Lambafile harissa með möndlu og rúsínu-tabbouleh

Harissa sem er í lykilhlutverki í þessari uppskrift er chili-mauk sem er mjög mikið notað í matargerð Maghreb-svæðisins í Norður-Afríkur, það er Túnis, Alsír og Marokkó. Það er hægt að fá harissa í dósum í nær öllum stórmörkuðum (það sem fæst hér er ekki eins sterkt og það sem yfirleitt er notað í t.d. Túnis) og það er líka hægt að gera sitt eigið harissa. Uppskrift af harissa finnið þið með því að smella hér.

Í marineringuna þurfum við eftirfarandi:

  • 3 vænar msk harissa
  • safi úr einni sítrónu
  • 1 dl ólífuolía
  • 4-6 maukaðir hvítlauksgeirar
  • 1 msk kóríander
  • 1 msk cummin
  • 1 tsk salt

Blandið öllu saman. Takið um 1/3 frá fyrir sósuna og veltið síðan kjötinu upp úr marineringunni. Látið marinerast í ísskáp í 2-3 klukkustundir eða lengur.

Í jógúrtsósuna þurfum við

  • 1 dós af grísku jógurti
  • 1/3 af harissamarineringunni
  • 1 væn lúka af mjög fínt saxaðri myntu

Blandið saman og geymið í ísskáp þar til að sósan er borin fram.

Með lambinu berum við einnig fram tabbouleh úr couscous en í það þurfum við:

  • 4 dl couscous
  • 5 dl vatn
  • 1 msk kjúklingakraftur
  • 1 laukur saxaður
  • 1 lúka ristaðar möndluflögur
  • 2 dl súltanínur (ljósar rúsínur)
  • safi úr einni sítrónu
  • fínt rifinn börkur af einni sítrónu
  • 1 fínt saxaður tómatur
  • 1 lúka saxaðar kryddjurtir, steinselja og/eða mynta
  • ólífuolía
  • salt og pipar.

Byrjið á því að setja súltanínurnar (það má líka nota rúsínur) í skál. Blandði sítrónusafanum saman við ásamt sítrónuberkinum.

Setjið bökunarpappír á plötu og dreifið möndluflögunum á plötuna. Ristið þær í 180 gráðu heitum ofni þar til að þær byrja að taka á sig lit. Passið vel upp á að þær brenni ekki. Takið út og geymið.

Hitið olíu á pönnu og mýkið saxaðan laukinn í nokkrar mínútur á miðlungshita. Bætið þá vatninu út á pönnuna og leyfið suðunni að koma upp. Hrærið couscous saman við. Slökkvið á hitanum eftir um eina mínútu og látið standa á meðan að couscousið er að draga í sig vökvann og mýkjast. Þegar það er ekki lengur hart undir tönn er möndluflögum, súltanínu og kryddjurtum hrært saman við. Það er gott að setja smá af góðri ólífuolíu út í líka. Bragðið til með salti og pipar.

Grillið lambafile og berið fram með couscous og jógúrtsósunni.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert