Bræður „bökuðu“ súkkulaðikúlur

Synir mínir bökuðu þetta sjálfir og sáu svo um að …
Synir mínir bökuðu þetta sjálfir og sáu svo um að borða herlegheitin hjálparlaust. mbl.is/Marta María

„Mamma, getum við bakað,“ spurðu synir mínir, Helgi og Kolbeinn Ari Jóhannessynir, á dögunum. Þeir eru vanir því að móðir þeirra standi fyrir framan eldavélina eða bakarofninn en sökum flutninga hefur aðeins of lítið farið fyrir eldamennsku síðustu tvo mánuðina eða svo.

Það þarf samt enginn að örvænta, við þrjú erum ekkert að svelta þrátt fyrir eldhúsleysi. Síðustu tvo mánuðina hefur móðirin lifað á grænum drykkjum og chia-graut og svo höfum við staðið okkur ágætlega í að heimsækja allar heimsins búllur og heilsuveitingastaði sem fyrirfinnast á höfuðborgarsvæðinu.

Aftur að bakstrinum. Þar sem enn er ekki búið að tengja bakarofninn vegna framkvæmda þurfti móðirin að reyna að láta sér detta eitthvað sniðugt í hug. Upp í hugann kom uppskriftin að gömlu góðu kókoskúlunum en þar sem ekkert kókósmjöl var til á heimilinu þurfti að experimenta aðeins með þetta. Við tíndum til allt sem okkur þykir gott eins og banana, 70% súkkulaði, haframjöl, kakó og gróft hnetusmjör og byrjuðum að leika okkur. Þótt móðirin hafi pródúserað þetta í byrjun tóku bræðurnir við keflinu þegar allt var komið í skál. Þeir bræður hrærðu þetta hjálparlaust og bjuggu til þessar fínu kúlur (og létu draslið sem fylgir flutningum ekki stoppa sig eða eyðileggja fyrir sér matreiðsluna).

Kolbeinn Ari æfir sig í að búa til súkkulaðikúlur.
Kolbeinn Ari æfir sig í að búa til súkkulaðikúlur. mbl.is/Marta María

2 bollar haframjöl

1 bolli möndlumjöl

3 msk kakó

2 vel þroskaðir bananar

3 kúfaðar matskeiðar gróft lífrænt hnetusmjör

1 bolli 70% súkkulaði

1 msk vatn

Við settum haframjölið og möndlumjölið í skál en banana, kakó, hnetusmjör og vatn í blandara og þeyttum það saman þangað til það varð að hálfgerðri sósu sem við helltum svo í skálina. Súkkulaðið skar móðirin niður frekar gróft og bætti út í deigið. Þá var þetta hrært saman og búnar til súkkulaðikúlur sem var raðað snyrtilega á bakka. Við settum þær svo í hálftíma inn í frysti áður en þær voru etnar upp til agna af bræðrunum.

Það er heilmikið mál að búa til súkkulaðikúlur og ennþá …
Það er heilmikið mál að búa til súkkulaðikúlur og ennþá meira mál að hafa þær allar í sömu stærð. mbl.is/Marta María
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert