjómaostinn. Rúllið kjúklingnum upp og vefjið beikoni utan um og festið með tannstöngli. Grillið eða eldið í ofnföstu móti við ca. 200°C þar til kjúklingurinn er fulleldaður.

Ofnbakaðir partíborgarar

með sesamgljáa

Uppskrift að fyrirmynd www.kevinandmanda.com

500 g nautahakk

1 rauðlaukur, skorinn smátt

3-4 hvítlauksrif, pressuð

1 tsk. salt

1 tsk. pipar

1 tsk. cumin (ath. ekki kúmen)

½-1 tsk. paprikuduft

1 dós saxaðir tómatar, vökvinn skilinn frá

ostur í sneiðum, nóg af honum

6 meðalstór hamborgarabrauð

Gljái

8 msk. smjör

2 msk. púðusykur

1 msk. worcestershire-sósa

1 msk. dijon-sinnep

1 msk. sesamfræ

Setjið olíu á pönnu og hitið vel. Setjið nautahakkið á pönnuna og kryddið með salti, pipar, cumin og paprikukryddi. Bætið lauk og hvítlauk saman við og hrærið reglulega í öllu þar til kjötið hefur brúnast. Hellið tómötunum út í og blandið vel saman.

Raðið neðri hluta hamborgarabrauðanna í ofnfast mót. Skiptið nautahakkinu niður á brauðin og setjið síðan ríflegt magn af ostasneiðum yfir nautahakkið. Látið efri hluta brauðsins yfir ostinn. Gerið gljáann með því að setja allt í pott og hita vel saman. Hellið gláanum yfir hamborgarana. Bakið við 175°C í um 25 mínútur.

Kökudeigskúlur

75 g smjör, mjúkt

65 g púðursykur

2 tsk. vanilludropar

128 g hveiti

80 g súkkulaðidropar

100 g dökkur súkkulaðihjúpur

sjávarsalt (má sleppa)

Blandið smjöri, púðursykri og vanilludropum saman í skál. Bætið hveiti saman við og hrærið öllu saman. Að lokum eru súkkulaðidroparnir settir út í og öllu hnoðað saman. Gerið kúlur úr deiginu. Bræðið súkkulaðihjúpinn í skál í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Setjið kúlurnar eina í einu í hjúpinn, notið tvær skeiðar og veltið kúlunum í súkkulaðinu. Setjið kúlurnar á smjörpappír og leyfið þeim að harðna. Geymið í kæli eða frysti.

Litríkt sumarsalsa með vatnsmelónu

½ vatnsmelóna

½ rauðlaukur, saxaður

1 rauð paprika, skorin smátt

1 appelsínugul paprika, skorin smátt

1 gul paprika, skorin smátt

2 fersk jalapenos (má nota úr krukku), fræhreinsuð og skorin smátt

1 búnt kóríander, saxað

safi úr 1 límónu

1 msk. hunang eða agavesíróp

½ tsk. salt

Blandið öllu saman í skál og berið fram með nachos-flögum, kexi eða baguette-brauði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert